Umsögn vegna breytinga á lögum um stimpilgjald

Föstudagur, 19. janúar 2018 - 9:15

Neytendasamtökin hafa sent umsögn vegna frumvarps um breytingar á lögum um stimpilgjald sem Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur til meðferðar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði heyri sögunni til, en í dag greiða einstaklingar stimpilgjald sem nemur 0.8% af fasteignamati nema þegar um fyrstu kaup er að ræða en þá er stimpilgjaldið 0.4%.

Neytendasamtökin hafa lengi verið andvíg því að einstaklingar greiði stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði og að samtökin hafi lengi talið gjaldið í raun úrelta og ósanngjarna skattlagningu. Af þeim sökum fagna samtökin því að nú standi til að fella gjaldið niður og lýsa sig fylgjandi því að frumvarpið verði samþykkt sem lög. Þá taka samtökin ekki undir þau sjónarmið að afnám stimpilgjalda á einstaklinga leiði til verðhækkana á fasteignamarkaði enda eru upphæðirnar sem um ræðir ekki þess eðlis auk þess sem afnám gjaldsins kemur líklega til með að auka hreyfanleika á fasteignamarkaði.

Umsögn samtakanna má finna hér.