Umferðaröryggi - Ísland verði í fremstu röð

Laugardagur, 4. október 2008

 

Á þingi Neytendasamtakanna sem haldið var 29.-30. september sl. var samþykkt ályktun um að Ísland verði í fremstu röð í umferðaröryggismálum og að við náum því markmiði að vera í fremstu röð eigi síðar en á árinu 2012. Til að ná því markmiði þarf að verja mun meiru til vegamála en nú er gert. Að mati Neytendasamtakanna er það eðlilegt enda eru tekjur ríkissjóðs af bifreiðum og umferð miklu meiri en varið er í þennan málaflokk. Ályktunin er eftirfarandi:

Íslendingar voru lengi í fararbroddi meðal þjóða heims í umferðaröryggismálum. Þetta hefur breyst á síðustu árum. Í nýlegri áætlun samgönguráðuneytisins er boðað átak í þessum efnum og að Ísland verði á ný í farabroddi árið 2016. Þing Neytendasamtakanna telur að þessi stefnumörkun lýsi metnaðarleysi og telur að þessu markmiði eigi að ná eigi síðar en 2012. Minnt er á að allar aðgerðir á þessu sviði eru þjóðhagslega mjög arðbærar. Til þess að ná svo skjótum framförum verður meðal annars að færa í nútímahorf alla vegi frá höfuðborgarsvæðinu að Borgarnesi, Selfossi og Leifsstöð.  Vegir þessir verði ýmist með tveim akreinum í hvora átt eða 2 + 1 - akreina vegir, allt eftir umferðarmagni, í báðum tilfellum þó þannig, að miðeyjur veganna yrðu útbúnar með vegriðum. Einnig þurfa vegaxlir að vera hæfilega breiðar og vegfláar að vera hæfilega brattir.

Þing Neytendasamtakanna telur brýnt að fjárveitingar til vegamála verði auknar frá því sem nú er til að auka umferðaröryggi. Ætla má að á árinu 2005 hafi tekjur ríkissjóðs af bifreiðum og umferð verið á bilinu 47-48 milljarðar króna. Fastur tekjustofn Vegagerðarinnar er hins vegar bensín- og díselgjald sem er föst krónutala. Á árinu 2005 runnu til Vegagerðarinnar vegna þessara gjalda um 13 milljarðar króna eða um 27-28 prósent af heildartekjum ríkissjóðs af bifreiðum og umferð. Verja þarf mun stærri hluta þessarar upphæðar til vegamála.