Aftur til einokunar?

Laugardagur, 17. október 2009
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

 

Eftir að hafa lesið grein á vefsíðu Félags íslenskra atvinnuflugmanna, www.fia.is, þar sem íslenskir neytendur eru hvattir til að sniðganga erlend flugfélög, og þar með Iceland Express, (þar sem með því að versla við Iceland Express sé í raun verið að styrkja „vini“ okkar Breta – má því ráða af skrifunum að eina flugfélagið sem til greina komi að versla við sé Icelandair) getur undirrituð hreinlega ekki orða bundist og vill koma eftirfarandi á framfæri.

Hinn 9. nóvember næstkomandi þarf undirrituð að fara í tveggja daga ferð til Brussel. Þar sem ekki er beint flug þangað þarf fyrst að kaupa flug með „íslensku“ flugfélagi til Kaupmannahafnar eða London og þaðan til Brussel (raunar er líka hægt að fara til Amsterdam eða Parísar og taka lest þaðan en það er yfirleitt óhagkvæmara og enn meiri fyrirhöfn).

Þegar kom að því að kaupa flugið var byrjað að kanna verðið hjá Icelandair. Niðurstaðan var þessi:

  • Ódýrasta flug fram og til baka til Kaupmannahafnar 9. nóvember og heim þann 11. kostaði 79.500 kr.
  • Ódýrasta farið sem í boði var til og frá London þessa daga kostaði svo litlar 82. 850 kr.
  • Flug til og frá París sömu daga var á 106.960 kr. og að fara til Amsterdam kostaði minnst 95.700 kr.

Þar sem þessi verð þóttu eilítið í hærri kantinum, svo vægt sé til orða tekið, var farið í það að kanna verðið hjá Iceland Express. Þar var munurinn nokkur, svo ekki sé meira sagt, en flugið til og frá Kaupmannahöfn þessa daga kostar 35.205 kr. og flug til London 39.980 kr.

Heilbrigð samkeppni kemur neytendum alltaf til góða og telja má fráleitt að það sé neytendum til góðs að „drepa“ einu samkeppnina á flugmarkaði með þessum hætti. Þá hljóta neytendur, sér í lagi þar sem pyngjan er að léttast hjá mörgum, að hugsa um eigin hag og fyrir mitt leyti segi ég að þegar svo gríðarlegur munur er á verði er valið ekki erfitt. Ef „íslensk“ flugfélög vilja aukin viðskipti verða þau í það minnsta að bjóða upp á samkeppnishæft verð. Er þá ekki tekið með í reikninginn ógagnsæi verðlagningar hjá Icelandair (eins og það í þeim flugum sem könnuð voru var ódýrara að fljúga á SAGA CLASS en á ECONOMY PLUS) eða það að í einhverjum tilvikum virðist mun ódýrara að kaupa ferðina í tvennu lagi en báðar leiðir í einu.

Þá vakna líka upp spurningar um það hvað verður um atvinnumöguleika íslenskra flugmanna erlendis ef fólki er ráðlagt að fljúga einungis með flugmönnum sem eru sömu þjóðar og það sjálft!

Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur Neytendasamtakanna.