Úrvinnslugjald

Föstudagur, 16. janúar 2009

Upp á síðkastið hafa neytendur gert athugasemdir við auka kostnaðarlið á greiðsluseðli ríkissjóðs í tengslum við rukkun bifreiðagjalda, en sá liður gengur undir nafninu úrvinnslugjald. Neytendasamtökunum hafa borist fyrirspurnir um það hvort þetta tiltekna gjald sé í raun dulbúið seðilgjald.

Til þess að taka af allan vafa er rétt að árétta að úrvinnslugjaldið er ekki annað form seðilgjalda eða dulbúið seðilgjald. Um er ræða lögbundið gjald sem leggst á allar vörur hérlendis og er ætlað að standa undir kostnaði vegna meðhöndlunar úrgangs á söfnunarstöðvum, flutnings hans frá söfnunarstöð til móttökustöðvar eða til endurnýtingarstöðvar. Það eru umhverfissjónarmið sem ráða töku gjaldsins og ásamt því sjónarmiði að hver og einn greiði fyrir eigin förgun eða úrvinnslu. Gjaldið stendur undir kostnaði við úrvinnslu þess úrgangs sem af vörum leiðir og rennur til Úrvinnslusjóðs. Gjaldheimtan er því í beinum tengslum við förgun og úrvinnslu úrgangs. 

Úrvinnslugjald sem er lagt á ökutæki er sérstaklega ætlað það hlutverk að tryggja að afhending ökutækis til förgunar hafi ekki kostnað í för með sér fyrir síðasta eiganda þess.  Þannig stendur gjaldið undir þeim kostnaði sem til fellur vegna söfnunar og endurnýtingu ökutækjanna og með gjaldinu er í raun verið að setja upp kerfi sem tryggir móttöku allra bílflaka. Sá sem afhendir móttökustöð ökutækið til endanlegrar endurnýtingar og förgunar fær greitt 15.000. kr., hafi ökutækið verið afskráð. Úrvinnslugjaldið er því að hluta til endurgreitt í formi skilagjalds, þannig að síðasti eigandi ökutækisins þurfi ekki að bera kostnað við förgun þess.