Einkalíf undir vökulum augum

Föstudagur, 13. maí 2016
Þuríður Hjartardóttir

Neytendablaðið sótti fyrr á þessu ári áhugavert málþing undir yfirskriftinni Rafrænt eftirlit – hvað má og hvað má ekki? Persónuvernd, í samstarfi við Mannréttindastofnun H.Í., stóð fyrir málþinginu í tilefni evrópska persónuverndardagsins 28. janúar. Margt áhugavert kom þar fram og verður hér stiklað á stóru, neytendum til fróðleiks.

 

Ertu í mynd?

Viðvarandi rafræn vöktun fer fram víða í samfélaginu og verður stöðugt útbreiddari. Rafræn vöktun snýst um söfnun persónuupplýsinga. Oftast er tilgangur vöktunar að koma í veg fyrir eignatjón eða afbrot. Notendur eftirlitsmyndavéla geta verið opinberir aðilar, fyrirtæki eða einstaklingar. Einstaklingar og fyrirtæki sem hafa undir höndum myndir af afbrotum eða atvikum mega ekki sjálfir dreifa persónumyndum úr slíku kerfi. Ákvörðun um birtingu slíks myndefnis er eingöngu á hendi lögreglu. Varðveislutími gagna er almennt 90 dagar og ber að eyða þeim eftir þann tíma.

 

Einstaklingshagsmunir
Persónuvernd hefur eftirlit með söfnun og meðferð upplýsinga um einstaklinga og eru einstaklingshagsmunir þar hafðir í fyrirrúmi, þ.e. friðhelgi einkalífsins. Vöktun á almannafæri er á ábyrgð lögreglu.

 

Eftirlitsmyndavélar
Fjöldi eftirlitsmyndavéla í Bretlandi hefur lengi verið talinn sá mesti pr.íbúa og almenningur vísar þá oft til „big brother“ í því samhengi. Samtök öryggisfyrirtækja í Bretlandi (BSIA) birtu í júlí 2013 rannsókn á útbreiðslu eftirlitsmyndavéla þar í landi. Áætlað er að um 4,1–5,9 milljónir myndavéla séu um allt land og rannsóknin leiddi í ljós að myndarvélar í einkaeigu, þ.e. eigu einstaklinga og fyrirtækja, eru um 2,7 milljónir. Fram kom að um 70.000 myndavélar eru notaðar við almenningseftirlit, hjá lögregluyfirvöldum o.s.frv., sem er um 1,2-1,7% af öllum uppsettum myndavélum í notkun. Í lestarkerfi Lundúna finnast um 13.000 myndavélar eða að meðaltali 52 vélar á hverja lestarstöð og í ríkisskólum eru um 290.000–379.000 myndavélar. 

 

Vöktun í verslunum

Rýrnun er ein af ástæðum þess að eftirlitsmyndavélar eru í verslunum. Orsakir rýrnunar eru ekki bara búðarhnupl heldur má að stærstum hluta rekja hana til ósamræmis í vörumerkingum og mistaka eða misferlis starfsfólks. Í evrópskri rannsókn um rýrnun í verslunum kom fram að hlutfall þjófnaðar starfsfólks sem ástæða fyrir rýrnun var langhæst hér á landi meðal Evrópuþjóða. Algengt vandamál er þegar kassastarfsfólk stundar svokallað “sweethearting”, þ.e. sleppir að skanna hluta af vörum, notar röng vörunúmer eða gefur vitlaust til baka. Eftirlitskerfi verslana beinast því ekki eingöngu að viðskiptavinunum heldur einnig að starfsfólki, en á endanum greiða neytendur brúsann með hærra vöruverði.

 

Sweethearting
Upp komst um atvik í verslun hér á landi þar sem sala á lauk hafði aukist gífurlega en laukurinn hafði samt lítið hreyfst í grænmetiskælinum. Með því að skoða eftirlitsmyndavélar kom í ljós að skýringin var sú að kassastarfsfólk afgreiddi kaup af nammibarnum til vina og starfsfélaga með því að vigta nammið sem lauk við kassann en mikill munur er á kílóverði þessara tveggja vörutegunda.

 

Rýrnun í verslunum
Á mbl.is er haft eftir lögmanni SVÞ að „rannsóknir hefðu sýnt að rýrnun í verslunum á árunum 2013–2014 hafi verið 1,29%. Samtals þýddi þetta 129 milljarða doll­ara tap fyrir verslun á heimsvísu. Á Íslandi hafi verið áætlað að um fimm milljarðar króna tapist á hverju ári vegna rýrnunar. Við þá upphæð bætist sá kostnaður sem verslanir hafa af því að setja upp eftirlitsbúnað, öryggiskerfi og rekstur þeirra. Áætlað sé að 1,5 milljarð króna kosti á ári að reka þau kerfi á Íslandi.” Mbl.is, 28. jan. 2015

 

Afarkostir facebook

„Þú ræður ferðinni “ (You’re in charge) er yfirskrift nýrra skilmála facebook sem tóku gildi 1. janúar sl. Þeir sem hafa notað facebook eftir að nýju skilmálarnir tóku gildi hafa með notkuninni einni saman samþykkt þá og með því veitt facebook heimild til að safna og nota allt innlegg þeirra á miðilinn og upplýsingar sem skapast við notkun, eins og um IP-númer, staðsetningu notanda og vefsíður sem skoðaðar eru. Facebook má safna öllum þeim upplýsingum sem eru á tækinu sem notað er. Tilgangurinn er að gera þversnið af notandanum til að miðla til hans „réttum” auglýsingum. Þannig eru neysluvenjur hvers og eins skoðaðar og sé notandinn t.d. að skoða upplýsingar um bíla birtast hjá honum auglýsingar um bíla. Allar myndir sem viðkomandi deilir verða „royalty free“ og hefur facebook þannig rétt til að nota myndirnar í hvaða tilgangi sem er, þar til þeim er eytt af notanda. Sé notandinn ósáttur við skilmálana er eina leiðin að hætta að nota facebook og eyða notandaaðganginum.

 

Breytingar á skilmálum facebook
Jákvætt: Notendur hafa fengið möguleika á að stjórna betur hverjir fá að sjá gögn sem þeir setja inn á facebook og hvað þeir sjá sjálfir. Þá geta notendur stjórnað því betur hvað aðrir sjá um þá (about) og hvernig aðrir hafa samband.
Neikvætt: Facebook hefur stóraukið eftirlit með notendum og safnar enn mjög miklum upplýsingum um þá.

 

Gögn sem Facebook safnar
·         GPS gögn (hvar þú hefur verið)
·         Vinir á facebook og samskipti notandans við þá
·         Upplýsingar um hvar vinir eru í nágrenninu
·         Hvaða aðrar vefsíður notandinn hefur heimsótt
·         Hvað er skoðað og hverju er leitað að – það á ekki bara við um efni sem er á facebook.

 

Nýjasta dót neytenda

Drónar eða svokölluð mannlaus flygildi eru ekki lengur bara hernaðartól heldur einnig notaðir til margvíslegra rannsókna og öflunar upplýsinga. Þannig eru settar myndavélar eða mælitæki í drónana og þeim flogið yfir svæði sem annars eru torfær. Þannig notar t.a.m. Veðurstofan dróna til að mæla gasmengun við eldgosið í Holuhrauni. Drónar lækka stöðugt í verði þar sem einfaldari og smærri tegundir eru komnar í almenna notkun og m.a. er þekkt að ferðamenn noti dróna til myndatöku frá óvenjulegum sjónarhornum á ferðum sínum um landið.  Drónar geta þó ógnað friðhelgi einkalífs. Möguleikinn á að mannlaus loftför myndi í einkagörðum og jafnvel inn um glugga hjá fólki kallar á reglugerð um notkun dróna. Auk þess geta drónar skapað hættu og ógnað öryggi og hafa þeir t.d. þvælst fyrir farþegaflugvélum í lendingu. Eins og svo oft vakna spurningar um notkun og lögmæti nýrrar tækni ekki fyrr en eftir að dótið kemur á neytendamarkað. Engar reglur eru til hér á landi um notkun dróna en innan ESB er reglugerð í umsagnarferli um þessar mundir.

Flygildi stöðvar slökkvistarf
„Þyrla sem nota átti til að slökkva elda í bænum Lærdal í Noregi hefur neyðst til að halda sig frá eldinum vegna þess að flygildi hafa flogið yfir bænum til að taka myndir. Talið er að flygildin séu að taka myndir fyrir fjölmiðla. Lögregla segir að hættulegt sé fyrir þyrluna að fljúga þegar þessi tæki eru nálæg.“ Mbl.is 19. jan. 2014

 

Höfundur: Þuríður Hjartardóttir
Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 1.tbl.2015