Daglegt líf án eiturefna

Miðvikudagur, 31. desember 2014
Þuríður Hjartardóttir

 

Hér verður stiklað á stóru um það sem fram kom á námsstefnu um daglegt líf án eiturefna sem undirrituð sótti f.h. Neytendasamtakanna sóttu í júní 2014. Mikilvægt áhyggjuefni sem endurspeglaðist í öllum erindum námsstefnunnar er varnarleysi barna gagnvart efnum í neysluvarningi og umhverfinu.

Norðurlandaráð, ásamt dönsku og norsku neytendasamtökunum, stóð fyrir fræðslufundi með yfirskriftinni „Daglegt líf án eiturefna“  í Osló hinn 3. júní sl.. Í tengslum við fundinn voru gerðar rannsóknir sem leiddu í ljós að uggvænlega mikið er af hormónaraskandi og öðrum skaðlegum efnum í vörum sem ætlaðar eru neytendum.

Norðurlandaráð telur nauðsynlegt að endurskoða löggjöf og reglugerðir Evrópusambandsins um efni og efnavörur (REACH - Registration, Evaluation, Authorisation and Restriction of Chemicals). Einstök ríki hafa takmarkað svigrúm til að setja reglur á þessu sviði og Norðurlöndin virðast setja markið hærra en önnur ríki innan ESB og telja m.a. að mikilvægt sé að skilgreina hormónaraskandi efni og innleiða kröfur um aðferðir til að greina þau.

Stjórnvöld dragast aftur úr
Annicka Engblom, formaður borgara- og neytendanefndar Norðurlandaráðs, minnti á að ekki eru nema sex ár síðan 53.000 ungbörn í Kína veiktust alvarlega þegar framleiðendur þar í landi tóku uppá því að drýgja mjólkurduft með efninu melamím. Sagði Engblom að svona tilvik gætu endurtekið sig, líka á Norðurlöndunum. Ýmis efni sem finnast í neysluvarningi geta valdið ófrjósemi, vansköpun, krabbameini og sykursýki og mikilvægt að ríki móti stefnu um þessi mál, eins og þegar hefur verið gert í Svíþjóð og er í bígerð í Noregi og Danmörku. Engblom sagði stjórnvöld ekki halda í við efnavöruiðnaðinn og reglugerðir væru úreltar og næðu ekki yfir allt sem kemur á markað. Krafan er að ný efni fari ekki á markað fyrr en búið er að sannreyna að þau séu hættulaus.

Snillingunum fækkar
Dr. Phillipe Grandjean er höfundur bókarinnar Only One Chance og ritstjóri vefmiðilsins ChemicalBraindrain.info. Dr. Grandjean hefur starfað við rannsóknir á áhrifum kvikasilfurs í áratugi, en eituráhrifin eru vel þekkt og hafa verið mikið rannsökuð. Dr. Grandjean sagðist eiga erfitt með að hætta störfum þó gamall væri því í hvert sinn sem ný rannsókn væri gerð kölluðu hagsmunaaðilar eftir haldbærari gögnum og rannsóknum, enda hefðu þeir sérfræðinga á launum til að teygja lopann og gera rannsóknir tortryggilegar. Hann heldur því einnig fram að þetta muni líka verða raunin varðandi önnur efni en kvikasilfur, t.d. þau sem eru hormónaraskandi.

Maðurinn fær bara eitt tækifæri til að þroska heilann sagði Dr. Grandjean. Þegar gáfnafar mannsins er metið er staðreyndin sú að áður fyrr mátti ganga út frá því að um 2% mannkyns væru seinfær (tregir einstaklingar) á meðan önnur 2% væru snillingar. Nýlegar rannsóknir sýna hins vegar að nú eru um 4% mannkyns seinfær á meðan eingöngu 1% telst til snillinga.

Iðnaðurinn nýtur vafans
Forstjóri Forbrukerrådet í Noregi, Randi Flesland, sagði lista af efnum sem framleiðendur nota lengjast stöðugt, en frá árinu 1930 til ársins 2000 hefur efnum sem framleidd eru í heiminum fjölgað úr einni milljón í 400 milljónir. Hún benti á að börn væru sérstakur áhættuhópur því atferli þeirra og þroski veldur því að þau eru móttækilegri fyrir áhrifum eiturefna en fullorðnir og þau verði að fá að njóta vafans. Regluverkið sé  of veikt og iðnaðurinn megi nota efni sem eru skaðleg heilsu fólks. Þegar krafa kemur upp um að neytendur njóti vafans er alltaf fyrst spurt hvað það muni kosta iðnaðinn áður en ákvarðanir eru teknar um bann á efnum. Meira tillit er því tekið til markaðarins en heilsu fólks, sagði Flesland. Sem dæmi um efni í vörum benti hún á að barnabolur frá Cubus reyndist innihalda efni sem er bannað í leikföngum, en ekki var gert ráð fyrir að slík efni fyndust í fatnaði. Jafnframt hafi eldtefjandi efni fundist í tyggigúmmíi og engar reglur eru til um það.

Varnarleysi barnanna
„Við erum marineruð í hættulegum efnum,“ sagði Ethel Forsberg, fyrrum forstjóri Efnaeftirlitsins í Svíþjóð og höfundur bókarinnar Makt, plast, gift och våra barn. Eins og fram kom hjá flestum fyrirlesaranna sagði Ethel að minnstu börnin væru í mestri hættu, en atferli barnanna veldur því. Þau eru mikið á gólfinu og sjúga og bíta í allt. Þau neyta líka meiri matar í hlutfalli við þyngd. Hormónaraskandi efni eru sérstakt áhyggjuefni  því hormónakerfið þroskast í móðurkviði og næstu 20 árin. Hættulegustu efnin eru fyrst og fremst í plasti og plastið er allstaðar.

Þó neytendur hafi ekki beðið um öll þessi efni er margt sem fólki finnst sniðugt og vill ekki vera án. Efnaiðnaðurinn hefur eflst um allan heim og auðvitað viljum við þróaðan efnaiðnað, sagði Forsberg. Neytendur eru þakklátir fyrir að geta spælt egg án þess að það festist við pönnuna, en þessi öra þróun gerir það að verkum að við vitum mjög lítið um þessi töfraefni sem finnast í daglegu lífi okkar. Það er erfitt að ná til neytenda og upplýsingarnar eru flóknar.

REACH er mjög mikilvæg löggjöf, þó hægt sé að gagnrýna það að nokkuð vantar uppá hana, og er sú strangasta sem finnst á þessu sviði. Iðnaðurinn þarf leyfi til að nota efni en sönnunarbyrði iðnaðarins er slök. Þessi gífurlegi fjöldi efna sem flæðir yfir verður til þess að það þarf að forgangsraða og það er dýrt að sýna fram á skaðleysi efna og því fær iðnaðurinn að njóta vafans. Evrópumarkaðurinn er þó sá strangasti í heiminum og löggjöfin hefur áhrif víðar þar sem þetta er eftirsóknarverður markaður fyrir alla framleiðendur, sagði Forsberg. Hún telur að hormónaraskandi efni, kokteiláhrif, nanóefni og varnarleysi barnanna okkar séu nýjar ógnir á þessu sviði.

Heili barna er viðkvæmur

Nýleg rannsókn sem Dr. Phillipe Grandjean stýrði fyrir Syd-Dansk Universitet (SDU) ásamt fleiri aðilum sýnir að nauðsynlegt er að endurskoða reglur. Útbreiðsla eiturefna er stjórnlaus og mikilvægt að vernda börnin, sérstaklega heilann sem er á þroskastigi þeirra mjög viðkvæmur fyrir eiturefnum. Hljóti börnin ekki þessa vernd verður næsta kynslóð hægari í skilningi og viðbrögðum, mun standa sig verr í skóla og hafa takmarkaðri heilastarfsemi.  Við vitum nú þegar að blý, kvikasilfur og um tíu önnur efni hafa leitt af sér „hljóðlátan“ faraldur taugasjúkdóma hjá börnum. 

Dr. Grandjean segir í frétt á heimasíðu SDU að aðferðir til að prófa skaðleg áhrif á þroska heilans séu þegar þekktar svo ekkert sé því til fyrirstöðu að setja alþjóðlegar viðmiðunarreglur til verndar gáfnafari næstu kynslóðar. Það sé óábyrgt að bíða eftir ítarlegum gögnum um öll eiturefni því hver og einn fái aðeins eitt tækifæri til að þroska heilann, tækifæri sem hefur úrslitaáhrif á lífsgæði okkar og hvernig lífi við munum lifa. Frá árinu 2006 hefur fjöldi eiturefna sem sannarlega hafa áhrif á taugastarfsemi barna tvöfaldast úr sex í tólf. Skaðlegust eru blý og kvikasilfur, en á listanum eru einnig efni sem finnast í fötum, húsgögnum og matvörum. Í skýrslunni er lagt til alþjóðasamfélagið taki sig saman og komi upp kerfi sem tryggi að greind og þroski barna skaðist ekki af efnum sem iðnaðurinn notar.

Það er mikið áhyggjuefni að meirihluti þeirra þúsunda efna sem notuð eru í iðnaði er aldrei  rannsakaður m.t.t. áhrifa á fóstur eða börn. Heili barna verður fyrir meiri áhrifum af minni skömmtum og í meira mæli en heili fullorðinna, og við eigum ekki að sitja hjá þegar það snýst um eins mikilvægt mál og heilastarfsemi næstu kynslóðar, segir Dr. Phillipe Grandjean.

Þuríður Hjartardóttir
Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 3.tbl.2014

Daglegt líf án eiturefna

Meirihluti þeirra þúsunda efna sem notuð eru í iðnaði er aldrei rannsakaður m.t.t. áhrifa á fóstur eða börn