Endurskoðun á bankastarfseminni

Þriðjudagur, 1. október 2013
Jónas Guðmundsson

Vestræn bankastarfsemi hefur á undanförnum árum bæði orðið uppvís að lagabrotum (nægir að nefna Líbor- og Euribor-hneykslin í Evrópu og Bandaríkjunum og gengislánin á Íslandi) og ósanngjörnum starfs-aðferðum, sem bitnað hafa harkalega á neytendum. Ný skýrsla nefndar, sem stofnað var til með ályktun Alþingis um aukna neytendavernd á íslenskum fjármálamarkaði, er hluti af alþjóðlegu átaki til að endurskoða starfsemi banka- og fjármálastofnana, innviði þeirra, starfshætti og opinbert eftirlit. Skýrslan nefnir ýmis atriði sem nauðsynlegt er að endurskoða í íslenskri fjármálastarfsemi til þess að hún megi á ný gegna því jákvæða, samfélagslega hlutverki sem henni var ætlað. 

Krafan um ábyrgð lánveitanda
Auka þarf enn frekar ábyrgð banka og fjármálastofnana á þeirri lánastarfsemi sem þeir stunda. Nýleg lög um neytendalán færa ýmislegt til betri vegar, setja t.d. hömlur á okurlánastarfsemi, en þau gera hins vegar ekki fjármálastofnunum skylt að bera ábyrgð á óábyrgum lánveitingum. Standi fjármálastofnunin ófaglega að lánveitingu, nýti sér t.a.m. undanþágu frá greiðslu- og lánshæfismati og skuldabyrðin reynist lántakandanum um megn, þá ber stofnunin eftir sem áður engan skaða af. Lántakandinn ber ábyrgðina einn, þegar banki ætti oft með réttu að færa niður eða afskrifa lánið. Óraunhæf lánaviðskipti, sem engar forsendur eru fyrir, eru ekki ásættanleg í nútíma bankaviðskiptum.

Jafnvægi lántakanda og lánveitanda
Fjármálavörur hafa orðið sífellt flóknari á síðustu tímum. Erfiðara reynist að meta skilmála lána, greiðslubyrði og vaxtakjör. Upplýsingar um og þekking á lánaformum og stöðu fjármálastofnana skiptir miklu máli en vefst oft fyrir lántakendum. Þeir vanmeta oft á tíðum afleiðingar vanskila eða brota á skilmálum. Lánveitandi býr jafnan yfir mun meiri þekkingu, sem hann er oft tregur til að deila. Lánveitingar mega ekki verða eins og hver önnur sölumennska sem stjórnast af því hvað veitir fjármálastofnun og stjórnendum hennar hámarkshagnað. Lántakandinn þarf að vera vel upplýstur og hafa fullnægjandi greiðslugetu — bankinn á ekki að hafa leyfi til að ýta honum með bundið fyrir augun út í skuldafen. Jafna þarf samningsstöðu og áhættu lánveitanda og lántakanda.

Áhættan takmörkuð og borin af réttum aðilum
Viðurkennt er að bankar og fjármálastofnanir á Vesturlöndum tóku ótæpilega áhættu í viðskiptum sínum á síðustu áratugum. Þegar illa fór lenti áhættan að stærstum hluta, með einum eða öðrum hætti, á viðskiptamönnum þeirra. Yfirleitt deila skattgreiðendur hluta áhættu bankastarfseminnar, þar sem bankar spila með innlán í áhættusömum fjárfestingum í skjóli innlánsbaktrygginga ríkisins. Einn af Seðlabanka-stjórum Bandaríkjanna nefndi þetta bankaviðskipti á kostnað ríkisins: „Banking on the State“. Nauðsynlegt er að draga úr áhættu í bankakerfinu og láta eigendur fjármagnsins að baki viðkomandi stofnun bera stærsta hluta hennar. Rök hafa verið færð fyrir því að draga megi úr áhættu samfélagsins ef starfsemin er í minni og aðskildum einingum.

Liðkað fyrir samkeppnisaðhaldi
Samkeppniseftirlitið hefur vakið athygli á því að samþjöppun í íslenskri fjármálastarfsemi hefur aukist á undanförnum árum. Um leið hefur samkeppni bankanna minnkað, sem endurspeglast líklega í 200 milljarða hagnaði þeirra frá bankahruninu 2008.

Samkeppninni er einnig haldið niðri með ýmsum gjöldum sem festa neytendur við eina bankastofnun og draga úr möguleikum þeirra til að bera saman kjör og færa sig á milli banka. Lántökugjöld, uppgreiðslugjöld og stimpilgjöld hafa þannig hamlandi áhrif á aðhald neytenda á fjármálamarkaðnum.

„Ranglátir starfshættir“  aflagðir
Víða um lönd er verið að endurskoða starfsemi banka. Sett hafa verið ný lög og nýjum eftirlitsstofnunum komið á legg. Almennt er viðurkennt að hömluleysi fjármálakerfisins olli miklum skaða á efnahagskerfum heimsins.  Bankar hafa  brotið á rétti neytenda með margvíslegum hætti; talað er um að þeir hafi hagað sér að hætti rándýra gagnvart viðskiptavinum sínum („predatory lending“). Þeir búa til flóknar fjármálavörur sem viðskiptavinir hafa takmarkaðan skilning á og ófullnægjandi upplýsingar um. Þeir hafa notfært sér vanþekkingu hópa sem standa veikast að vígi. Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir slíkar starfsaðferðir.

Nýja eftirlitið snýst um „ranglátar starfsaðferðir“ — „abusive practices“ á ensku — og nýjum eftirlitsstofnunum hefur verið falið að vinna gegn þeim. Í neytendaverndarskýrslunni er kallað eftir að komið verði á fót embætti umboðsmanns neytenda.

Endurskoðun reglna og starfshátta
Óumdeilt er að neytendur hafa borið þyngstar byrðar af brestum í starfsemi banka- og fjármálastofnana á nýliðnum áratugum. Áhættan í starfsemi þeirra er enn að stærstum hluta borin af viðskiptavinum og skattborgurum. Nauðsynlegt er að endur¬skoða rammann um þessa starfsemi, setja henni stífar reglur og halda uppi öflugu og samhæfðu neytendaeftirliti með starfsháttum. Rannsóknanefnd Alþingis kallaði eftir eftirlitsaðilum sem væru „grimmir varðhundar almanna¬hagsmuna andspænis sérhagsmunum fjármagnsaflanna“. Íslensk stjórnvöld þurfa að svara því kalli.

Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 2.tbl. 2013
Höf.:Jónas Guðmundsson