Verða strandsiglingar teknar upp aftur?

Miðvikudagur, 25. maí 2011 - 11:30

 

Innanríkisráðherra hefur skipað starfshóp sem gera á tillögur um hvernig standa megi að strandsiglingum að nýju. Á vef innanríkisráðuneytisins kemur fram að starfshópnum sé ætlað að skoða mögulega flutninga, greiningu á skipakosti, áætluðum rekstrakostnaði útgerða, viðkomuhöfnum, tíðni ferða, áætlun um sjálbær flutningsverð auk annars sem skipt geti máli. Þetta er ekki fyrsti starfshópurinn sem strafað hefur að þessu verkefni, enda ber honum að nýta sér skýrslur og greinargerðir fyrri starfshópa.

Neytendasamtökin fagna þessari ákvörðun innanríkisráðherra, enda er það í fullu samræmi við stefnu Neytendasamtakanna að strandsiglingar verði teknar upp aftur. Á þingi Neytendasamtakanna sem haldið var á haustdögum 2006 var m.a. fjallað um vöruflutninga til og frá landsbyggðinni. Þar var m.a. bent á að samkvæmt skýrslu sem gerð var af Hagfræðistofnun H.Í. á árinu 2005 hafi skattlagning á strandflutninga með skipum verið u.þ.b. 780 prósent hærri en sem nemur kostnaði hins opinbera. Aftur á móti væru vöruflutningar um þjóðvegi landsins skattlagðir miklu minna en sem nemur kostnaði hins opinbera við þá flutninga. Minnt var á að einn stór flutningabíll hlaðinn vörum slítur þjóðvegunum að minnsta kosti á við 50 þúsund fólksbíla. Mikilvægt sé að vöruflutningar til og frá landsbyggðinni séu sem hagkvæmastir og því beri stjórnvöldum með aðgerðum sínum að beina vöruflutningum til og frá landsbyggðinni þannig að þeir séu sem þjóðhagslega hagkvæmastir en það sé með strandflutningum. Þingið lagði loks áherslu á að strandflutningar með skipum séu umhverfisvænni kostur en með vöruflutningabílum.