Uppgjör ársins reiknað á núgildandi gjaldskrá

Fimmtudagur, 28. apríl 2011 - 11:45

 

Neytendasamtökin hafa fengið fyrirspurnir frá neytendum vegna uppgjörs á orkureikningum. Erindin lúta að því að ef í ljós kemur að rafmagns- og heitavatnsnotkun hefur verið vanáætluð yfir árið, miða bakreikningar við verðið sem er í gildi þegar reikningur er gefinn út en ekki verðskrána sem var í gildi þegar notkun átti sér stað.  Í tilefni þessa sendu samtökin fyrirspurn til Orkuveitu Reykjavíkur.

Svar Orkuveitu Reykjavíkur:
„Uppgjör miðast við gildandi gjaldskrá þegar uppgjörið fer fram, hvort sem í uppgjörinu felst inneign eða skuld. Ástæðan er m.a. sú að ekki er hægt að sjá hvernig notkun viðkomandi viðskiptavinar hefur dreifst á uppgjörstímabilið.

OR tilkynnir allar gjaldskrárbreytingar. Þá geta viðskiptavinir sjálfir sent fyrirtækinu auka-álestur telji þeir sér hag af því eða ef sérstakar breytingar verða á húsnæði þeirra eða búskaparháttum þannig að ætla megi að breyting verði á orkunotkun. Í tengslum við það hefur OR þó bent á að árstíðarsveiflur í orkunotkun eru talsverðar og slíkur óreglubundinn álestur, sem leiðir til breytingar á áætlunum, getur ýmist leitt til ofáætlunar (ef vetrarálag er lagt til grundvallar) eða vanáætlunar.

Gætu fjárhæðir uppgjörsreikninga þá orðið töluverðar, hvort heldur væri vegna of- eða vangreiðslu miðað við notkun yfir árið í heild. Þá er rétt að benda á að starfsfólk þjónustuvers OR er boðið og búið að líta á reikninga með viðskiptavinum og eru mörg dæmi um það að fólk, sérstaklega ef uppgjörsreikningar eru óvæntir eða óvenjulegir, leiti til fyrirtækisins um viðbrögð við slíkum reikningum.“

Erfitt að tímasetja áætlaða notkun
Vissulega er erfitt að greina hvort vanáætluð notkun hefur komið til fyrir eða eftir gjaldskrárhækkun. Ljósi punkturinn er þó sá að reynist raunnotkun lægri en áætluð notkun þá er inneign líka reiknuð á því verði sem er í gildi þegar uppgjör fer fram. Það má samt spyrja hvort ekki væri eðlilegra að nota jafnaðarverð fyrir jafnaðarnotkun eins og orkusala til heimila er framkvæmd hér á landi?

Neytendasamtökin hafa þó nokkrum sinnum bent á að neytendur ættu að fá reikning fyrir raunnotkun mánaðarlega, en ekki áætlaða notkun. Í flestum löndum Evrópu eru orkufyrirtækin að taka upp fjarskiptatækni sem les jafnóðum upplýsingar um rafmagnsnotkun neytenda. Það er besta leiðin til að efla neytendavitund og hvetur til orkusparnaðar. Hér á landi hefur þetta þótt of dýrt og fyrirtækin ekki haft efni á slíkri fjárfestingu. En hugsanlega gæti þessi tækni líka verið hagkvæm fyrir orkufyrirtækin, til að lesa úr gögnum hvernig neyslumynstur viðskiptavina er.

Hækkun á heitu vatni
Stjórn Orkuveitunnar samþykkti 8% hækkun á heitu vatni sem átti að taka gildi 1. maí. Hækkunin var ákveðin með fyrirvara um samþykki iðnaðarráðuneytisins, eins og lög gera ráð fyrir.Breytingin er enn til umfjöllunar í ráðuneytinu þannig að einsýnt er að hækkunin verður ekki nú um mánaðamótin.

Nú er kaldasta tíma ársins að ljúka og viðskiptavinir Orkuveitunnar sem reikna með að notkunin muni minnka næstu mánuði ættu því að hafa í huga að lesa af og skila inn álestri áður en heita vatnið hækkar. En eins og kemur fram í svari Orkuveitunnar hér að ofan gæti óreglulegur álestur haft áhrif á áætlun, of eða van. Því ættu viðskiptavinir þeirra að fara fram á að ný áætlun taki tillit til árstíðarbundinna sveifla þegar álestri er skilað inn.