Óskiljanlegar merkingar

Miðvikudagur, 10. febrúar 2010
Brynhildur Pétursdóttir

 

Mikið hefur verið talað um sykurneyslu okkar Íslendinga og síðast þegar ég vissi áttum við Norðurlandamet í sykuráti og gott ef ekki heimsmet í gosdrykkjaþambi. Flestir eru sammála um að of mikil sykurneysla er slæm fyrir heilsuna því hún eykur líkur á offitu og veldur tannskemmdum svo eitthvað sé nefnt. Lítið gengur þó í baráttunni fyrir bættri lýðheilsu og einu aðgerðirnar sem ég hef heyrt fólk stinga upp á er svokallaður sykurskattur. Við hljótum þó að geta barist við sykurátið án þess að hækka skatta.

Mér finnst reynandi að fara í herferð gegn sykuráti líkt og Danir hafa gert. Danski neytendamálaráðherrann hleypti herferðinni úr hlaði með því að gefa foreldrum skýr fyrirmæli um það hversu mikið gos börn ættu að drekka. Hann mælti með hámarki hálfum lítra af gosi á viku skv. ráðleggingum sérfræðinga. Hvort danskir foreldrar fóru eftir þessum fyrirmælum veit ég ekki en þeir fengu í það minnsta skýr skilaboð.

Mikið og gott aðgengi að sætindum hlýtur líka að hafa sitt að segja. Hvað er t.d.í gangi með allar þessar verslanir sem eru ekki einu sinni á matvælamarkaði en eru farnar að selja gos og sælgæti við kassana? Ég á bágt með að trúa því að þarna sé verið að svara einhverjum kröfum neytenda. Þá tek ég heilshugar undir athugasemdir Lýðheilsustöðvar sem gagnrýnir mikinn afslátt af sælgæti á laugardögum. Nær væri að veita afslátt af hollari vörum.

Talsmaður neytenda og umboðsmaður barna gerðu umfangsmikinn samning við markaðinn fyrir nokkrum árum þar sem m.a. var tekið á markaðssetningu á óhollustu. Auðvitað á að dusta rykið af þessum leiðbeinandi reglum og ganga eftir því að þeim sé fylgt. Ef markaðurinn þráast við verður einfaldlega að ganga lengra og festa þessar reglur í lög.

Mikilvægustu aðgerðirnar eru þó þær að skylda framleiðendur til að taka upp skiljanlegar merkingar. Eins og staðan er í dag er erfitt ef ekki vonlaust að reikna út hlutfall viðbætts sykurs í matvælum. Ég horfi sérstaklega til umferðarljósanna sem breska matvælastofnunin hefur gert tilraunir með. Umferðarljósin segja til um magn sykurs, salts og fitu með litunum grænum, gulum og rauðum. Vara sem inniheldur hátt hlutfall sykurs og salts en litla fitu fengi þá rauðan hring fyrir sykur og salt en grænan fyrir fitu. Þessar merkingar eru mjög skýrar og einfaldar og veita neytendum heilmiklar upplýsingar. Upplýsingar sem framleiðendur eru ekki alltaf fúsir til að veita

En það er ekki bara sykur sem er vandamálið. Samkvæmt ráðleggingum sérfræðinga eiga konur ekki að borða meira en 6 grömm af salti á dag og karlmenn ekki meira en 7 grömm. Við Íslendingar borðum að meðaltali of mikið salt og það er ekki talið gott fyrir heilsuna. Þótt erfitt sé að gera sér grein fyrir sykurmagni í matvælum er málið enn flóknara þegar kemur að saltinu. Fyrir það fyrsta snúast merkingar á umbúðum um natríum en ekki salt og þarf því að margfalda magn natríums með 2,5 til að finna út hversu mikið saltmagnið er. Til að flækja málið enn frekar er ekki skylt að merkja saltinnihald á matvæli (nema kjötvörur) og því er neytendum gert mjög erfitt um vik að fylgja opinberum ráðleggingum. Í Finnlandi er framleiðendum hins vegar skylt að merkja ákveðna vöruflokka sem innihalda mikið salt (s.s. osta, brauð, súpur og sósur) og upplýsa hvort varan innihaldi mikið eða lítið salt. Þessar aðgerðir hafa orðið til þess að saltneyslan hefur minnkað. Slíkar skyldumerkingar eru einnig hvati fyrir framleiðendur að breyta framleiðsluháttum.

Ég heyri oft þau rök að fólk beri sjálft ábyrgð á eigin heilsu. Ég hef aldrei heyrt neinn mótmæla því en til þess að geta borið ábyrgð á eigin heilsu, að ekki sé minnst á heilsu barnanna okkar, verða neytendur að hafa aðgang að þeim upplýsingum sem máli skipta. Það er hlutverk yfirvalda að tryggja neytendum þessar upplýsingar. Ef menn hafa raunverulegar áhyggjur af lýðheilsu landans verða þeir að bregðast við og þora að taka slaginn við framleiðendur með hagsmuni almennings að leiðarljósi.

Greinin birtist í DV 8 febrúar 2010
Brynhildur Pétursdóttir