Verslun á Facebook

„Allt sem þú gerir á Netinu endurspeglar hver þú ert“  segir í fyrsta  „net-boðorðinu“. Þó virðist sem þessi staðreynd gleymist stundum í hita leiksins. Til dæmis hafa um 11.000 íslenskir Facebook-notendur „lækað“ smálánafyrirtækið Hraðpeninga og Kredia á aðeins lítillega færri áhangendur, en þessi fyrirtæki virðast þó eiga sér fáa formælendur í raunheimum. Þá gilda ýmis lög og reglur um netviðskipti en því miður virðast þeir aðilar sem stunda viðskipti á samfélagsmiðlum eins og Facebook ekki alltaf átta sig á því.

Neytendasamtökin sendu nýverið erindi til Neytendastofu vegna viðskiptahátta nokkurra aðila sem selja vörur í gegnum Facebook. Er meðal annars kvartað yfir ólöglegum skilmálum og skorti á upplýsingum um seljanda. Neytendastofa hefur áður komist að þeirri niðurstöðu, í ákvörðun nr. 5/2011, að netverslun hafi brotið gegn margvíslegum lagaákvæðum með því að birta ekki nafn og heimilisfang fyrirtækisins á vefsíðu þess. 

Vinur eða fyrirtæki?
Það getur verið gaman að versla á netinu; úrvalið er oft mikið og verðið gott, auk þess sem það hefur sína kosti að geta verslað án þess að standa upp úr sófanum. Hins vegar fylgja netviðskiptum líka ýmsar áhættur. Þannig er t.d. ekki hægt að máta föt eða skoða söluhluti „með eigin augum“, og erfiðara getur verið að kvarta við seljanda eftir kaupin, t.d. vegna galla, heldur en þegar vara er keypt í hefðbundinni verslun. Þess vegna hafa verið settar ýmsar reglur til að vernda neytendur við verslun á netinu. Alla jafna gilda þessar reglur þó aðeins þegar sala fer fram í atvinnuskyni. Ef neytendur hyggjast versla við einhvern „vina“ sinna á Facebook þarf því fyrst að meta hvort vinurinn kemur fram í atvinnuskyni. Einstaklingar sem í eigin nafni selja nokkrar notaðar flíkur úr fataskápnum eða gamla fjölskyldubílinn, þar sem um afmörkuð tilvik er að ræða en ekki það umfangsmikla starfsemi að þeir hafi teljandi tekjur af, koma t.d. ekki fram í atvinnuskyni.  Öðru máli gegnir um sérstakar sölusíður á Facebook, en þær eru mýmargar og sérhæfa sig yfirleitt í sölu á fatnaði, og eiga iðulega nokkur þúsund vini eða áhangendur og vöruúrvalið er oft mikið og fjölbreytt. Misjafnt er hvort um er að ræða sölu eigin vara eða hvort þeir sem standa að baki síðunum taka að sér að panta vörur annars staðar frá eða hreinlega  versla erlendis, gegn greiðslu, fyrir „vini“ sína. Það skiptir ekki öllu máli um hvernig sölu er að ræða en þeir sem stunda netviðskipti í einhverjum mæli eru í atvinnustarfsemi og þar með njóta neytendur ákveðinnar verndar í viðskiptum við þá. 

Hver er seljandinn?
Þegar vara er keypt á Facebook, öðrum samfélagssíðum eða í netverslunum er mjög mikilvægt að vita hver seljandinn raunverulega er. Auðvelt er að láta sig „hverfa“ af Facebook eða öðrum samfélagsmiðlum, hætta einfaldlega að svara skilaboðum eða stofna nýja síðu. Oft getur hins vegar verið bráðnauðsynlegt fyrir neytendur að hafa uppi á seljanda, t.d. ef varan berst ekki, hún er gölluð eða ekki í samræmi við pöntun. Þeim sem selja vörur á netinu er því skylt samkvæmt lögum að veita neytendum ýmsar upplýsingar um sig áður en kaup fara fram. Þannig á seljandi t.d. að gera upplýsingar um nafn, heimilisfang, kennitölu og virðisaukaskattsnúmer aðgengilegar og er eðlilegt að gera kröfu um að þessar upplýsingar birtist á síðunni sem viðskiptin fara gegnum. Á mörgum sölusíðum á Facebook birtast hins vegar engar upplýsingar um seljanda aðrar en nafn síðunnar og Facebook-netfang. 

Að hætta við kaupin
Þegar vara er keypt í venjulegri verslun á neytandi ekki lagalegan rétt á að hætta við kaupin „af því bara“. Þannig er ekki hægt að krefjast þess að skila buxum af því að þær fara manni ekki eins vel og maður hélt eða sófaborði af því að það passar ekki við parketið. Til að geta skilað vöru þarf að vera eitthvað að henni, þó sumir seljendur taki raunar við ógölluðum vörum og veiti þannig þjónustu umfram lagaskyldu. Þegar vara er hins vegar keypt á netinu má neytandi skipta um skoðun og á rétt á að hætta við kaupin „af því bara“ og þarf hann ekki að gefa neinar skýringar á vöruskilunum.  Jafnframt er seljanda skylt að upplýsa neytandann um þessa reglu. Reglan felur það í sér að neytandi sem kaupir vöru á netinu getur hætt við kaupin innan 14 daga frá því að varan berst honum og fengið endurgreitt. Neytandanum ber þá að skila vörunni óskemmdri til seljandans og þarf sjálfur að bera sendingarkostnaðinn. Lagareglan um að falla megi frá samningi gildir ekki í tilvikum þar sem vara eða þjónusta hefur verið sérpöntuð eða sniðin að þörfum neytandans eða ef innsigli (á við um cd- og dvd-diska) hafa verið rofin. Því miður virðast margir seljendur á Facebook ekki þekkja þessa reglu og taka jafnvel sérstaklega fram í skilmálum sínum að ekki sé hægt að skila. Þessi skilaréttur á þó tvímælalaust við um fatakaup, jafnvel þó um útsölu eða tilboð sé að ræða.

Gölluð vara
Þegar einstaklingur kaupir vöru til einkanota (fatnaður er mjög skýrt dæmi um slíkt) af aðila sem hefur atvinnu af sölunni gilda lög um neytendakaup. Skiptir þá engu máli hvort salan fer fram í gegnum netið eða í verslun seljanda. Í þeim lögum er meðal annars kveðið á um það að sé vara gölluð hafi neytandi a.m.k. tvö ár til að kvarta vegna gallans og krefjast úrbóta, að því gefnu að hann kvarti sem fyrst eftir að gallans verður vart. Því miður er svo algengt að aðilar sem stunda sölustarfsemi á Facebook setji skilmála sem ganga skemmra en lögin, m.a. um að ekki sé tekið við gölluðum vörum í lengri tíma en viku frá kaupunum. Slíkir skilmálar eru ekki í samræmi við neytendakaupalög en bannað er að veita neytendum minni rétt en lögin kveða á um, og full ástæða til að hafa varann á áður en keypt er af slíkum seljendum.

Ítarlegar upplýsingar um netverslun er að finna á heimasíðu evrópsku neytendaaðstoðarinnar www.ena.is

Dæmi um skilmála á Facebook sem ekki eru í lagi (tekið orðrétt upp úr skilmálum seljenda):

  • Ef að varan er gölluð þá hefur þú 7 daga til að skila henni og við sendum vöruna út og fáum nýja fyrir þig :) Eftir 7 dagana þá tökum við enga ábyrgð :)
  • Við greiðum ekki til baka né skiptum um vörur, en við auglýsum fyrir ykkur vöruna ef hún passar ekki. Ef vara er gölluð hefuru er 30 daga til að skila vörunni og fá endurgreitt.
  • Ekki er hægt að fá endurgreitt eða skipta um stærð þegar búið er að panta og allt farið í gegn...
  • ... það er ekki hægt að skila.
  • ÚTSÖLUVÖRU ER EKKI HÆGT AÐ SKILA OG FÁ ENDIRGREITT,HÆGT ER AÐ SKYPTA ÚT ÚTSÖLUVÖRU Í AÐRA .
  • ... ef ónotaðri vöru er skilað innan 2ja daga er alveg sjálfsagt að fá endurgreitt :)
  • - Tek ekki við seldum vörum aftur...

Hafðu í huga:
Ekki versla við einhvern sem þú veist ekki hver er; seljandi á m.a. að gefa upp nafn og heimilisfang.
„Gúgglaðu“ seljandann – hafa aðrir látið í ljós óánægju með viðskipti við hann?
Skoðaðu alla skilmála fyrir kaupunum vel – eru þeir í samræmi við lög og reglur? Ef seljandi birtir enga skilmála á síðunni sinni er einnig tilefni til efasemda.
Ekki leggja inn á bankareikning seljanda. Mun öruggara er að nota kreditkort en þá er líka mikilvægt að huga að því hvort síðan er örugg!

Neytendablaðið  4. tbl.2012

Sjá grein í PDF: Verslun á facebook