Arsen í matvælum

Miðvikudagur, 30. janúar 2013
Þuríður Hjartardóttir

 

- rannsókn sýnir að hrísgrjón og ávaxtasafar innihalda efnið

Bandaríska neytendablaðið Consumer Reports hefur tvívegis fjallað um arsen í matvælum á þessu ári. Í janúarhefti blaðsins var grein um arsen í ávaxtasafa og nú í nóvember var fjallað um arsen í hrísgrjónum og matvælum unnum úr þeim. Þessar greinar hafa vakið talsverða athygli enda er arsen þekkt eitur og er krabbameinsvaldandi.

Arsen finnst víða
Arsen fyrirfinnst í náttúrunni og í Consumer Reports kemur fram að jarðvegur í hluta Nýja Englands og Miðvestur- og Suðvesturríkjanna er arsenríkur og getur mengað grunnvatnið. Utan þessara svæða hefur almenningur orðið fyrir áhrifum arsens á ýmsan hátt. Frá árinu 1910 hafa um 1,6 milljónir tonna af arseni verið notuð við landbúnaðar- og iðnaðarframleiðslu. Helmingurinn af því magni var notaður eftir 1960. Skordýraeitur sem inniheldur arsen hefur verið bannað frá 1980 en enn eru leifar í jarðvegi eftir mikla notkun fyrr á tímum. Áður fyrr var timbur gagnvarið með þrýstimeðferð þar sem m.a. arseniki var þrýst inn í viðinn en slík meðhöndlun er nú bönnuð. Efnið lekur þó áfram í jarðveginn þegar gamla timbrið er endurnýtt sem kurl. Aðrir mengunarvaldar eru kolakynt orkuver og málmbræðslur sem vinna kopar og blý.

 Arsen er frumefni með efnatáknið As og er nr. 33 í lotukerfinu. Arsenik er aftur á móti efnasamband arsens og súrefnis.

Lífrænt eða ólífrænt?
Sú tegund arsens sem fjallað er um hér að ofan er ólífrænt arsen (inorganic). Það er skaðlegt og getur valdið blöðru-, lungna- og húðkrabbameini og eykur hættu á hjarta-, æða- og ónæmissjúkdómum og sykursýki 2.

Þegar arsen binst kolefnissameindum er talað um lífrænt arsen (organic). Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna segir lífrænt arsen vera skaðlaust en það finnst m.a. í sjávarafurðum. Þá eru fleiri tegundir lífræns arsens notaðar við landbúnaðarframleiðslu, en þó eru dæmi um að fyrirtækjum sé bannað að nota ýmsar tegundir af lífrænu arseni sem umbreytist í ólífrænt arsen eftir að það berst út í umhverfið.

Arsen í drykkjavatni
Matvælastofnun Bandaríkjanna setur mörk á leyfilegt magn arsens í drykkjarvatni (úr krana og í flöskum), allt að 10 ppb (parts per billion). Engin mörk hafa verið sett um arsen í matvælum.

Rannsókn Consumer Reports á ávaxtasöfum leiddi í ljós að 10% af epla- og vínberjadjús innihéldu arsenmagn sem er hærra en leyfilegt er í drykkjarvatni. Mest af því var ólífrænt arsen. Uppruni ávaxtanna var margbreytilegur og það þyrfti mun ítarlegri rannsókn til að sannreyna hvort arsenið megi rekja til ræktunarsvæða og hvort það er þykknið eða vatnið sem inniheldur mesta arsenið.

Arsen í hrísgrjónum
Í nóvemberhefti Consumer Reports er fjallað um rannsókn á arseni í hrísgrjónum. Tekin voru 200 sýni  úr algengum matvælum sem framleidd eru úr hrísgrjónum. Niðurstaðan er sláandi því arsen reyndist vera í flestöllum sýnunum, hvort sem það var lífrænn barnamatur, morgunkorn eða brún eða hvít hrísgrjón, og stundum í því magni að ástæða er til að hafa áhyggjur. Þá kom fram að hvít hrísgrjón ræktuð í Arkansas, Louisiana, Missouri og Texas innihalda meira magn af arseni en hrísgrjón annarsstaðar frá. Hrísgrjón frá þessum 4 fylkjum standa undir 76% af hrísgrjónaneyslu bandarískra heimila. Þá var meira magn arsens í brúnum hrísgrjónum en hvítum og gilti þá einu hvert vörumerkið var.

Rýnt í heilsufarsgögn
Consumer Reports rýndi einnig í opinber gögn um heilsu þjóðarinnar og komst að því að fólk sem borðaði hrísgrjón hafði í sér 44% meira magn af arseni en þeir sem ekki borðuðu hrísgrjón. Greinilegur munur er milli kynþátta þar sem hærra magn arseniks fannst í Bandaríkjamönnum af asískum og suðuramerískum uppruna en meðal landa þeirra sem eiga sér annan bakgrunn.

Ráð til neytenda
Í kjölfar könnunarinnar hafa sérfræðingar Consumer Reports farið fram á að matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) setji mörk á arsenmagn í matvælum sem unnin eru úr hrísgrjónum og ávaxtasöfum. Það vantar reglur um viðmiðunarmörk arsens í matvælaframleiðslu og ítarlegri rannsóknir um áhrif þess á heilsufar neytenda. Þar til niðurstöður slíkra rannsókna liggja fyrir ráðleggur Consumer Reports neytendum eftirfarandi:

  • Látið kanna gæði drykkjarvatnsins á heimilum ykkar.
  • Börn yngri en 6 ára ættu ekki að drekka meiri ávaxtasafa en 1,2-1,8 dl á dag og eldri börn ekki meira en 3,5 dl daglega.
  • Til að minnka magn arsens í hrísgrjónum er ráðlagt að skola þau vandlega og sjóða 1 bolla af hrísgrjónum á móti 6 bollum af vatni og sía vel á eftir.
  • Takmarkið neyslu á hrísgrjónum og hrísgrjónaafurðum og veljið aðrar tegundir korns í staðinn.

Hér á landi er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af drykkjarvatni. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er helst hætta á mikilli inntöku arsens hjá börnum undir 3 ára þar sem barnamatur er oft unninn úr hrísgrjónum. Þetta á sérstaklega við ef um er að ræða börn með mjólkursykuróþol sem er þá jafnvel gefin hrísgrjónadrykkur að auki.

ÞH

Grein þessi birtist í Neytendablaðinu nóvember 2012

 

arsen í hrísgrjónum

Arsen hefur fundist í hrísgrjónum og veldur það áhyggjum þótt magnið sé lítið. Arsen er vel þekkt eiturefni og getur valið krabbameini. Eiturvirkni arsens er þó háð efnaforminu.