Þriðjungur á varla lengur húsin sín

mánudagur, 9. mars 2009
Jónas Guðmundsson

 

Allt bendir nú til að stærstur hluti þeirrar skuldabyrði sem varð til í og í framhaldi af banka­hruninu í haust lendi á almenningi í landinu. Ástæðan er einföld: enginn annar aðili hefur fundist boðinn og búinn til að deila byrðunum. Ljóst er að almenningur mun taka á sig hundruði milljarða í opinberar skuldir, sem bankaævintýrið skilur eftir, og greiða fyrir með framtíðarsköttum. Þúsundir manna hafa þegar orðið fyrir tekjutapi vegna atvinnuleysis, um lengri eða skemmri tíma, sem á rætur að rekja til skellsins. Almennust verða samt áhrifin næstu misserin á almenna borgara sem eigendur fasteigna, vegna hærri skulda og þyngri greiðslubyrði af húsnæðislánum. Menn geta velt því fyrir sér hversu sanngjarnt það er að fólk sem ekki tók þátt í ævintýralegum ákvörðunum bankanna og annarra, átti ekki sök á falli krónunnar eða hækkun verðlagsins, sé sett í þessa stöðu, en þetta er samt sem áður hin blákalda mynd sem kemur í ljós nú þegar hyllir undir vor eftir haust hrunsins.

Staðfesting á þessari stöðu fékkst á opnum fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í liðinni viku. Þar upplýsti fjármálaráðherra að 15-18% einstaklinga, sem ættu húsnæði í landinu, stæði nú uppi með neikvætt eigið fé í eignum sínum - skuldir þeirra væru orðnar meiri en verðmæti eignanna. Hann hafði þetta úr niðurstöðum víðtækrar rannsóknar Seðlabanka Íslands á skuldastöðu almennings, sem birt verður innan skamms. Til viðbótar, upplýsti ráðherrann, væru 20% nálægt mörkunum. Þannig er nú að koma í ljós að meira en þriðjungur eigenda er á mörkum þess að hafa misst allt eigið fé í húsnæði sínu, eða beinlínis skuldar meira en þeir eiga. Verðbólgu­aldan og gengisfallið í bankahruninu hafa skilað sér af miklum þunga inn í bókhald heimilanna og gert skuldastöðu einstaklinga stórum verri en hún var fyrir örfáum mánuðum síðan.

Þessi staða hefði mátt vera ljós nokkru fyrr. Hún hlýtur að hafa áhrif á umræður um aðgerðir til hjálpar heimilunum. Rannsókn Seðlabankans svarar vonandi spurningum um hvernig þessi skuldabyrði einstaklinga skiptist nánar, hvernig hún leggst á aldurshópa landsmanna og hvernig hún dreifist eftir tekjum manna. Eldri tölur benda til að yngra fólk, undir 35 ára aldri, beri langþyngstar byrðar. Lægri tekjuhópar búa væntanlega við erfiðari stöðu en aðrir. Við þurfum að geta gert okkur skýra grein fyrir hversu erfið staða þessara þjóðfélagshópa er í raun orðin og hver hún verður þegar líður á árið.

Auðvitað er ekki sjálfgefið að þeir sem eiga í raun ekkert eftir í eignum sínum þurfi að yfirgefa hús sín. Flestir munu fá að vera þar áfram ef þeir geta staðið undir greiðslum af lánum. Vonir standa til að aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna greiðsluaðlögunar muni hjálpa til. En möguleikar fólks og vilji til að takast á við fjárhagsstöðuna munu eflaust veikjast eftir því sem tíminn líður.

Samkvæmt því sem fjármálaráðherra upplýsti á áðurnefndum fundi er ekki enn loku fyrir það skotið að vísitölubinding lána og annarra fjárskuldbindinga verði síðar á árinu takmörkuð til að létta byrðar skuldaranna. Það þyrfti þá að gera á meðan að munar um það, áður en verðbólgan verður hjöðnuð. Kosturinn við að hreyfa við vísitölubindingunni er einmitt sá að verðtryggingin nær til annarra fjárskuldbindinga en lánssamninga, s.s. umsaminna leigugreiðslna til langs tíma, sem hækka nú á sama tíma og leiguverð á markaði fer lækkandi. Þannig hafa leigjendur í námsmanna- eða búsetuíbúðum, vistfólk á elliheimilum og fleiri, orðið fyrir óvæntum og í sumum tilvikum óviðráðanlegum hækkunum vegna vísitölubindingar-greiðslna, eins og tíundað hefur verið í fjölmiðlum.

Í sjálfu sér ber að harma að ekki hefur fundist leið til að deila skuldabyrðunum með sanngjarnari hætti en nú lítur út fyrir. Niðurstaðan sem blasir við byggist að einhverju leyti á vanmati á kostnaðinum við að ganga lengra í að létta byrðar almennings; hvað mun gjaldþrota-meðferð og flutningar fjölskyldna kosta þegar upp er staðið; hvað kostar yfirtaka eigna og skipulagning útleigu eignanna, jafnvel til fyrri eigenda; hver verða hin neikvæðu auðsáhrif á efnahagslífið allt; hversu lamandi mun eigna- og skuldastaðan virka á framtak einstaklinga, hversu mikið hún muni draga úr krafti atvinnulífsins, auka atvinnuleysi, kosta í atvinnuleysisbótum? Einnig þyrfti að taka með í reikninginn hversu mikinn skaða þróunin mun líklega vinna á undirstöðum samfélagsins, með veikingu yngri aldurshópanna sem eru svo nauðsynlegir samfélaginu á komandi tímum. Margir telja að eigendur fjármagnsins hefðu átt að bera stærri hluta byrðanna en nú stefnir í. Þeir hafa um langt árabil notið hárrar ávöxtunar á fjármunum sínum, hárra raunvaxta, miðað við önnur lönd, ofan á fullar verðbætur. Algengt er í öðrum löndum að eigendur fjármagns búi tímabundið við neikvæða ávöxtun fjármagns á meðan að efnahagskrísur ganga yfir.

Það er svosem skref í rétta átt að myndin af þeim byrðum sem almenningur þarf að bera á næstu árum sé að skýrast. Einstaklingar og stjórnvöld geta þá undirbúið sig undir að taka afleiðingum þeirrar skiptingar sem ákveðin hefur verið.

 

Eftir: Jónas Guðmundsson, hagfræðing og stjórnarmann í Neytendasamtökunum