Verðmerkingar

Fimmtudagur, 30. september 2010

Má verðmerkja vörur án virðisaukaskatts?

Auglýst verð á vöru á að vera endanlegt verð, þannig neytendur eiga að geta treyst því að hilluverðmerking sýni það verð sem þarf á endanum að borga. Þetta kemur fram í reglum um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar nr. 725/2008 en það er Neytendastofa sem fer með eftirlit með þeim reglum:

Á sölustað, þ.m.t. við fjarsölu, er skylt að verðmerkja vöru og þjónustu með endanlegu söluverði í íslenskum krónum. Endanlegt söluverð er verð með virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum. Ef annar kostnaður bætist við söluverðið þarf að taka það sérstaklega fram.

Komi upp hærra verð þegar neytandinn ætlar að greiða fyrir vöruna og ekki er um augljós mistök að ræða, þá á neytandinn rétt á að fá vöruna á hilluverðinu. Verði fyrirtækið ekki við því eða ef hilluverðmerkingum er sífellt ábótavant, er rétt að tilkynna það til Neytendastofu sem getur beitt úrræðum eins og sektum á fyrirtæki sem að neita að fara eftir lögum og reglum.