Varúð - heitt vatn! - stillum hitann hóflega

Fimmtudagur, 12. maí 2011 - 11:30

 

Allt of mörg brunaslys verða á Íslandi sökum þeirrar hefðar að leiða jarðhita og hveravatn um og yfir 80°C heitt frá hitaveitugrind, án meðhöndlunar, í neysluvatnslagnir íbúðahúsa. Flest brunaslys af völdum heits vatns eiga sér stað á baðherberginu og eru börn og gamalmenni í mestri hættu auk fólks með takmarkaða hreyfigetu.
 
Svo mörg eru slysin að Orkuveita Reykjavíkur, Sjóvá, Forvarnarhúsið og Landspítalinn fóru í átak fyrir nokkrum árum til að vekja athygli á hættunni. Svavar T. Óskarsson starfar hjá Orkuveitunni. Hann sagði í samtali við Neytendablaðið að það hefði viðgengist alltof lengi hér á landi að leiða allt að 80°C heitt vatn í neysluvatnslagnir en því var í raun ekki breytt fyrr en með byggingarreglum árið 2003.
 
Eftir stendur þó að í mjög mörgum húsum þarf að grípa til aðgerða til að minnka hættuna á brunaslysum af völdum heits vatns. Svavar segir einkum tvennt til ráða. Annars vegar að lækka neysluvatnshita frá hitaveitugrind niður í 60-65°C og hins vegar að tryggja að öll blöndunartæki séu með sjálfvirka hitastýrða blöndun. Hámarkshitastillir (38-45°C) ætti að vera fyrir sturtur, baðkör og setlaugar. Rétt er að hafa í huga að til að fyrirbyggja bakteríuvöxt í neysluvatnskerfum fyrir heitt vatn er ráðlagt að vatnshiti sé hvergi lægri en 50-55°C að töppunarstað. 
 
Svavar segir fulla ástæðu fyrir íbúðaeigendur, sérstaklega í eldri húsum, að tryggja að öryggi fólks stafi ekki hætta af heitavatnsnotkun. Það verði þó ekki gert nema að fá löggiltan pípulagningameistara í verkið.
 
Sjá góðar ráðleggingar um heitavatnsnotkun á www.stillumhitann.is
 
Neytendablaðið 1. tbl 2011