Eftirlit á röngum stöðum

Fimmtudagur, 18. desember 2008
Brynhildur Pétursdóttir

 

Um daginn átti ég þess kost að ferðast út fyrir Evrópu í fyrsta skipti á ævinni. Á heimleiðinni, nánar tiltekið á  Narita flugvellinum í Tókýó, keypti ég m.a. sítrónulíkjör. Þegar við hjónin komum á Kastrup flugvöll eftir 10 tíma flug fórum við beint úr vélinni í gegnum hefðbundið eftirlitshlið. Þar var handfarangur gegnumlýstur, belti, skór, úr, skartgripir og klink vandlega skoðað og í sumum tilfellum var leitað á fólki. Flaskan sem við höfðum druslast með í handfarangri yfir hálfan hnöttinn vakti athygli eftirlitsmannanna sem létu ekkert fram hjá sér fara.

Okkur var tilkynnt að því miður mættum við ekki taka flöskuna með okkur inn á flugvöllinn, ég gæti jú verið með sprengjuvökva. Ég spurði öryggisvörðinn hvað hefði breyst síðan á flugvellinum í Tókýó. Ég keypti flöskuna þar, fór beint upp í flugvél og kom beint að öryggishliðinu þegar ég steig út úr vélinni. Af hverju var flaskan allt í einu orðin svo stórhættuleg að það varð að taka hana eignarnámi? Vörðurinn sagðist ekki vita hvort ég hefði keypt flöskuna á flugvellinum eða komið með hana með mér að utan. Ég benti honum á að ég hefði aldrei komist með flöskuna inn á flugvöllinn í Japan þar sem ég fór í gegnum sama eftirlit þar. Þar lenti ég reyndar í vandræðum vegna maskara og varalits en það er önnur saga.

Danski öryggisvörðurinn viðurkenndi að þetta væru „stupid rules“ en svona væri þetta nú bara. Þar sem ég stóð þarna gröm og pirruð yfir þessum ýktu öryggisráðstöfunum (tek fram að ég var allan tíman mjög kurteis við eftirlitsmennina enda ekki á slæma ímynd okkar erlendis bætandi) gat ég ekki annað en velt fyrir mér hvort það hefði ekki verið ráðlegra ef þjóðir heims hefðu lagt sama metnað í annars konar eftirlit, nefnilega eftirlit með fjármálamarkaðinum.

Frá því að árásin var gerð á tvíburaturnana 2001 hafa allar öryggisreglur á flugvöllum verið hertar til mikilla muna. Nú er ég ekki að gera lítið úr þeirri hættu að einhverjir brjálæðingar ræni flugvél en að mínu mati hefur eftirlitið farið algerlega út í öfgar. Kannski er það vegna þess að hættan er að einhverju leyti áþreifanleg. Menn vita nákvæmlega að hverju þeir eru að leita; oddhvössum hlutum, vopnum og vökva. Á sama tíma og eftirlitsmenn á flugvöllum gegnumlýstu handfarangur og háttuðu ferðalanga var eftirlit með fjármálamörkuðum í skötulíki. Fjárglæframenn spígsporuðu út í sínar einkaþotur með afleiðusamninga og húsnæðisvöndla í skjalatöskunni en enginn hafi áhyggjur af því. En guð forði okkur frá því að einhver sleppi inn í flugvél með flísatöng!

Á meðan öllu púðrinu hefur verið eytt í eftirlit með ferðalöngum er ekki nema von að fjármálakerfi heimsins sé rústir einar. Menn voru einfaldlega að leita að sökudólgum á röngum stöðum.

Brynhildur Pétursdóttir
Grein þessi birtist í Vikudegi 18. des. 2008