Um lánamál heimilanna

mánudagur, 20. febrúar 2012

Heimili sem vilja breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð eiga að fá að gera það með lágum tilkostnaði. Þetta er krafa á alla aðila sem veita íbúðarlán, hvort sem lántakendur hafa verið í viðskiptum við viðkomandi eða eru að færa viðskipti sín til annars fjármálafyrirtækis. Þetta verði gert með því að:

  1. Uppgreiðslugjald á neytendalánum verði bannað.
  2. Lántökugjald sé innheimt eingöngu í formi fastrar krónutölu, til að mæta raunverulegum kostnaði vegna umsýslu lánsins, en ekki sem hlutfall af lánsupphæð.
  3. Stimpilgjald verði ekki lagt á breytt lán, jafnvel þótt breytingar verði á lánsupphæðum og komi lagabreyting til ef nauðsyn er.

Stjórn Neytendasamtakanna hvetur stjórnvöld til hefja þegar undirbúning á nýju lánakerfi í húsnæðismálum þar sem landsmönnum eru tryggð sambærileg kjör og sem bjóðast í helstu nágrannalöndum Íslendinga. Í því sambandi ber einkum að horfa til Danmerkur.

Neytendasamtökin leggja á það áherslu að þau fjölmörgu heimili sem eru í greiðsluvanda fái skjóta afgreiðslu þegar þau leita aðstoðar hjá til þess bærum aðilum. Jafnframt eru stjórnvöld hvött til að auka enn frekar vaxtabætur til að mæta erfiðri stöðu heimilanna.

Neytendasamtökin styðja það úrræði fjármálafyrirtækja að bjóða óverðtryggð lán með föstum vöxtum til íbúðarkaupa. Íbúðalánasjóður er hvattur til þess að bjóða upp á slík lán sem fyrst. Neytendasamtökin leggja áherslu á að lögum eða reglum verði breytt þannig að sett verði þak á mögulega vaxtahækkun slíkra lána sem og á verðtryggðum lánum.