Eru bankarnir að rukka þig án þess að þú vitir af því?

Föstudagur, 14. ágúst 2009
Hildur Sif Thorarensen

 

Flestir hafa eflaust tekið eftir því að nú eru viðskiptavinir bankanna hættir að fá reikningsyfirlitin sín borin inn um lúguna, en eiga í stað þess að nálgast þau rafrænt í heimabankanum. Þetta kann að hljóma hentugt, en böggull fylgir þó þessu skammrifi því hver einasti rafseðill kostar viðskiptavini bankanna, Kaupþing er t.d. að rukka 45 krónur. Hvort sem þú vilt hafa aðgang að yfirlitinu eða ekki er þér gert að borga þessar 45 krónur fyrir hvert einasta yfirlit sem birtist sem rafrænt skjal. Ef þú kærir þig ekki um þessi reikningsyfirlit er eins gott að þú hafir samband við bankann og látir þá vita því annars máttu eiga von á rukkun fyrir yfirlit sem þú vildir ekki fá. Safnast þegar saman kemur og þá ekki síst á samdráttartímum.

Þótt þeir sem eiga tölvu og nota heimabanka séu sumir rukkaðir án vitundar sinnar er enn verr komið fyrir þeim sem ekki hafa aðgang að tækni. Eldra fólk, sem dæmi, fær nú ekki yfirlitin sín send heim ef þau eru í viðskiptum við Byr og getur því ekki lengur fylgst með hreyfingu á reikningnum sínum. Ef óprúttinn aðili kæmist yfir debetkort þeirra eða reikningsupplýsingar yrðu þau einskis vör fyrr en þau færu næst í bankann og óskuðu eftir stöðunni á reikningnum. Margir þessara einstaklinga eiga hins vegar erfitt með að fara ferða sinna og því getur liðið langur tími uns þetta er uppgötvað. Svo ekki sé talað um öll þau óþægindi sem fylgir því að geta ekki fylgst með stöðunni á reikningnum sínum. Það er því mikilvægt fyrir þá sem vilja enn halda í gamla mátann og fá yfirlitin inn um lúguna að hafa samband við bankann og óska sérstaklega eftir því. Geri þeir það ekki verða viðskiptin frá og með 1. ágúst síðastliðnum pappírslaus.

Lengi vel var boðið upp á bankabækur í bönkunum, en með þeim gátu viðskiptavinirnir látið stimpla úttektir, innlagnir og stöðu inn í bókina og því haft enn meiri gætur á allri hreyfingu á reikningnum. Nú eru þær hættar að vera í tísku og því geta þeir viðskiptavinir sem vilja nýta sér þessa annars einföldu þjónustu ekki látið stimpla í bækurnar sínar. Álitið er að það sé svo til eingöngu eldra fólkið sem hafi áhuga á þessari þjónustu og ekki sé ástæða til að koma til móts við þarfir þess því þau eru sein til að kvarta eða mótmæla, annað en við hin. Þetta er hið mesta misrétti og ég skora á bankana að taka upp þessa þjónustu aftur. Sá banki sem dustar rykið af bókastimpilvélinni sinni og byrjar að senda reikninga heim fyrir þá sem það vilja endurgjaldslaust verður sá banki sem eldra fólkið færir sig til. Bankastjórar, takið þetta til ykkar. Þið hafið völdin til að auka viðskipti við ykkar banka án þess að þurfa að kosta miklu til. Það þarf ekki nema eitt útibú sem býður upp á þessa þjónustu og þið mynduð með því gleðja mörg hjörtu og gera bankaviðskipti eldri viðskiptavina ykkar betri og auðveldari.

Ég hvet alla til að vera meðvitaðir um gjaldtöku bankanna því oft plokka þeir af viðskiptavinum sínum án þess að hafa mjög hátt um það. Að lokum vil ég lýsa yfir vonbrigðum mínum yfir því að starfsmaður Kaupþings hafði samband við höfund og gaf honum m.a. þær upplýsingar að bankinn hefði ekki í hyggju að taka bankabækurnar í notkun aftur fyrir þá sem það vilja. Þeir báru fyrir sig of mikinn kostnað og ekki nægilega stóran viðskiptahóp sem hefði áhuga á þessu. Enn og aftur er það eldra fólkið sem hefur verið í viðskiptum við bankana í tugi ára sem fær að sitja á hakanum. Börnum og ungu fólki eru hinsvegar boðin hin ýmsu tilboð og bankinn leggur sig í líma við að uppfylla þarfir þeirra. Þau eru jú viðskiptavinir næstu áratuga og munu ekki mæta samskonar mótlæti og þeir sem eldri eru fyrr en þau eru komin á efri ár og hafa staðið sína plikt sem viðskiptavinir.

Höfundur er Hildur Sif Thorarensen og situr hún í stjórn Neytendasamtakanna.

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 9. ágúst sl. en er birt hér með nokkrum breytingum.