Ekki á innihaldslýsingunni

Miðvikudagur, 6. október 2004
Brynhildur Pétursdóttir

 

Í nýjasta hefti Neytendablaðsins er fjallað um bók sem ber nafnið “Not on the label” eða “ekki á innihaldslýsingunni”.  Höfundurinn er bresk blaðakona, Felicity Lawrence, en hún hefur í mörg ár skrifað um neytendamál og þá sérstaklega málefni tengd matvælum. Í bókinni eru hinum ýmsu þáttum matvælaframleiðslu nútímans gerð góð skil.

Nútímabrauðgerð

Í kaflanum um brauðgerð er farið ofan í saumana á nútímabrauðbakstri. Bretar virðast ekki mikið fyrir almennilegt bakaríisbrauð en einungis 3.500 sjálfstæðir bakarar eru starfandi í Bretlandi en í Frakklandi eru þeir 35.000. Mest af því brauði sem Bretar borða í dag er fjöldaframleitt samlokubrauð sem er framleitt á mettíma og ekki ýkja hollt ef marka má lýsingar á framleiðsluháttum. Vatn, hörð fita og allskyns aukaefni eru notuð til að fá loftkennd og falleg brauð sem endast lengi og kosta lítið. Þrátt fyrir fjölmargar brauðtegundir í hillum stórmarkaða eru nær öll brauðin framleidd á sama hátt og flest koma þau frá sama framleiðanda. Breskir neytendur virðast gera sér grein fyrir þessari staðreynd því að meðaltali verja þeir minna en einni mínútu fyrri framan brauðrekkann þegar þeir velja brauð.

Kaffibændur í kreppu

Annar kafli fjallar um kaffi en nokkrir voldugir kaffiframleiðendur ráða lögum og lofum á kaffimarkaðnum. T.d. kaupa fimm stærstu framleiðendurnir nærri helminginn af öllum grænu kaffibaununum sem ræktaðar eru í heiminum. Árið 2002 féll heimsmarkaðsverð á kaffi verulega og hafði ekki verið jafn lágt í 30 ár. Þetta gerðist vegna offramleiðslu og varð til þess að margir af þeim 25 milljónum kaffibænda í heiminum enduðu með að selja uppskeru sína með tapi. Þrátt fyrir þetta lækkaði verð til neytenda ekkert að ráði eins og ætla mætti. Allt til ársins 1989 hafði kaffimarkaðurinn verið nokkuð stöðugur og verð á kaffi var tiltölulega hátt. En í kjölfar aukinnar kaffiframleiðslu lækkaði heimsmarkaðsverðið og skipti innkoma Víetnam sem kaffiútflytjanda þar miklu máli.

Fyrir tíu árum var lítil sem engin kaffiræktun í Víetnam. Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hvöttu Vietnam til að snúa sér að kaffiræktun í stað þess að leggja of mikla áherslu á hrísgrjónarækt sem var áhættusöm grein. Víetnam er ekki tilvalið til kaffiræktunar frá nátturunnar hendi en með ýmsum nútíma ráðum í landbúnaði óx framleiðslan frá því að vera ein milljón sekkja í 14 milljónir. Á áratug var Víetnam orðin annar stærsti kaffiframleiðandi í heimi næst á eftir Brasilíu. Þessi viðbót á kaffi á heimsmarkað hafði skelfileg áhrif á þau lönd sem áttu mikið undir kaffiútflutningi. T.d. seldi Úganda kaffi fyrir 433 miljónir dollara árið 1995 en einungis fyrir 110 miljónir dollara, 2001 þrátt fyrir að selja fleiri baunir það árið.

Skýrsla frá Oxfam

Góðgerðarsamtökin Oxfam gáfu út skýrslu um kaffimarkaðinn 2002. Í skýrslunni er m.a. reiknað út hvað milliliðirnir eru að taka í sinn hlut. Kaffibóndi í Úganda fékk árið 2002 14 cent fyrir kílóið af baunum. Þegar kaffið var komið í vöruhús útflytjanda kostaði kílóið 26 cent. Útflytjandinn sem þurrkaði og pakkaði baununum bætti við 19 centum. Flutningskostnaður og kostnaður innflytjandans kom kílóinu upp í 1.64 cent Næsta viðkomustaður var hjá einhverjum hinna stóru kaffiseljenda og þegar kaffið var komið í hillur verslana tilbúið fyrir neytendur var kílóverðið komið upp í 26.40 dollara eða 7000 sinnum hærra verð en kaffibóndinn fékk fyrir uppskeruna. Það er ekki að ástæðulausu að fólk er farið að drekka svokallað sanngirniskaffi eins og nú er m.a. gert í Neskirkju.

Kjötþvætti

Kaflinn um kjúklingaframleiðslu er ansi hreint krassandi. Árið 2000 var kjúklingakjöt til sölu í verslunum í Bretlandi sem í sjálfu sér er ekki í frásögur færandi. Nema hvað, kjötið hafði verið selt til framleiðanda gæludýramats vegna þess að það var sýkt og ekki hæft til manneldis. Það var þó talið nógu gott í dýramat. En í staðinn fyrir að nota kjötið í gæludýramat eins og til var ætlast datt framleiðandanum það snilldarráð í hug að þvo kjötið upp úr klór og selja áfram til manneldis. Málið vakti eðlilega mikla athygli og óhug en talið er að kjötþvætti af þessu tagi sé algengara en margan grunar.

Ítarlegri umfjöllun um bókina er að finna í nýjasta tölublaði Neytendablaðsins en óhætt er að mæla með þessari áhugaverðu bók.

-BP-

Spegillinn