Er samkeppnin af hinu illa?

Föstudagur, 25. september 2009
Jóhannes Gunnarsson

 

Sá sem þetta ritar var hvumsa við þegar hann horfði á viðtal við Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra í Kastljósi í fyrrakvöld. Ekki nóg með það að ráðherra virtist helst vilja víkja samkeppnislögum til hliðar og varði það með því alvarlega efnhagsástandi sem nú ríkir, heldur gat ég ekki betur heyrt en að hann teldi eðlilegt að lög væru brotin, þ.e. samkeppnislög.

Rök ráðherra voru m.a. þau að nú væru aðrir tímar en á árunum 2005-2007 og því bæri að breyta samkeppnislögum, m.a. til að tryggja að bændur og afurðarstöðvar gætu rætt saman í ró og næði um sameiginleg mál sín, m.a. um verð á vörunum. Ráðherrann gleymdi því hins vegar að samkeppnislögin eru að stofni til frá árinu 1993, m.a. öll helstu ákvæði þeirra eins og bann við verðsamráði og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Jafnframt að samkeppnislög eru að stofni til þau sömu og gilda í öðrum löndum á EES-svæðinu og væntanlega yrði því ekki tekið þegjandi ef við tækjum uppá því að vængstífa þessi lög og heimila framleiðendum og þá væntanlega líka seljendum verðsamráð.

Það var líka afar undarlegur málflutningur hjá ráðherranum þegar hann varði verðsamráð í landbúnaði með því að vísa til þess að verið væri að reyna að hafa samræmdar reglur hjá bönkunum varðandi greiðsluvanda. Það hlýtur að skipta miklu máli núna að allir þeir sem eiga í greiðsluvanda sitji við sama borð og fái svipaða málsmeðferð í stað þess að bankarnir séu með sérreglur fyrir suma. Enda hafa samkeppnisyfirvöld veitt undanþágur í því sambandi. En að heimila forráðamönnun bankana að semja sín á milli um gjaldskrár væri fráleitt að flestra mati og vonandi er landbúnaðarráðherra í þeim hópi.

Loks minni ég á að í nýrri skýrslu norrænna samkeppnisyfirvalda um samkeppnismál og fjármálakreppur kemur skýrt fram að aðgerðir sem miða að því að draga úr samkeppni eru góð leið að lengja slíkar kreppur. Það hefur því aldrei verið mikilvægara en nú að reyna með öllum ráðum að ýta undir virka samkeppni og að sjálfsögðu á það að ná einnig til íslensks landbúnaðar.

Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna