Áskriftarleiðir símafyrirtækjanna

Fimmtudagur, 18. september 2014
Ívar Halldórsson

 

Símafyrirtæki á Íslandi bjóða áskriftarleiðir þar sem viðskiptavinir geta hringt endalaust og sent ótakmarkað magn smáskilaboða innanlands gegn föstu mánaðargjaldi. Með öðrum orðum rukka fyrirtækin ekki lengur fyrir lengd símtala eða fjölda smáskilaboða heldur fer upphæð farsímareiknings eftir því gagnamagni sem viðskiptavinur notar. Í auglýsingum er gefið til kynna að hér sé um byltingu í fjarskiptamálum á Íslandi að ræða og því eðlilegt að neytendur vilji kynna sér hvað felist í þessum nýju leiðum. Neytendablaðið kannaði hvort og þá hversu mikill sparnaður hlýst af þessum nýju leiðum. Rétt er að taka fram að ekki er unnt að fjalla um allar áskriftarleiðir sem í boði eru á markaðnum og því æskilegt að neytendur skoði vel hvaða leiðir henta best.

Áskrift eða frelsi
Símafyrirtækin bjóða mikinn fjölda áskriftarleiða og getur verið flókið og ruglingslegt að velja þá leið sem hentar hverjum og einum. Fyrsta skrefið er þó að athuga hvort viðkomandi kýs að vera með símaviðskipti sín í áskrift eða í frelsi.

Með því að velja frelsi greiðir neytandi fyrirfram fyrir símnotkun og getur ekki farið umfram hana án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Mismunandi er eftir fyrirtækjum hvaða leiðir eru í boði en yfirleitt getur neytandi lagt ákveðna upphæð inn á símakort sitt og nýtir einfaldlega þá upphæð þangað til hún er búin. Rétt er að taka fram að gildistími frelsisinneigna er breytilegur og almennt  fyrnist inneign að vissum tíma liðnum. Sum fyrirtæki bjóða svokallaða frelsispakka. Í pakkanum er þá innifalin ákveðin notkun. Síminn býður t.a.m. upp á frelsispakka 60 sem kostar 1.090 kr. og í þeim pakka eru 60 mínútur í tali, 60 smáskilaboð og 60 MB gagnamagn.

Ef valin er áskrift greiðir viðskiptavinur ákveðið mánaðargjald eftir áskriftarleið og aukalega fyrir þá notkun sem er umfram. Þar til nýlega hafa einungis verið í boði áskriftarleiðir þar sem takmörk hafa verið á lengd símtala, fjölda smáskilaboða og notkun á gagnamagni. Einnig hafa neytendur getað valið leiðir þar sem innifalin eru viss fríðindi, eins og að hringja endurgjaldslaust í nokkur fyrirfram valin númer, með vissum takmörkunum. Með hinum nýju áskriftarleiðum eru einungis sett takmörk á notkun á gagnamagni, en viðskiptavinir geta hringt og sent eins mörg smáskilaboð og þeir vilja innanlands.

Hverjum gagnast hinar nýju áskriftarleiðir?
Ljóst er að notkunarmunstur neytenda er mjög fjölbreytt. Nýju áskriftarleiðirnar munu óneitanlega gagnast vissum hluta farsímanotenda, en séu þær bornar saman við aðrar leiðir sem standa til boða virðast þær ekki gagnast öllum. Nauðsynlegt er að neytendur skoði vel farsímanotkun sína áður en valin er áskriftarleið. Eftirfarandi atriði ætti að skoða áður en ákvörðun er tekin:

Hversu mikið er hringt?
Ef notandi hringir mjög mikið úr farsíma en notar ekki mikið gagnamagn geta nýju áskriftarleiðirnar verið hagkvæmur kostur. Símnotkunin þarf að vísu að vera umtalsverð svo að þær borgi sig. Í dæmaskyni kostar Vodafone Red S (ódýrasti pakkinn hjá Vodafone þar sem hægt er að tala endalaust, innifalið er 500 MB gagnamagn) 5.990 kr. á mánuði. Í stað þess að velja þá leið væri hægt að velja Vodafone 250 (innifaldar 250 mínútur, 250 SMS og 250 MB) á 2.990 kr. á mánuði. Ef notandi vill auka gagnamagn er hægt að bæta við 500 MB og allt að 30 GB gagnamagnspakka sem kostar frá 650 kr. á mánuði. Ef úthringd símtöl eru ekki lengri en 250 mínútur á mánuði getur því sparnaðurinn við að velja Vodafone 250 umfram Vodafone Red S numið allt að 3.000 kr. á mánuði, eða 36.000 kr. á ársgrundvelli. Ef notandi hringir meira en innifaldar mínútur greiðir hann 18,9 kr/mín og 9,9 kr. í upphafsgjald. Því virðist notkunin þurfa að vera nokkuð umfram 250 mínútur til að sparnaður felist í hinni nýju áskriftarleið.

Nú eru margir hættir að nota heimasíma og eiga öll samskipti í gegnum farsímann. Í slíkum tilvikum getur verið hagstætt fyrir neytendur að velja sér ótakmarkaða leið. Kostnaðurinn við að hafa heimasíma er nokkur. Hjá Símanum er stofngjald við að fá heimasíma 3.990 kr. og greiða þarf mánaðarlegt línugjald að upphæð 1.990 kr. Rétt er að taka fram að ef viðkomandi er með internettengingu er að öllum líkindum greitt línugjald þar sem heimasími og internettenging nota sömu símalínu. Símtalskostnaður í ódýrustu áskriftarleið Símans er 9,9 kr. upphafsgjald og svo er mínútuverð í heimasíma 3,9 kr. og mínútuverð í farsíma 22 kr.

Í sumum tilvikum geta þeir sem eru með ótakmarkaða áskriftarleið bætt fjölskyldupakka við áskriftina. Fjölskyldupakki virkar á þá leið að ef einn aðili í fjölskyldu er með ótakmarkaða áskriftarleið er hægt að bæta öðrum meðlimi við fyrir 2.990 kr. á mánuði. Þetta getur verið áhugaverð leið fyrir fjölskyldu ef allir hringja mikið úr farsímum. Þessir fjölskyldupakkar hafa þó þann ókost að gagnamagnið sem fylgir ótakmörkuðu leiðinni er samnýtt á milli þeirra sem eru í fjölskyldupakkanum. Því skiptir miklu máli að fjölskyldur skoði vel gagnamagnsnotkun sína miðað við hringd símtöl áður en valin er áskriftarleið.

Í hversu mörg númer er hringt?
Nú standa til boða ýmsar áskriftarleiðir þar sem neytandi getur valið nokkur símanúmer sem hann hringir í þar sem innifalinn er viss fjöldi mínútna sem hægt er að hringja í þau númer á föstu mánaðarverði. Ef neytandi hringir einungis í 3 númer býður Síminn upp á leiðina „3 vinir“. Þá greiðir neytandinn 1.390 kr. á mánuði og getur hringt 600 mínútur og sent 300 sms í 3 númer. Einnig stendur til boða áskriftarleiðin „6 vinir“ þar sem neytandinn greiðir 2.590 á mánuði og getur hringt 1000 mínútur og sent 500 SMS í 6 símanúmer. Ekkert gagnamagn er innifalið í þessum pakka. Þetta er töluvert ódýrara en ódýrasta ótakmarkaða leiðin sem Síminn og hin símafyrirtækin bjóða, en ódýrasta leiðin hjá Símanum kostar 5.990 kr. og hjá Nova og Alterna kosta þær 4.990 kr. Nova býður einnig viðskiptavinum sínum að hringja endurgjaldslaust frá Nova-númeri í Nova-númer. Það skiptir miklu máli að neytendur skoði farsímanotkun sína vel því ef einungis er hringt í nokkur númer er ekki endilega hagstæðast að velja nýju ótakmörkuðu áskriftarleiðirnar.

Mikil notkun gagnamagns
Stærsti ótakmarkaði pakkinn sem Vodafone býður er Vodafone L og er 5 GB gagnamagn innifalið.  Sú leið kostar 10.990 kr. á mánuði (fyrir hvert umfram GB eru greiddar 690 kr.) og er líklega ein af þeim hagkvæmustu fyrir þá aðila sem vilja hringja ótakmarkað og nýta sér mikið gagnamagn. Sé hefðbundin símnotkun ekki svo mikil má velja Vodafone 250 leiðina fyrir 2.990 kr. og bæta við gagnamagnspökkum frá 500 MB upp í 30 GB. Það kostar 2.190 kr. að bæta við 5 GB gagnamagni við Vodafone 250 og þá eru greiddar 5.180 kr. fyrir svipað gagnamagn og felst í Vodafone L. Því er það nærri helmingi ódýrara að velja eldri áskriftarleiðina til að fá sambærilegt gagnamagn og felst í Vodafone L. Ef lítið sem ekkert er hringt úr símanum er einnig hægt að kaupa Vodafone 50 þar sem innifaldar eru 50 mínútur og 50 SMS fyrir 990 kr. á mánuði. Ef 5 GB gagnamagnspakka er bætt við þá leið er kostnaður 3.180 kr. á mánuði fyrir Vodafone 50 og sama gagnamagn og fylgir Vodafone L. Er sparnaðurinn þá 7.810 kr. á mánuði eða um 94 þúsund á ári.

Hvað er gagnamagn?
Gríðarleg bylting hefur orðið í notkun farsíma með tilkomu snjallsíma. Í dag eru farsímar orðnir að litlum og fullkomnum tölvum sem hafa óneitanlega töluvert meira notagildi en farsímar höfðu fyrir nokkrum árum. Þróunin á fjarskiptamarkaði hefur verið á þá leið að nú er aðaláherslan ekki endilega lögð á hefðbundin símtöl heldur netsamskipti og forrit („öpp“). Þetta þýðir að gagnamagn skiptir neytendur miklu máli og jafnvel meira  en „hefðbundin“ símtöl þar sem hægt er að komast í kringum takmörkun á símtölum með ýmsum tölvuforritum, s.s. skype, facebook, viper o.fl.

Margir neytendur gera sér ekki grein fyrir hvernig gagnamagn er mælt. Eflaust rugla margir notkun gagnamagns í farsíma saman við notkun niðurhals á internetinu. Staðreyndin er þó sú að ekki er gerður greinarmunur á innlendu og erlendu gagnamagni í farsímum og einnig er bæði tekið mið af sóttum og sendum gögnum. Farsímanotendur þurfa því að greiða fyrir að fara á íslenskar síður í símum sínum til jafns við þær erlendu. Erfitt getur verið að gera sér grein fyrir því hversu mikið gagnamagn er notað við eðlilega daglega notkun.

Taflan sýnir gagnamagnið sem hver athöfn tekur og hversu oft er hægt að framkvæma þær miðað við innifalið gagnamagn:

  Viðmiðunar gagna-magn á einingu Mánaðarlegt gagnamagn í áskrift
Athöfn 100 MB 250 MB 500 MB 1 GB 5 GB 10 GB
Lag (3 mín) 3 MB 33 83 167 33 1667 3333
Youtube Video niðurhal (3 mín) 15 MB 7 17 33 67 333 667
Þáttur niðurhal (30 mín) 350 MB 0,3 0,7 1,4 2,9 14,3 28,6
Bíómynd niðurhal (2 tímar) 700 MB 0,1 0,4 0,7 1,4 7,1 14,3
Frétt á mbl.is 0,1 MB 1000 2500 5000 10000 50000 100000
Tölvupóstur án viðhengis 3 KB 33 83 167 333 1667 3333
Flettingar í Facebook appi 1 MB 77 192 385 769 3846 7692
Klukkutími að vafra um á netinu 15 MB 7 17 33 67 333 667
Streyma myndband af netinu/mín 2 MB 50 125 250 500 2500 5000
Streyma tónlist af netinu/mín 0,5 MB 200 500 1000 2000 10000 20000
 • Einungis áætlaðar tölur ef um enga aðra notkun er að ræða miðað við almenna viðmiðun á gagnamagni.
 • Viðmiðunarmagn getur verið breytilegt eftir gerð og stillingum snjallsíma, ásamt öðrum þáttum.
 • Tölur í reitum gefa til kynna fjölda skipta eða tímalengd athafnar.

Hver er niðurstaðan?
Af ofangreindri umfjöllun er ljóst að neytendur þurfa að skoða vel farsímanotkun sína áður en þeir ákveða hvort nýju áskriftarleiðirnar henti þeirra þörfum. Nýju leiðirnar virðast einungis henta þeim sem hringja mjög mikið úr farsímum sínum. Þær geta því verið áhugaverð lausn fyrir þá sem ekki eiga heimasíma. Líkt og fram hefur komið verður farsímanotkunin þó að vera umtalsverð svo endalausu leiðirnar borgi sig. Notandi borgar hærra gjald fyrir að hringja ótakmarkað og því þarf að skoða vel hvort hagkvæmara sé að velja eldri áskriftarleiðir og greiða svo aukalega fyrir umframnotkun. Nýju leiðirnar hafa þó þann kost að viðkomandi greiðir fast mánaðargjald fyrir símnotkun sína og það getur verið kostur fyrir þá sem vilja greiða fasta upphæð mánaðarlega án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hversu mikið er hringt. Fyrir þá sem nota mikið gagnamagn, jafnvel meira en að hringja, virðast nýju áskriftarleiðirnar ekki vera góður kostur umfram aðrar leiðir.

Ívar Halldórsson
Greinin birtist í Neytendablaðinu 2.tbl.2014 og er unnin út frá upplýsingum aðgengilegum á heimasíðum fjarskiptafyrirtækja 19. apríl 2014, ásamt svörum við fyrirspurnum.

 

Góð ráð til að minnka gagnamagnsnotkun

 • Bíddu með athafnir sem krefjast mikillar gagnamagnsnotkunar þar til þú hefur tök á að tengjast þráðlausu neti. Til að ganga úr skugga um að þú sért að nýta þér þráðlaust net er gott ráð að slökkva á gagnaflutningi símanetsins.
 • Vertu viss um að slökkt sé á öllum forritum þegar þau eru ekki í notkun. Sum forrit starfa í bakgrunni án þess að notandi geri sér grein fyrir því og geta því eytt upp gagnamagni. Einnig geta forrit sem starfa í bakgrunni leitt til styttri rafhlöðuendingar.
 • Reyndu að takmarka notkun á forritum sem sækja upplýsingar sjálfkrafa í gegnum netið. Forrit eins og Facebook og forrit sem sýna veðrið, breytingar á hlutabréfamarkaði eða stöðu í leikjum þurfa sífellt að sækja upplýsingar af netinu.
 • Ekki nota farsímann til þess að tengja önnur tæki við netið. Þegar síminn er notaður sem svokallaður „hot-spot“ sem önnur tæki nýta til að tengjast netinu getur gagnamagnið eyðst upp á stuttum tíma.
 • Ef þú telur nauðsynlegt að vafra um netið eða eiga í miklum tölvupóstsamskiptum skaltu spyrja þig hvort það geti beðið þangað til þú kemst í tölvu. Þótt mögulegt sé að nota símann til að komast á netið þýðir það ekki endilega að þú eigir alltaf að nýta þér það.
 • Slökktu á stillingum sem tilkynna um leið og tölvupóstur berst. Einnig er gott ráð að breyta tölvupóststillingum á þann veg að síminn sýni þér póstinn án þess að sækja hann á símann.
 • Reyndu að nota þau forrit sem nota lítið gagnamagn. Mörg forrit gera sömu hlutina en krefjast mismunandi gagnamagns. Apple maps nýtir t.a.m. töluvert minna gagnamagn en Google maps.
 • Þegar ferðast er til útlanda er mikilvægt að skoða vel gjöld fyrir gagnamagnsnotkun, þar sem þau munu vera töluvert hærri erlendis en hér á Íslandi. Það getur verið gott ráð að slökkva á netinu í símanum meðan á dvöl erlendis varir.
 • Forðastu að uppfæra forrit meðan síminn er tengdur við farsímakerfið. Hagkvæmast er að uppfæra forritin í gegnum þráðlaus net eða að ná í uppfærslur í tölvu og tengja svo farsímann við tölvuna með USB.
 • Síður sem eru sérsniðnar að farsímum krefjast minna gagnamagns en almennar vefsíður. Það krefst t.d. minna gagnamagns að skoða www.m.visir.is en www.visir.is.
 • Auglýsingar í símforritum eru ekki einungis hvimleiðar heldur geta þær einnig notað gagnamagn. Því gæti verið hagkvæmara að ná í útfærslu af viðkomandi forriti sem er ekki með auglýsingum.
 • Skoðið stillingarnar og upplýsingar í símanum vel. Er síminn stilltur þannig að uppfærslur fara eingöngu fram þegar þú ert tengdur við netið heima hjá þér og eru kannski einhver takmörk sett á gagnanotkun?