Verðtrygging á neytendalánum

mánudagur, 1. október 2012

Samþykkt þings NS um afnám verðtryggingar á neytendalánum

Þing Neytendasamtakanna ályktar að ein mikilvægasta forsenda viðreisnar efnahagslífsins eftir bankahrunið sé að afnema verðtryggingu lánasamninga neytenda og tryggja réttláta niðurfærslu verðtryggðra lána á samdráttarskeiðinu frá því í október 2008.

Neytendasamtökin telja eðlilegt til að gæta samræmis á lánamarkaðnum, að verðtryggð lán verði færð niður til samræmis við niðurfærslu þeirra lána sem voru með ólöglega gengistryggingu. 

Neytendasamtökin telja brýnt að afnema nú þegar verðtryggingar lána til neytenda.

Neytendasamtökin telja nauðsynlegt að láta kanna til hlítar hvort verðtryggð lán til neytenda kunni að vera ólögmæt frá innleiðingu MiFID tilskipunarinnar hinn 1. nóvember 2007.

Neytendasamtökin krefjast þess að verðtrygging verði með öllu afnumin af lánum til neytenda. Jafnframt er það sanngjörn og eðlileg krafa að íslenskir neytendur búi við sambærileg lánakjör og umhverfi á lánamarkaði og neytendur í nágrannalöndum Íslands.

Greinargerð

Frá 1. nóvember 2007 og fram í október á þessu ári hefur vísitala neysluverðs hækkað um 43,7%, eða úr 278,1 stigi í 399,6 stig. Á sama tíma hefur orðið hér á landi hrun krónunnar og bankakerfisins, atvinnuleysi hefur margfaldast og tekjur heimila hafa dregist verulega saman að raungildi. Fasteignaverð hefur hrunið og sér ekki fyrir endann á því.

Hæstiréttur hefur dæmt gengisbundin lán ólögleg og með nýlegum dómi í máli nr. 600/2011 um vexti á ólögleg gengisbundin lán hefur Hæstiréttur dæmt afturvirkan endurútreikning vaxta ólöglegan. Með þessum dómum Hæstaréttar hafa lántakar, sem tóku hin ólöglegu gengisbundnu lán, fengið mikla réttarbót.

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa óskað eftir heimild til að hafa samráð um viðbrögð og endurútreikninga hinna ólöglegu lána.

Eftir dóma Hæstaréttar í gengislánamálum er nú svo komið að lántakar, sem tóku „venjuleg“ verðtryggð lán eru í mun verri stöðu en hinir, sem tóku gengisbundnu lánin. Í ljósi þessa sem og hins, að óvissa ríkir um lögmæti verðtryggðra lána í ljósi lögleiðingar Íslands á MiFID neytendendaverndarreglum ESB frá 1. nóvember 2007 er mikilvægt að grípa tafarlaust til aðgerða til að leiðrétta verðtryggð lán heimilanna.

Þann 1. nóvember 2007 tóku gildi lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sem lögfestu hér á landi neytendavernd MiFID tilskipunar ESB (e. Markets in Financial Instruments Directive) hér á landi. Samkvæmt MiFID reglum eru verðtryggð lán afleiður sem ekki má selja öðrum en fjárfestum með sérstaka þekkingu á slíkum fjármálagjörningum. Samkvæmt reglunum er óheimilt að selja neytendum slíka gjörninga.

Með hliðsjón af því að SFF hafa óskað eftir undanþágu frá FME til að fá að hafa samráð vegna hinna ólöglegu gengisbundnu lána er eðlilegt að á fót verði komið samráðsvettvangi neytenda, lánveitenda og ríkisvaldsins um almennar leiðréttingar á höfuðstól verðtryggðra lána. Jafnframt því yrðu ólögleg gengistryggð lán endurútreiknuð. Með því móti er unnt að hafa samræmi í þeim úrræðum, sem ráðist verður í til hjálpar skuldsettum heimilum.

Verðtryggingunni var komið á með lögum nr. 13/1979 til að stöðva eignabruna á eigum sparifjáreigenda vegna mikillar verðbólgu um áraraðir. Upphaflega átti verðtrygging að vera tímabundin ráðstöfun.Í upphafi náði verðtrygging ekki einungis til lána heldur einnig til launa. Verðtrygging launa var afnumin árið 1983 eftir að verðbólga fór yfir 100 prósent miðað við heilt ár. Nú hefur komið áþreifanlega á daginn, að verðtryggingin sjálf veldur eignabruna hjá lánþegum svo að fjármálalegum stöðugleika er ógnað um langa framtíð ef ekki verður við brugðist.

Fram hefur komið hjá talsmönnum lífeyrissjóða að þeir telja lög meina lífeyrissjóðum að taka þátt í skuldaleiðréttingu lánþega vegna þess að þeim sé óheimilt að fella niður eða lækka höfuðstól lána, sem hægt er að innheimta með einhverjum hætti. Mikilvægt er að löggjafinn færi lífeyrissjóðunum þær lagaheimildir, sem nauðsynlegar eru til að þeir geti tekið fullan þátt í leiðréttingu á höfuðstóli lána.

Eins og fyrr segir er mikilvægt að Alþingi láti kanna til hlítar hvort verðtryggð lán til neytenda kunni að vera ólögmæt frá innleiðingu MiFID tilskipunarinnar 1. nóvember 2007. Ýmis rök hníga  að því að verðtrygging á neytendalán sé ólögmæt frá þeim tíma. Raunar standa sterk rök að því að verðtrygging neytendalána hafi verið ólögmæt hér á landi frá því að lög nr. 121/1994 tóku gildi, en þau lögfestu neytendaverndartilskipun ESB 93/13.

Sú eignatilfærsla sem hefur orðið á síðustu árum vegna samdráttar í þjóðfélaginu á sama tíma og vísitala neysluverðs til verðtryggingar hefur hækkað og hækkað veldur því nú að illa horfir með stöðu fjölmargra einstaklinga.  Talað er um að 60% heimila séu „tæknilega gjaldþrota“ sem felur í sér að skuldir nema nú hærri fjárhæðum en eignir. Verðtryggingin veldur því líka að sífellt fleiri sogast inn í skuldahringiðuna og sjá enga björg eða möguleika til að verða eignafólk. Þá eru möguleikar einstaklinganna til að vinna sig út úr skuldavandanum takmarkaðri en áður vegna þess hvað skattar og lífeyrissjóðsgjöld eru orðin stór hluti af tekjum launþega, sem þeir fá raunverulega aldrei í hendur.

Þegar horft er á málið heildstætt verður því ekki séð að áframhaldandi vegferð með verðtryggingunni þýði annað en að fleiri og fleiri missi heimili sín. Almenn eign fólks á íbúðarhúnæði verður þá ekki lengur raunveruleiki. Sá sparnaður og varasjóður sem er í því fólgin að eiga skuldlitla eða skuldlausa húseign verður þá ekki lengur til staðar. Þannig verða rofin fleiri skörð í fjárhagslega öryggiskeðju fólksins í landinu.

Mikilvægt er að hér ríki jafnræði milli lántakenda og lánveitenda. Á undanförnum árum hefur verðtryggingin rofið slíkt jafnræði. Mikilvægt er að ríkisvaldið bregðist við og grípi nú þegar til ráðstafana til að leiðrétta þetta óréttlæti.