Varað við svikapóstum

Miðvikudagur, 15. mars 2017 - 16:45

Varað hefur verið við tölvupóstskeytum sem eru látin líta út fyrir að koma frá þekktum íslenskum fyrirtækjum. Um er að ræða svikapósta þar sem viðtakandi er blekktur til að ýta á tengil, skrá sig inn með lykilorði og notendanafni eða jafnvel að slá inn kreditkortaupplýsingar sínar.

Í tilkynningu frá Símanum og Kreditkort er varað við þrjótum sem hafa sent tölvupóst þar sem óskað er eftir persónuupplýsingum í nafni Símans til endurgreiðslu á tvígreiddum reikningi. Sá tölvupóstur kemur ekki frá Símanum heldur er verið að reyna að ná upplýsingum frá grunlausu fólki.

Mikilvægt er að notendur hafi varan á þegar þeim berast grunsamlegir tölvupóstar og gefi alls ekki upp persónu- og/eða kortaupplýsingar nema þeir séu þess fullvissir að skráning sé örugg.