Er varan íslensk?

sunnudagur, 24. nóvember 2013
Jóhannes Gunnarsson

 

Öðru hvoru kemur upp umræða í fjölmiðlum um það hvenær vara er íslensk og hvenær ekki. Þess vegna er mikilvægt að framleiðsluland komi alltaf fram á vörum og að reglur um hvenær má merkja vöru sem íslenska séu skýrar og skiljanlegar.

Hér í blaðinu er sagt frá því að árið 1959 var skyrtupeysa nokkur mikið auglýst. Sagt var að allir karlmenn ættu að klæðast þessari skyrtupeysu, enda var hún frá hátískulandinu Ítalíu eins og merkingar vörunnar gáfu til kynna. Raunar var fullyrt í auglýsingunni að þarna væri einmitt komin peysan sem alla karlmenn dreymdi um, hvorki meira né minna. Síðan reyndist þetta vera svindl; skyrtupeysan var saumuð hér á landi og í ofanálag úr íslensku ullargarni. Allur ljómi fór af skyrtupeysunum og Neytendasamtökin kærðu viðkomandi framleiðanda sem var dæmdur til að greiða sekt.

Nú er tíðarandinn allur annar. Það sem við framleiðum sjálf gerum við í langflestum tilvikum vel. Íslenskir neytendur vilja því oftar en ekki velja vörur sem framleiddar eru hér á landi og kannanir hafa sýnt að þeir eru í mörgum tilvikum tilbúnir að greiða meira fyrir innlendar vörur heldur en sambærilegar vörur sem eru innfluttar. Á þetta meðal annars við um landbúnaðarvörur. Eftir hrun bankanna hefur vilji neytenda til að kaupa innlendar vörur fremur en innfluttar verið enn meiri.

Ef tryggja á valfrelsi neytenda hvað þetta varðar þurfa allar vörur að vera merktar með framleiðslulandi og neytendur verða að geta treyst því að þær upplýsingar séu réttar. Ef þetta er tryggt má fullyrða að innlendir framleiðendur hagnist á slíkri upplýsingagjöf. Það ætti að vera nægjanlegur hvati til að tryggja að þessar upplýsingar séu alltaf fyrir hendi og að þær séu réttar þegar fullyrt er að um innlendar vörur sé að ræða.

Hér í blaðinu er sagt frá umsögn sem Samtök iðnaðarins sendu um breytingar á fánalögum og heimild til að nota íslenska fánann við markaðssetningu á innlendum vörum. Þar er lögð áhersla á að komið sé í veg fyrir ágreining um hvenær vara teljist íslensk og að nauðsynlegt sé að leitast við að eyða óvissu um hvenær vara telst vera íslensk. Því verði að skilgreina hvað felst í hugtakinu að vera „íslensk að uppruna“. Neytendasamtökin taka undir þetta og kalla eftir því að slíkar reglur verði settar. Að mati Neytendasamtakanna er eðlilegt, sé vara t.d. að stórum hluta úr erlendum hráefnum, að gera kröfu um að ákveðinn virðisauki verði við fullvinnslu vörunnar hér. Til að ekkert fari á milli mála þurfa slík ákvæði að vera í reglugerð þannig að framleiðendum, seljendum og neytendum sé öllum ljóst hvaða leikreglur gilda. Forsendurnar þurfa þannig að vera skýrar til að tryggja að neytendur geti valið á upplýstan hátt.

En það eru ekki bara innlendar vörur sem á að merkja með framleiðslulandi. Neytendur vilja einnig upplýsingar um hvar innflutt vara er framleidd. Margar ástæður geta legið til grundvallar því að einstakir neytendur vilja forðast vörur frá ákveðnum löndum. Því miður er það svo að aðeins eru í gildi reglur um framleiðsluland þegar kemur að matvörum, en í gildandi reglum í þeim efnum er ákvæði um að uppruni eða framleiðsluland skuli koma fram ef skortur á slíkum upplýsingum villir um fyrir neytendum. Því miður eru engin lög eða reglur þegar kemur að öðrum vöruflokkum. Úr þessu þarf tafarlaust að bæta. Jafnframt þarf að tryggja að framleiðendur og seljendur fari að settum reglum.

Jóhannes Gunnarsson
leiðari í Neytendablaðinu 3.tbl.2013