Úrskurðarnefndir NS og samstarfsaðila

Á vegum NS og margra samstarfsaðila þeirra eru úrskurðarnefndir um ágreiningsmál milli kaupenda og seljenda á ýmsum sviðum. Eiga samtökin aðild að mörgum kvörtunar- og úrskurðarnefndum. Þessar nefndir eru nauðsynlegur bakhjarl fyrir kvörtunarþjónustu samtakanna en ódýrt og fljótlegt er fyrir neytendur að skjóta málum fyrir nefndirnar.

Sameiginlegt er með öllum nefndunum að neytandinn þarf að greiða málskotsgjald til að mál hans sé tekið fyrir og er það mishátt eftir nefndum. Vinni neytandi mál fyrir nefnd að hluta eða öllu leyti fær hann málskotsgjaldið endurgreitt frá seljanda. Sé neytandi ósáttur við úrskurðinn getur hann haldið áfram með málið til dómstóla.

Eyðublöð og verðskrá fyrir úrskurðarnefndir sem Neytendasamtökin hýsa:

Eyðublað fyrir kvartanir (DOC)

Eyðublað fyrir kvartanir á ensku (DOC)

Verðskrá

Vátryggingar

Úrskurðarnefnd í samvinnu NS og Sambands íslenskra vátryggingarfélaga fjallar um ágreining varðandi bótaskyldu, þar á meðal sök og sakarskiptingu milli neytenda og þeirra vátryggingarfélaga sem starfsleyfi hafa hér á landi. Nefndina skipa þrír fulltrúar sem allir skulu vera löglærðir. Einn er tilnefndur af Neytendasamtökunum, einn af Sambandi íslenskra vátryggingarfélaga og einn af viðskiptaráðherra og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Úrskurðarnefndin er vistuð hjá Fjármálaeftirlitinu.

Sjá allt um nefndina á vefsíðu FME, þar koma upplýsingar um nefndina, eldri úrskurðir og hvernig á að óska eftir úrskurði.

Fjármálamarkaður

Úrskurðarnefnd í samvinnu NS, viðskiptabanka, sparisjóða og greiðslukortafyrirtækja tekur til meðferðar kvartanir sem snúast um réttarágreining einstaklinga og fyrirtækja við  íslensk fjármálafyrirtæki sem aðild eiga að nefndinni og dótturfyrirtæki þeirra. Nefndina skipa fimm fulltrúar, tveir eru tilnefndir Neytendasamtökunum, tveir af fjármálafyrirtækjum og einn af viðskiptaráðherra og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. úrskurðarnefndin er vistuð hjá Fjármálaeftirlitinu.

Sjá allt um nefndina á vefsíðu FME, þar koma upplýsingar um nefndina, eldri úrskurðir og hvernig á að óska eftir úrskurði.

Efnalaugar og þvottahús

Úrskurðarnefnd NS og Félags efnalaugaeigenda fjallar um kvartanir vegna þjónustu efnalauga og þvottahúsa. Nefndina skipa þrír fulltrúar, einn tilnefndur af Neytendasamtökunum, einn af Félagi efnalaugaeigenda og einn af viðskiptaráðherra, sem skal vera löglærður og er jafnframt formaður nefndarinnar. Úrskurðarnefndin er vistuð hjá Neytendendasamtökunum. Hægt er að nálgast eyðublað efst á þessari síðu.

Hér er hægt að sækja samþykktir nefndarinnar (pdf)
Hér er hægt að skoða úrskurði nefndarinnar.

Ferðalög

Úrskurðarnefndin fjallar um kvartanir vegna ferða sem skipulagðar eru af ferðaskrifstofum í samtökum ferðaþjónustunnar. Nefndina skipa þrír fulltrúar, einn tilnefndur af Neytendasamtökunum, einn af Samtökum ferðaþjónustunnar og einn af samgönguráðherra, sem skal vera löglærður og er jafnframt formaður nefndarinnar.Úrskurðarnefndin er vistuð hjá Neytendasamtökunum. Hægt er að nálgast eyðublað efst á þessari síðu.

Hér er hægt að sækja samþykktir nefndarinnar (pdf)
Hér er hægt að skoða úrskurði nefndarinnar

Tannlækningar

Úrskurðarnefnd í samvinnu við NS og Tannlæknafélagi Íslands fjallar um kvartanir vegna kaupa á þjónustu tannlækna. Nefndina skipa þrír fulltrúar, einn tilnefndur af Neytendasamtökunum, einn af Tannlæknafélagi Íslands og einn af Landlækni og er hann jafnframt formaður nefndarinnar. Úrskurðarnefndin er vistuð hjá Neytendasamtökunum. Neytendur eru beðnir um að hafa samband við fulltrúa Neytendasamtakanna, áður en þeir leggja mál fyrir nefnd. Eyðublað er afhent eftir samtal við fulltrúa.

Lausafjár- og þjónustukaup

Kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa var sett á laggirnar með lögum um lausafjárkaup, nr. 50/2000 og lögum um þjónustukaup, nr. 42/2000 og lögum um neytendakaup nr. 48/2003. Nefndin var skipuð af viðskiptaráðherra til loka ársins 2005. Hún hefur nú verið endurskipuð og er til húsa hjá Neytendastofu, Borgartúni 21, 105 Reykjavík. Sjá allt um nefndina á vefsíðu Neytendastofu. þar koma upplýsingar um nefndina, eldri úrskurðir og hvernig á að óska eftir úrskurði.