Betri heilsa á efri árum

mánudagur, 12. janúar 2015
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

 

Við lifum sífellt lengur. Innan ríkja Evrópusambandsins (ESB) er gert ráð fyrir að drengir sem fæddust árið 2009 nái að meðaltali 76,7 ára aldri en stúlkurnar 82,6 ára aldri. Á Íslandi er því spáð að stúlkur sem fæddust árið 2013 nái að meðaltali 83,7 ára aldri en drengirnir 80,8 ára aldri. Hækkandi lífaldur auk minnkandi fæðingartíðni hefur mikil áhrif á aldurssamsetninguna sem mun breytast talsvert á næstunni. Þannig voru 17,5% íbúa ESB-ríkjanna 65 ára og eldri árið 2011 en því er spáð að 29,9% verði á þeim aldri árið 2060. Mannfjöldaspá Hagstofunnar (miðspá) gerir svo ráð fyrir að þessi aldurshópur verði 23,4% Íslendinga árið 2050, en hann var um 13% mannfjöldans árið 2013.

„Heilbrigðislíkur“

Það er vissulega jákvætt að fólk nái hærri aldri en áður, m.a. með hjálp nútíma læknavísinda. Það er hins vegar áhyggjuefni að „heilbrigðislíkur“ (healthy life years), þ.e. sá árafjöldi sem við megum reikna með að vera við góða heilsu, hafa ekki aukist í samræmi við auknar lífslíkur. Þannig er gert ráð fyrir að drengir sem fæddust í ESB-ríkjunum árið 2009 lifi að meðaltali í 61,6 ár við góða heilsu en stúlkurnar í 62,5 ár. Þannig geta þessir einstaklingar reiknað með því að lifa lengi en þurfa jafnframt að gera ráð fyrir því að kljást við heilsubrest síðustu 15-20 æviárin. Það er vissulega áhyggjuefni, ekki bara vegna skertra lífsgæða einstaklinganna sjálfra heldur einnig með hliðsjón af þeim kostnaði sem sjúkdómar hafa í för með sér fyrir samfélagið í heild. Því er það sérstakt markmið hjá Evrópusambandinu að árið 2020 hafi „heilbrigðislíkur“ aukist að meðaltali um tvö ár innan aðildarríkjanna. Hér verður fjallað um ýmis atriði sem geta aukið líkurnar á að það takist, enda hlýtur það að vera markmið bæði einstaklinga og samfélaga að fólk búi við góða heilsu sem allra lengst.

Efnahagsaðstæður

Eðli máls samkvæmt getur fjárhagur haft bein áhrif á heilsu fólks. Þannig er t.d. hollur matur alla jafna dýrari en óhollur og þeir sem hafa minna milli handanna sækja sér síður heilbrigðisþjónustu. Það er einnig mikilvægt fyrir eldra fólk, bæði fjárhagslega og félagslega, að eiga þess kost að taka þátt í atvinnulífinu eða einhvers konar sjálfboðastarfi, enda mikilvægt fyrir alla að geta lagt sitt að mörkum og fá viðurkenningu fyrir. Stefna í málefnum aldraðra ætti því að miða að því að auðvelda eldra fólki að vera virkt í samfélaginu, og jafnvel ætti að stefna að því að hvetja fólk til að taka þátt í atvinnulífinu eins lengi og það vill og treystir sér til og láta frekar af störfum smátt og smátt.

Félagslegar aðstæður

Það hefur sýnt sig að félagsleg einangrun hefur skaðleg áhrif á heilsu eldra fólks. Þeir sem búa einir borða þannig sjaldnar og neyta síður ávaxta og grænmetis, hafa minni matarlyst og eru horaðri en þeir sem búa með öðrum. Félagsleg einangrun er líka talin meðal þeirra þátta sem auka hættu á langvarandi sjúkdómum. Þá hefur því einnig verið haldið fram að lestur, menntun og ævilöng fróðleiksfíkn stuðli að því að eldra fólk viðhaldi færni sinni, sjálfsöryggi og sjálfstæði. Í því sambandi er einnig mikilvægt að læra á nýja hluti, eins og internetið og samfélagsmiðla, enda getur það stuðlað að auknum félagslegum samskiptum og brúað ákveðið kynslóðabil.

Umhverfisþættir  

Það er mikilvægt fyrir eldra fólk að stunda hreyfingu, vera félagslega virkt og halda sjálfstæði sínu eins lengi og kostur er. WHO (Alþjóðaheilbrigðisstofnunin) hefur sett á fót alþjóðaverkefni um aldursvænar borgir eða „age-friendly city“, til að hvetja borgaryfirvöld til þess að laga þjónustu sína og umhverfi að eldri íbúum. Þannig er t.a.m. æskilegt að almenningssamgöngur séu ódýrar og aðgengilegar, til að tryggja það að eldri borgarar, sem e.t.v. geta ekki lengur ekið, komist leiðar sinnar, t.a.m. við matarinnkaup eða til að sækja skemmtanir og menningarviðburði. Þá ætti líka að huga að því að auðvelt sé fyrir þennan hóp að komast leiðar sinnar fótgangandi, t.a.m. með því að gæta þess að gangstéttir séu greiðfærar og lýsing á þeim nægilega góð, að græn svæði og göngustígar séu inni í íbúðarhverfum og að bekkir séu staðsettir sem víðast svo hægt sé að hvíla sig á göngunni. Yfir vetrartímann þarf svo jafnframt að gæta þess að gangstéttir séu ruddar, sandbornar eða saltaðar, til að draga úr fall- og slysahættu. Rétt er að taka fram að Reykjavíkurborg er um þessar mundir að undirbúa þátttöku í þessu verkefni.

Persónubundnir þættir

Til að viðhalda heilbrigði á efri árum er auðvitað mikilvægt að huga að heilsunni alla ævi. Þannig er t.d. mikilvægt að stunda hreyfingu og gæta að mataræðinu. Það er svo vel þekkt hvaða áhrif reykingar hafa á hjarta, æðar og öndunarfæri, en þess utan hefur verið sýnt fram á neikvæð áhrif reykinga á beinþéttni og vöðvastyrk eldra fólks. Óhófleg drykkja (meira en fimm áfengiseiningar í senn (einn einfaldur er ein áfengiseining, stór bjór er 2,5 einingar)) hefur svo afar skaðleg áhrif á heilsu eldra fólks og tengist m.a. vannæringu, auk þess sem hættan á að viðkomandi detti og slasi sig eykst. Eru þá ótalin áhrif áfengisneyslu á lifrina, magann og brisið.

Vatnsneysla

Ofþornun, sem jafnframt getur verið erfitt að greina, er algengt vandamál hjá eldra fólki og getur haft mjög skaðleg áhrif á heilsuna. Þannig er vatnsdrykkja nauðsynleg til að viðhalda meltingunni og auðvelda upptöku næringarefna úr fæðu. Mælt er með því að aldraðir einstaklingar drekki a.m.k. 1,5 l af vatni á dag, í smáum skömmtum yfir daginn.

Orkuþörf

Þar sem eldra fólk hreyfir sig að jafnaði minna en yngra fólk og vöðvamassi líkamans rýrnar og hlutfall líkamsfitu eykst (vöðvar eru orkufrekari en fita) með aldrinum minnkar orkuþörf okkar með hverju ári. Þannig er dagleg orkuþörf sjötugrar konu um 200 hitaeiningum minni en fimmtugrar konu. Til að viðhalda ónæmiskerfinu og forðast vannæringu, sem er nokkuð algeng meðal eldra fólks, er þó vitaskuld afar mikilvægt að eldra fólk fái næga orku og næringarefni, og „megrunarkúra“ ætti ekki að stunda án eftirlits heilbrigðisstarfsfólks.

Fita

Fita er nauðsynleg t.a.m. við upptöku fituleysanlegra vítamína á borð við A-, D-, K- og E-vítamín. Fita er hins vegar mjög orkuríkur næringargjafi og ofneysla leiðir til ofþyngdar auk þess sem transfitusýrur hafa skaðleg áhrif á æðakerfið. Einómettaðar og fjölómettaðar fitusýrur geta hins vegar haft jákvæð áhrif á heilsuna. Sérstaklega á þetta við um fjölómettuðu fitusýrurnar ómega-3, sem finnast aðallega í feitum fiski á borð við lax, síld og makríl og virðast hafa góð áhrif á ónæmiskerfið, æðakerfið, liðabólgu og jafnvel heilastarfsemi. Feitur fiskur er einnig besta uppspretta D-vítamíns, en sé þess neytt ásamt kalki (D-vítamín er nauðsynlegt við upptöku kalks) getur það bætt beinþéttni og dregið úr hættu á beinbrotum. Þó er rétt að hafa í huga að ofneysla D-vítamíns getur einnig haft skaðlegar afleiðingar.

Prótín

Prótín, sem byggð eru upp úr amínósýrum, eru afar mikilvægt byggingarefni fyrir vöðva og bein. Þar sem hæfni vöðvamassa til að vinna úr prótíni minnkar með árunum hefur því verið haldið fram að eldra fólk þurfi meira prótín en þeir sem yngri eru, til að vinna gegn vannæringu og vöðvarýrnun. Prótín finnst aðallega í vörum úr dýraríkinu, s.s. kjöti, fiski, eggjum og mjólkurvörum.

Kolvetni

Kolvetni hefur undanfarið haft á sér ákveðið óorð en er þó mikilvægur orkugjafi, ekki síst fyrir heilann, og almennt er mælt með því að 45-60% orkunnar sem við neytum komi frá kolvetnum. Kolvetni eru aðallega í kornvörum, grænmeti, kartöflum og ávöxtum (og sælgæti) og misjafnt er hvort um gott eða slæmt kolvetni er að ræða. Ekki hafa verið gefnar út neinar sérstakar leiðbeiningar um kolvetnisneyslu eldra fólks, en mikilvægt er fyrir alla að neyta frekar fæðu sem einnig inniheldur trefjar og enn fremur geta sum kolvetni haft slæm áhrif á blóðsykurinn. Þannig er mun skynsamlegra að fá kolvetni t.a.m. úr heilkorni, eplum og appelsínum fremur en vöfflum og kleinuhringjum.

Grein þessi er unnin úr upplýsingum af heimasíðu Eurostat og WHO, skriflegum svörum frá Hagstofu Íslands og Reykjavíkurborg og upplýsingum sem fram komu á ráðstefnunni „New Policies for protection of ageing consumers“ sem fulltrúi NS tók þátt í.

 

Höfundur: Hildigunnur Hafsteinsdóttir
Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 4. tbl. 2014

 

 

 

Betri heilsa á efri árum