Eru heimilistæki hönnuð til þess að bila?

mánudagur, 18. júlí 2016
Þuríður Hjartardóttir

Eru heimilistæki hönnuð til þess að bila?
Hvít heimilistæki endast æ skemur

Nokkrar tegundir hvítra heimilistækja eru svokallaður „staðalbúnaður“ á íslenskum heimilum. Óhætt er að segja að fæstir geta án ísskáps, eldavélar eða þvottavélar verið. Þá telja margir einnig nauðsynlegt að eiga uppþvottavél og þurrkara. Það er ekki lítil fjárfesting að kaupa þessi höfuðtæki heimilishaldsins. Má áætla að það kosti heimili sem fjárfestir í þeim öllum á aðra milljón króna. Hér áður fyrr var algengt að dýrustu og fínustu merkin entust í tugi ára, en það hefur sennilega eitthvað breyst og framleiðendur sitja oft undir ámæli um að láta endinguna sleppa rétt fram yfir framleiðslu-ábyrgðartíma tækjanna. Það þætti alla vega ekki mikið viðskiptavit að framleiða heimilistæki sem entist í margar kynslóðir.

Að gera við eða henda?

Þegar tæki sem hafa þjónað okkur í mörg ár bila skyndilega verður uppi fótur og fit. Hvað er til ráða þegar þvotturinn stöðvast óskolaður í 9 ára gamalli þvottavél eða 7 ára gamall ísskápur hættir að kæla eða eldavélin sem var keypt fyrir 6 árum slær ítrekað út rafmagninu? Heimilisbókhaldið gerði kannski ekki ráð fyrir 150.000 króna fjárfestingu í þessum mánuði en þvotturinn þvær sig ekki sjálfur.  Fyrir meðvitaða neytendur er samt mikilvægt að nýta hluti sem allra best áður en þeir enda í Sorpu, þannig að fyrsta skrefið er að láta viðgerðarmann kíkja á vélina. Bilanagreining kostar þó líka peninga jafnvel þó útkoman sé bara sú að viðgerð borgi sig ekki. Kostnaðurinn við slíka greiningu gæti farið í 10-15% af kostnaði við nýja vél (sjá töflu).

Væntingar meiri en raunveruleikinn

Bresku neytendasamtökin Which fjölluðu um bilaðar þvottavélar fyrr á þessu ári. Þar kom fram að nýjar vélar hefðu skemmri endingartíma en neytendur byggjust almennt við. Í umfjöllun sinni vísar Which í könnun bresku samtakanna WRAP (waste and resource action program) þar sem fram kom að um 41% viðmælenda höfðu skipt út þvottavélinni áður en hún varð 6 ára gömul og var bilun á vélinni algengasta ástæðan. Which gerði sambærilega könnun meðal félagsmanna sinna, og hún leiddi í ljós að væntingar neytenda um endingartíma þvottavélanna voru að þær entust í um 12 ár en vélarnar reyndust þó oft hafa bilað innan við 5 ár frá kaupum og enn fleiri innan við 10 ár.

Innbyggð tromla

Which lét hóp sérfræðinga bera nokkrar þvottavélar framleiddar 2015 saman við Hoover vél frá 1980 og tvær AEG vélar framleiddar 1990. Niðurstaðan leiddi í ljós að meginvandamálið var að æ fleiri vélar eru hannaðar með innsiglaðri tromlu; með öðrum orðum eru tromlan og allar helstu legurnar sem hún snýst um innbyggðar í plasthylki sem gerir allt innvolsið algerlega óaðgengilegt. Framleiðendur vilja meina að þannig verði vélarnar traustari en eldri tegundir þar sem hægt var að taka allt í sundur. Einn verkfræðingurinn í hópnum sagði að innsigluð tromla væri þannig varin fyrir leka sem hefur þó enga þýðingu fyrir líftíma leganna. Afleiðingin er að ef eitthvað bilar þarna inni er eina ráðið að skipta plasthylkinu með öllu klabbinu út fyrir nýtt sem gerir varahlutinn dýrari og viðgerðina tímafrekari. 

Óaðgengileg sía og innbyggð hurð

Ein af nýju þvottavélunum sem Which skoðaði hafði innsiglaðan hurðarbúnað. Það kannast eflaust einhverjir við að handfang hafi brotnað þegar hurð er rykkt upp áður en þvottatíma lýkur og ætti þá að vera hægt að skipta um handfang á einfaldan hátt. En sé hurðin innsigluð þarf að kaupa hurðina alla. Önnur vél var með óaðgengilega síu sem þýðir að eigandinn getur ekki fjarlægt hluti sem þangað rata, eins og spöng úr brjósthaldara, smáaura eða lykla. Í staðinn þarf að senda vélina í viðgerð með tilheyrandi kostnaði.

Mikilvægur umhverfisþáttur

Niðurstaða Which var þó sú að vélarnar væru ekki endilega hannaðar til að bila, en ekki heldur til að endast. Viðmælendur Which vildu einnig meina að það væri stórt umhverfismál að hanna vörur eins og hvít heimilistæki þannig að þau endist líkt og þau gerðu hér áður fyrr. Vandinn getur þó einnig legið í að undanfarinn áratug hafa neytendur gert æ meiri kröfur um ódýrari tæki, sem vissulega kemur niður á gæðunum. Að mati Which ættu framleiðendur að búa til tæki sem borgar sig að gera við. Þá er líka mikilvægt að neytendur fái upplýsingar á sölustað um hönnunina og hvort viðgerð geti farið fram án mikils tilkostnaðar. Neytendur gætu þá verið umhverfisvænni og valið gæðatæki sem einfalt væri að gera við.

Þegar nýlegt tæki bilar

Í lögum um neytendakaup er kveðið á um kvörtunarfrest vegna galla. Almennur frestur er tvö ár frá afhendingu söluhlutar en fimm ára kvörtunarfrestur gildir þó um hluti sem ætlaður er verulega lengri endingartími og getur það átt við um flest hvít heimilistæki. Sé kvörtunarfrestur ekki liðinn ber seljanda að bæta úr, ef um galla er að ræða. Til að byrja með taka flestir seljendur tækið í skoðun og viðgerð og þeir eiga rétt á því. Ef sama bilun kemur upp aftur eftir fyrstu viðgerð á seljandinn rétt á að reyna einu sinni enn að gera við tækið, eða að afhenda nýtt tæki, en einungis má gera við sama galla tvisvar með þeim hætti. Komi sama bilun vegna galla upp í þriðja sinn þarf hins vegar að skoða önnur úrræði, eins og riftun kaupa og endurgreiðslu. Seljanda ber að greiða fyrir flutning og viðgerðarkostnað vegna úrbóta á gölluðu tæki. Jafnframt ber seljanda að útvega neytanda lánstæki ef fyrirséð er að neytandi geti ekki notað tækið í meira en viku og um er að ræða tæki sem neytandinn getur illa verið án, en gera má ráð fyrir að það eigi við um öll hvít heimilistæki.

 

Viðgerð/skoðun á hvítum heimilistækjum – verðkönnun

Viðgerðarverkstæði sem seljendur hvítra heimilistækja benda á sem sína þjónustuaðila

Skoðun eða klst.

Útkall akstur+vinna (1 ein.)

Rafha viðgerðarverkstæði

4.500

9.500

Raftækjaþjónustan

4.861

12.000

Raftækjavinnustofa Einar Stef.

4.960

14.260

Guðmundur P. Ólafsson

5.000

16.900

Smith og Norland viðgerðarverkstæði

6.169*

12.350

Rafbreidd

7.006

15.000

Rafbraut

8.201

14.000

*Ef tækið dæmist ónýtt kostar greiningin 0 kr. (tækið er keypt af SmiNor og Bosch)
Ath.Taflan er  ekki tæmandi fyrir viðgerðarþjónustur hér á landi

 

Höfundur: Þuríður Hjartardóttir
Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 3. tbl. 2015.