Verðlagning á keyptri þjónustu

Fimmtudagur, 19. ágúst 2010

Hversu mikið á ég að greiða fyrir keypta þjónustu?

Þegar neytendur kaupa ýmsa þjónustu, t.d. þjónustu iðnaðarmanna eða verkstæðis, og ekki hefur verið samið um verð fyrirfram, skulu neytendur greiða það verð sem sanngjarnt má teljast með hliðsjón af eðli og umfangi vinnunnar. Það er góð þumalputtaregla að spyrjast fyrir um verð á þjónustu áður en þjónustan er keypt, enda er verðlag almennt frjálst og það getur verið erfitt fyrir neytendur að sýna fram á að verð sé bersýnilega ósanngjarnt. Gefi þjónustuaðili hins vegar neytanda verðhugmynd fyrirfram, má verkið ekki fara langt fram úr þeirri kostnaðaráætlun. Sjái seljandi þjónustu fram á að verðið fari talsvert fram úr þeirri kostnaðaráætlun, ber seljanda að hafa samband við neytandann og skýra honum frá því og kanna hvort neytandinn vilji þrátt fyrir það halda áfram verkinu.