Bisfenól-A í brennidepli

Föstudagur, 2. október 2015
Anne Maria Sparf

 

Bisfenól-A eða BPA er hormónaraskandi efni sem leynist víða og er nánast ómögulegt að forðast í daglegu lífi. Neytendablaðið gerði úttekt á BPA til að varpa ljósi á ólíkar skoðanir iðnaðarins og vísindamanna um öryggi efnisins.

Alvarlegir sjúkdómar og þroskafrávik tengd við BPA
Bisfenól-A (BPA) er kolvetnissamband sem notað er í plastframleiðslu, einkum á polýkarbónatplasti og epoxýhúðun. BPA hefur verið í notkun síðan 1957 en talið er að árlega séu framleiddar um 3-5 milljónir tonna af efninu á heimsvísu.

BPA líkir eftir áhrifum estrógens og getur truflað starfsemi innkirtla, jafnvel í mjög lágum styrk. Það getur dregið úr eðlilegum þroska heilans og taugakerfis og valdið þroskafrávikum og ófrjósemi. Enn fremur virðast vera tengsl milli astma, ADHD, offitu, krabbameina, hjarta- og æðasjúkdóma, lifrarskemmda, sykursýki og annarra nútímasjúkdóma og aukins magns BPA í þvagi. Heili, æxlunarfæri, blöðruhálskirtill, brjóst, skjaldkirtill, lifur og nýru virðast sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum efnisins.

Fóstur og ungbörn í mestri hættu
BPA mælist í þvagi og blóði nánast allra sem búa í nútímasamfélagi. Áhyggjur vísindamanna beinast þó aðallega að áhrifum efnisins á fóstur og ungbörn, þar sem hættan á tauga- og hormónaraskandi áhrifum er mest á seinasta þriðjungi meðgöngunnar og á fyrstu æviárunum og sannað hefur verið að BPA berst í gegnum fylgju og finnst í móðurmjólk.

Lítið magn af BPA lekur úr plasti við venjulega notkun, einkum þegar plastið er farið að flagna eða það er hitað upp eða þvegið með sterkum hreinsiefnum. Snerting við vökva með hátt eða lágt sýrustig eykur lekann enn fremur. Matur og drykkur eru talin aðaluppspretta BPA, en BPA mælist jafnframt í heimilisryki og kemst í blóðrásina beint í gegnum húðina.

Ágreiningur um öryggi BPA
Fjölmargar rannsóknir hafa staðfest hormónaraskandi áhrif BPA í lágum styrk. Þrátt fyrir það gaf Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) nýlega út ályktun þar sem fullyrt er að neytendum stafi ekki hætta af BPA þar sem útsetning fyrir efninu sé vel undir þolanlegum dagskammti.

EFSA telur að að fullorðnir verði fyrir að hámarki 1 míkrógrömmum á dag á kíló en börn og táningar eru útsett fyrir 1,26 til 1,45 míkrógrömm á hvert kíló líkamsþyngdar. EFSA ákvað þó að lækka hámarksgildið fyrir BPA verulega, eða úr 50 míkrógrömmum á hvert kíló af líkamsþyngd niður í 4 míkrógrömm.

Rannsóknaraðferðir og nálgun EFSA hafa sætt harðri gagnrýni. Vísindamenn telja óviðeigandi að meta öryggi hormónaraskandi efna á borð BPA út frá hefðbundnum hámarksskömmtum. Slíkar aðferðir henta til að meta bráðeitrandi áhrif efna en ná ekki nægilega vel utan um langtímaáhrif efnanna í lágum styrk. M.a. hefur Matvælastofnun Danska tækniháskólans (DTU) gagnrýnt viðmið EFSA og telur að miða ætti við 0,7 míkrógrömm á hvert kíló líkamsþyngdar.

Sænska efnaöryggisstofnunin KEMI tekur í sama streng og bendir á að alls ólíkar niðurstöður um áhrif BPA fáist ef notaðar eru sk. lágskammtaaðferðir í stað þolanlegs hámarksskammtar. KEMI hefur m.a. varað við notkun BPA í kassakvittunum og plastslöngum og öðrum búnaði á spítölum, einkum við meðferð fyrirbura og nýbura. Fræðinefnd ESB um nýjar heilsuógnir (SCENIHR) mælir einnig með því að forðast notkun lækningatækja sem innihalda BPA.

Í kjölfar ályktunarinnar hafa frjáls félagasamtök ásakað EFSA um hagsmunagæslu fyrir plast- og matvælaframleiðendur.

Miklir hagsmunir í húfi
Mörg lönd hafa þegar takmarkað notkun BPA með varúðarregluna að leiðarljósi. Danir og Belgar voru meðal fyrstu þjóða til að banna BPA í pelum og matarílátum fyrir ung börn. Notkun BPA í pelum var hætt í Evrópu og Bandaríkjunum árið 2011. Svíar hyggjast banna BPA í kassarúllum og vilja hætta notkun BPA í niðursuðudósum fyrir árið 2020.

Frakkar hafa gengið lengst og bönnuðu BPA í öllum matarílátum frá byrjun ársins 2015. Plastframleiðendur hafa mótmælt nýju reglunum harðlega með þeim rökum að efnin sem eiga að leysa BPA af hólmi hafi ekki verið nægilega vel rannsökuð, séu ekki til eða dugi ekki jafn vel.

Frakkar halda ótrauðir áfram og beita nú þrýstingi innan ESB til að sambærilegt bann verði innleitt í öllum aðildarlöndum sambandsins. Þeir eiga á brattann að sækja þar sem um þriðjungur heimsframleiðslu BPA (um 840.000 tonn) fer fram í Þýskalandi og því hafa Þjóðverjar mikilla hagsmuna að gæta.

Valkostirnir ekki endilega skárri
Framleiðendur hafa að hluta til rétt fyrir sér þar sem efnin sem koma í stað BPA virðast ekki í öllum tilfellum öruggari valkostir. Sem dæmi má nefna efnin Bisfenól-S (BPS)  og Bisfenól-F (BPF) sem hafa svipuð áhrif og BPA og finnast nú þegar í ryki og þvagi manna í sambærilegum styrk og BPA. Þess má geta að þessi efni eru oft notuð í vörum sem auglýstar eru sem BPA-lausar.

Í ljósi þessa vildi Neytendablaðið ganga úr skugga um að barnapelar á markaðnum hérlendis væru nú lausir við bisfenólefni og hafði samband við nokkra af stærstu framleiðendunum. MAM segist eingöngu nota polýprópýlenplast (PP), sem er laust við BPA og BPS. Philips, framleiðandi Avent-pela, segir að notkun BPA hafi verið hætt árið 2009 í varúðarskyni. Pelarnir eru nú framleiddir úr PET eða PP. NUK vildi ekkert upplýsa um innihaldsefnin í pelum frá fyrirtækinu, en tók fram að polýkarbónat væri ekki notað og að vörurnar væru lausar við BPA.

BPS í kassakvittunum hérlendis
Skýringin á því að efni sem notað er við plastframleiðslu finnst í kassakvittunum liggur í prentlausn sem notuð er víðast hvar í verslunum í dag. BPA er notað sem framköllunarefni í svokölluðum „thermal“ pappír í sérstökum hitaprenturum sem framkalla textann með efnahvörfum við snögga hitun.

Fyrirtækið Pappír hf. er með um 80% markaðshlutdeild á kassakvittunarpappír hérlendis. Jóhannes Sigurðsson framkvæmdastjóri upplýsir að fyrirtækið hafi skipt yfir í BPA-lausan pappír fyrir einu og hálfu ári síðan þegar verðmunurinn minnkaði nægilega til að réttlæta breytinguna.

Við nánari skoðun kemur í ljós að pappírinn inniheldur BPS í staðinn. Aðspurður um það segir Jóhannes: „Ég vildi óska að ég gæti skaffað hinn fullkomna pappír, en ég er hræddur um að verð til kaupmanna verði fyrir ofan þau mörk sem þeir sætta sig við. Á sínum tíma gerðum við áðurnefnda breytingu í góðri trú um að við værum að gera það rétta og teljum okkur vera með eins góða vöru og unnt er.  Að sjálfsögðu fylgjumst við með því sem gerist í þessum málum.“

Ímynd umfram allt!
Haft var samband við erlendan birgja Pappírs hf., sem óskaði nafnleyndar til að forðast áhættu fyrir orðspor fyrirtækisins þar sem BPA væri „viðkvæmt mál með hátt óvissustig þar sem stakar upplýsingar geta valdið misskilningi og villt um fyrir fólki.“

Fyrirtækið segist hafa fenóllausar pappírstegundir í boði, en staðfestir að BPS pappírinn verði oftast fyrir valinu sökum hagkvæmni. Fulltrúar fyrirtækisins treystu sér ekki til þess að meta niðurstöður rannsókna sem sýna að BPS hefur álíka hormónaraskandi áhrif og BPA og segjast frekar bíða eftir áliti ESB stofnana um öryggi BPS.

Pappírsframleiðandinn segir jafnframt að áhættan af BPA sé óljós og bendir á áðurnefnda ályktun EFSA um öryggi BPA máli sínu til stuðnings. Þá vísar hann í yfirlýsingu frá European Thermal Paper Association (ETPA) sem telur notkun BPA í thermalpappír vera örugga og ábyrga.

Vinnueftirlitið sér ekki ástæðu til að banna BPA í kassakvittunum
Svíar vilja banna BPA í kassakvittunum í varúðarskyni sökum þess hve margar ungar konur á barneignaraldri vinna við verslun. Styrkur BPA í kvittunum er hár auk þess sem það er í óbundnu formi og losnar því auðveldlega.

Til að kanna afstöðu yfirvalda hér á landi var haft samband við Víði Kristjánsson, deildarstjóra Efna- og hollustuháttadeildar hjá Vinnueftirlitinu.

Víðir vísar m.a. í alræmda ályktun EFSA þar sem upptaka BPA í gegnum kassakvittanir og fæðu er sögð vera langt innan hættumarka: „Vinnueftirlitið telur ekki þörf á að meta áhættuna af notkun BPA í kassakvittunum né banna það. Fylgst verður með rannsóknum á þessu sviði og þá sérstaklega í sambandi við þau efni sem komið hafa í staðinn fyrir BPA og ef ástæða þykir til verður búið til fræðsluefni fyrir starfsfólk eða settar sérstakar reglur um notkun efnanna.“

Vinsæll dósamatur inniheldur BPA
Ein helsta uppspretta BPA er í gegnum fæði sem kemst í snertingu við efnið í dósum og öðrum matarílátum. Japanir hafa að mestu hætt notkun epoxýhúðar í niðursuðudósum og skipt yfir í PET-filmur. Um leið var notkun polýkarbónatdiska hætt í skólum. Í framhaldinu er talið að styrkur BPA í blóði Japana hafi lækkað um helming.

Lítið er vitað um BPA í matvælaumbúðum hérlendis svo við snérum okkur til Leifs Þórssonar, framkvæmdastjóra ORA, til að fræðast um niðursuðudósir fyrirtækisins.

Leifur staðfestir að ORA dósir innihaldi BPA í snefilmagni en „reglubundnar mælingar framleiðenda sýna hins vegar að magnið í matvælum ORA er hverfandi og langt innan þeirra marka sem gefin eru í ströngum reglugerðum Evrópusambandsins.“

Leifur segir BPA vera að finna víðar í matarílátum og vísar sömuleiðis í ályktun EFSA. „Ekki hefur verið sýnt fram á áhrif á æxlunarfæri, taugakerfi, ónæmiskerfi, efnaskiptakerfi né hjarta- og æðakerfi. Líkur á áhrifum við þróun krabbameina eru taldar hverfandi. Þetta á við um fullorðna einstaklinga, börn og fóstur. Sömu rannsóknir benda jafnframt til að inntaka fólks á BPA úr fæðu sé mun minni en áður var talið. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að fólki stafi engin hætta af BPA í umbúðum utan um matvæli.“

Neytendavernd eða hagsmunir fyrirtækja í forgang?
Þótt flestir vísindamenn séu vissir um hormónaraskandi áhrif BPA og alvarlegar afleiðingar þess á fóstur og ungbörn, jafnvel í mjög lágum styrk, hefur hagsmunagæsla iðnaðarins ítrekað komið í veg fyrir strangari reglur um notkun þess. Ályktun EFSA var kærkominn sigur fyrir iðnaðinn þar sem hún torveldar takmarkanir á notkun BPA og skyldra efna innan ESB enn fremur.

Evrópsku neytendasamtökin, BEUC, hafa kallað eftir frekari takmörkunum á notkun BPA og öruggari valkostum til að að vernda neytendur. WHO og UNEP hafa lýst því yfir að hormónaraskandi efni séu alþjóðleg ógn við heilsu og umhverfið, en Norræna ráðherranefndin áætlaði í fyrra að árlegur kostnaður Evrópuríkja vegna hormónaraskandi efna nemi að minnsta kosti 90 milljörðum ISK. Í framhaldi hafa umhverfisráðherrar Norðurlanda krafist viðbragða ESB.

Hvaða hagsmunir verða hafðir að leiðarljósi í framtíðinni þegar ákvarðanir um hormónaraskandi efni eru teknar – neytenda eða alþjóðlegra stórfyrirtækja?

Anne Maria Sparf
Neytendablaðið 3. tbl.2015

Bisfenól-A

BPA og önnur skyld efni er að finna meðal annars í kassakvittunum, matvælaumbúðum, niðursuðudósum, geisladiskum, plastflöskum, vatns- og kaffivélum úr plasti, plastáhöldum, raftækjum, örbylgjuofnum, ísskápshillum, lækningatækjum, gsm-símum, bílavarahlutum, byggingarefni, lími, málningu, gólfefni, tannfyllingum úr plasti, gleraugum, naglalakki, bremsuvökva og slökkviefni.