Uppsögn ótímabundins leigusamnings

Ef leigusamningur er ótímabundinn (þ.e. tekur gildi á ákveðnum degi en ekki tekið fram hvenær honum lýkur) er bæði leigjanda og leigusala heimilt að segja honum upp. Uppsögnin þarf að vera skrifleg, skýr og send með sannanlegum hætti, t.a.m. með ábyrgðarpósti. Á heimasíðu velferðarráðuneytisins er að finna sýnishorn af uppsögn ótímabundins leigusamnings og er leigjendum eindregið ráðlagt að nota það sem fyrirmynd vilji þeir segja samningi upp.

Uppsagnarfrestur ótímabundins leigusamnings á íbúðarhúsnæði er sex mánuðir (einn mánuður ef um einstök herbergi er að ræða), en eitt ár af hálfu leigusala ef leigjandi hefur haft íbúðina á leigu í lengri tíma en fimm ár.

Vilji leigjandi segja upp ótímabundnum leigusamningi þarf því að senda skriflega uppsögn og hefst sex mánaða fresturinn fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögn er send. Þetta þýðir að ef uppsögn er send 20. janúar byrjar uppsagnarfrestur að líða 1. febrúar og lýkur 31 júlí. Í því tilviki á leigjandi að vera búinn að ljúka rýmingu og frágangi kl. 13.00 hinn 1. ágúst.

Sjá álit kærunefndar er varða uppsögn ótímabundins samnings hér.

Athugið
Ef húsaleigusamningur var gerður eftir 22. júní 2016 hafa orðið eftirfarandi breytingar á því sem fram kemur hér að ofan: 

Ekki er lengur um að ræða sjálfkrafa tólf mánaða uppsagnarfrest þegar leigusali segir upp ótímabundnum samningi eftir meira en fimm ára leigutíma. Nú er reglan sú að ótímabundnir leigusamningar beri 6 mánaða uppsagnarfrest nema um sé að ræða útleigu af hálfu lögaðila sem hefur staðið yfir í lengri tíma en tólf mánuði á grundvelli ótímabundins samnings. Við þær aðstæður er uppsagnarfrestur af hálfu leigusala tólf mánuðir.