Verðsamráð olíufélaganna

mánudagur, 28. júlí 2003

 

Staðfest er í fyrri hluta skýrslu Samkeppnisstofnunar að olíufélögin hafa haft víðtækt samráð um verðlagningu á vörum í því skyni að halda uppi verði á olíu og tengdum vörum. Með lögbrotum hafa olíufélögin haft gríðarlega fjármuni af neytendum. Enn eru ekki komnar fram upplýsingar frá samkeppnisyfirvöldum um hvernig verðsamráðið bitnar með beinum hætti á neytendum.

Neytendasamtökin fordæma þetta verðsamráð sem er bein aðför að hagsmunum neytenda og atlaga að frjálsri samkeppni hér á landi.

Neytendasamtökin skora á olíufélögin að leggja nú þegar spilin á borðið gagnvart almenningi. Neytendasamtökin krefjast þess einnig að olíufélögin upplýsi hvernig þau hyggist bæta neytendum það tjón sem þau hafa valdið.

Ólögmætt verðsamráð sem hækkar vörurverð hefur alvarlegri afleiðingar á Íslandi en víða annars staðar þar sem að verðhækkanir leiða til hækkunar á skuldum heimilanna vegna vísitölubindingar lána. Verðsamráð gagnvart stærri viðskiptavinum leiðir til kostnaðarauka hjá fyrirtækjum og stofnunum og bitna á hinum almenna neytanda þegar hækkunum er velt út í verðlagið.

Neytendasamtökin áskilja sér allan rétt til að grípa til enn frekari aðgerða þegar endanleg skýrsla Samkeppnisstofnunnar liggur fyrir vegna þess skaða sem hið ólögmæta samráð hefur valdið neytendum.

Þetta mál allt sýnir mikilvægi þess að hér á landi eru starfandi virk samkeppnisyfirvöld. Neytendasamtökin telja mjög mikilvægt að rannsóknum vegna brota á samkeppnislögum sé lokið á sem skemmstum tíma. Samtökin ítreka því þá skoðun sína að efla Samkeppnisstofnun til að tryggja skjótari meðferð mála.