Vara keypt á útsölu

Þriðjudagur, 28. desember 2010

 

Er réttarstaða mín sem neytandi verri ef ég kaupi vöru á útsölu?

Um vörur seldar á útsölum gilda ekki neinar sérreglur í íslenskum lögum. Þegar neytandi kaupir vöru á útsölu falla kaupin undir lög um neytendakaup. Gilda því allar reglur laganna um galla, sem og kvörtunarfrestur neytenda vegna galla á vöru, sem er ýmist 2 eða 5 ár. Það er því ekki hægt að halda því fram að neytandi eigi ekki úrbótarétt vegna gallaðrar útsöluvöru. Fólk heldur stundum að vara sem keypt er á útsölu megi að einhverju leyti vera lakari að gæðum en vara sem seld er á venjulegu verði, og réttur þess sé því að einhverju leyti rýrari. Oftast er þetta byggt á misskilningi enda gilda nákvæmlega sömu sjónarmið um mat á því hvort vara er gölluð eða ekki þegar venjuleg vara er seld á útsölu eða á lækkuðu verði. Það er aðeins ef neytandinn veit að vara er á einhvern hátt gölluð, t.d. ef seld sem b-vara eða útlitsgölluð vara, að neytandinn getur ekki krafist úrbóta vegna þess tiltekna galla, enda er þá afslátturinn beinlínis veittur vegna gallans.