Tollar á innfluttar landbúnaðarvörur

mánudagur, 3. janúar 2011 - 16:15

 

Háir tollar eru lagðir á flestar innfluttar landbúnaðarvörur og er það hluti af verndarstefnu íslenskra stjórnvalda. Þessi verndarstefna skerðir valfrelsi neytenda og ekki verður séð að rök eins og matvælaöryggi réttlæti á nokkurn hátt himinháa tolla á vörum eins og ostum, m.a. ostategundum sem eru ekki framleiddar hér á landi.

Tollar á ostum
Innfluttir ostar bera háa tolla, eða 30%, auk þess sem lagt er 430 – 500 kr. gjald á hvert kíló. Það þarf því ekki að koma á óvart að úrvalið af innfluttum ostum er afar lítið. Samkvæmt tvíhliða samningi við Evrópusambandið er heimilt að flytja inn allt að 100 tonn af ostum frá löndum sambandsins án tolla. Þessi kvóti er hins vegar boðinn út og því bætist útboðskostnaður við innkaupsverðið. Neytendasamtökin hafa gagnrýnt þessa leið og lagt til að kvótanum verði úthlutað samkvæmt hlutkesti. 

Tollasamningar gilda ekki á Íslandi
Samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar skal hvert aðildarland heimila innflutning á 3 – 5% af innanlandsneyslu, í þeim tilgangi að tryggja ákveðinn lágmarksaðgang erlendra landbúnaðarafurða á lægri tollum en ella gilda. Til skamms tíma voru þessir lægri tollar miðaðir við ákveðna krónutölu sem lagðist á hvert kíló við innflutning og var um tiltölulega lága upphæð að ræða. Með reglugerð landbúnaðarráðherra frá árinu 2009 var tollum á smjöri og ostum breytt úr krónutölu í prósentu og eru tollarnir nú 182%-193% á ostum og 216% á smjöri.

Seljendur mótmæla
Samtök verslunar og þjónustu sendu nýlega erindi til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir þessari breytingu. Samtökin benda á að þessi breyting á tollum auk óhagstæðrar gengisþróunar hafi leitt til þess að innflutningur á grundvelli tollkvóta sé í raun útilokaður. Innfluttar vörur geti einfaldlega ekki keppt við þær innlendu í verði.

Tollar á kjöti
Innflutt kjöt ber háa tolla en þó er munur á þeim eftir því hvort kjötið kemur frá löndum innan Evrópusambandsins eða utan. Þannig er 18% tollur á innfluttum kjúklingabringum sem framleiddar eru í ESB-löndum, auk 540 króna magntolls á hvert kíló, en ef kjúklingabringurnar eru fluttar inn frá löndum utan ESB  er tollurinn 30% og magntollurinn 900 krónur. Nautalund innflutt frá ESB-landi ber 18% toll auk 877 króna magntolls en komi hún frá landi utan ESB er tollurinn 30% og magntollurinn 1.462 krónur. Það sama gildir um svínakjöt en svínalund frá ESB ber 18% toll auk 717 króna magntolls en annars 30% toll og 1.195 króna magntoll.

Farið í kringum samninga
Samkvæmt tvíhliða samningi við Evrópusambandið er heimilt að flytja inn allt að 100 tonn af  nautakjöti, 200 tonn af svínakjöti og 200 tonn af alifuglakjöti án tolla. Rétt eins og með ostana er þessi kvóti boðinn út hér á landi og bætist því útboðskostnaður við innkaupsverðið. Stjórnvöld koma þannig í veg fyrir að neytendur njóti góðs af milliríkjasamningum sem hafa það markmið að auka viðskipti milli landa og lækka vöruverð. Neytendasamtökin krefjast þess að stjórnvöld endurskoði þá verndarstefnu sem hér hefur verið við lýði með hagsmuni neytenda að leiðarljósi.

Jóhannes Gunnarsson
formaður Neytendasamtakanna

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu þann 27.09 2010 og í 3. tbl. Neytendablaðsins 2010