Villandi verðkönnun

Þriðjudagur, 13. júní 2017 - 16:00

Í verðkönnun RÚV og ASÍ þar sem borið var saman verð matarkörfu í Costco, Bónus og Krónunni kemur í ljós að karfan er ódýrust í Bónus en dýrust í Costco. Í verðkönnuninni er ekki reynt að bera saman sömu tegundir vöru eða sama gæðaflokk heldur einungis tekið lægsta verð á vöru í hverri verslun óháð gæðum og tegund. Því má segja að í könnuninni hafi verið borin saman epli við appelsínur. Allur samanburður sem ekki tekur tillit til gæða og merkja er mjög villandi.

Niðurstaðan er því mjög í samræmi við það sem formaður Neytendasamtakanna hefur ítrekað haldið fram, bæði fyrir opnun Costco og eftir. Costco er ekki hefðbundin lágvöruverðsverslun heldur heildsöluvöruhús, sem leggur áherslu á viðurkenndar merkjavörur og vandað eigin merki. Eins og við er að búast eru Bónus og Krónan með ódýrari vörur en fást í Costco, sem ekki býður upp á lágvörumerki á borð Euroshopper, Gestus o.þ.h.

Á heildina litið virðist verð á flestum merkjamatvörum í Costco vera lægra en í öðrum verslunum en á móti þarf viðskiptavinur að kaupa meira magn í einu en hægt er að komast af með í öðrum verslunum. Þeir neytendur sem leggja mest kapp á að vörukarfan, án tillits til gæða eða merkja vöru, sé sem allra ódýrust munu áfram finna þá körfu í Bónus og Krónunni. Costco hentar þeim sem vilja kaupa hágæða merkjavöru á hagstæðu verði og eru tilbúnir til að kaupa í stærri pakkningum.

Þá eru ótalin áhrifin sem Costco virðist geta haft á smærri matvöruverslanir. Dæmin eru farin að sýna að smærri matvöruverslanir (kaupmaðurinn á horninu) geta boðið viðskiptavinum sínum hagstæðara verð með því að kaupa aðföng í Costco en hjá íslenskum birgjum. Á þann hátt dreifast Costco áhrifin á óútreiknanlega vegu.