Um bílalánasamninga Lýsingar

mánudagur, 10. janúar 2011 - 16:15

 

Þann 28. desember sl. tóku gildi svokölluð gengislánalög efnahags- og viðskiptaráðherra. Lögin eru sett með það að leiðarljósi að auðvelda endurútreikning og uppgjör gengistryggðra lána og eyða óvissu varðandi gengistryggð lán. Frekari upplýsingar um lögin má finna á heimasíðu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

Sumir bílalánasamningar Lýsingar voru þannig að hluti lánsfjárhæðarinnar var gengistryggður en hluti í íslenskum krónum. Frá því samningarnir voru gerðir hefur Lýsing innheimt verðbætur af íslenska hluta lánanna eins og um verðtryggt lán væri að ræða. Í sumum tilvikum virðist þó hvergi koma fram á samningunum sjálfum að íslenski hlutinn eigi að vera verðtryggður og nú hefur áfrýjunarnefnd neytendamála staðfest ákvörðun Neytendastofu frá 30. júlí sl. um að Lýsingu sé óheimilt að innheimta verðbætur af slíkum samningum.

Lýsing hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að félagið muni ekki hlíta úrskurðum áfrýjunarnefndar neytendamála og Neytendastofu og muni halda áfram að innheimta umrædd lán eins og ekkert hafi í skorist. Neytendasamtökin mótmæla þessum vinnubrögðum harðlega og furða sig á því að leyfisskylt fjármálafyrirtæki sjái ekkert sjálfsagðara en að hunsa ákvarðanir opinberra stjórnvalda og í stað þess að semja við neytendur um sanngjarnt uppgjör þessara lána muni félagið draga neytendur fyrir dómstóla í enn eitt sinn.

Neytendasamtökin telja að uppgjör umræddra samninga eigi að fara þannig fram að þann hluta samningsins sem sé gengistryggður beri að endurreikna í samræmi við nýsett lög efnahags- og viðskiptaráðherra. Sá hluti samninganna sem er í íslenskum krónum á hins vegar ekki að bera verðtryggingu hafi ekki verið samið um verðtryggingu í upphafi og eðlilegt að Lýsing endurgreiði neytendum þær verðbætur sem hafa verið greiddar. Einnig telja samtökin að Lýsingu sé ekki stætt á að bera fyrir sig að neytendur hafi mátt gera sér grein fyrir því að íslenski hluti lánanna væri verðtryggður miðað við þá vexti sem voru á þeim hluta lánanna, eins og kemur fram í yfirlýsingu Lýsingar, enda mikill aðstöðumunur á neytanda annars vegar og leyfisskyldu fjármálafyrirtæki hins vegar.

Neytendasamtökin taka hins vegar undir það með áfrýjunarnefnd neytendamála og Neytendastofu að þessi stjórnvöld taka ekki afstöðu til einkaréttarlegra krafna neytenda í einstökum málum, en hins vegar má ótvírætt ráða af úrskurðunum hvernig uppgjöri lánanna eigi að vera háttað og að Lýsingu beri að endurgreiða neytendum þær verðbætur sem hafa verið greiddar.