Evrópusambandið og póstverslun

mánudagur, 16. mars 2009
Ian Watson

 

Fyrir íslenska neytendur væri ein sýnilegasta breyting Evrópusambandsaðildar mun auðveldari póstverslun við Evrópulönd, sem myndi leiða til meiri samkeppni í smásölu á Íslandi og trúlega til verðlækkana. Stundum heyrist talað um að þetta myndi gerast með því að “tollar myndu falla niður” en í rauninni myndi þetta gerast vegna breytinga á virðisaukaskattsinnheimtu. Ég fann enga umfjöllun um þetta í greinum Morgunblaðsins um Evrópusambandið um daginn þannig að ég vil fjalla stuttlega um þetta sjálfur.

Heimatilbúnar hömlur
Þegar íslenskur neytandi pantar vöru frá netverslun í Bretlandi eða í Þýskalandi þá á ekki að þurfa að borga breskan eða þýskan virðisaukaskatt við kaup hennar, vegna þess að Ísland er ekki í Evrópusambandinu. Hins vegar er varan stöðvuð við komu til Íslands, oftast af Tollmiðlun Íslandspósts. Kaupandinn fær seðil sem kveður á um að hann þurfi að borga íslenskan virðisaukaskatt (7% eða 24,5%) af vörunni og sendingarkostnaði, og svo umsýslugjald (450 kr. hjá Íslandspósti). Þá þarf að sækja pakkann á pósthúsið. Þetta á við þó að virðisaukaskattsupphæðin sé mjög lítil, t.d. 50 eða 100 kr. Þessi fyrirhöfn hindrar netverslun Íslendinga mjög og er ein ástæða þess að margir Íslendingar á leiðinni heim frá útlöndum eru með fullar ferðatöskur.

Ég get varla lýst þeim skaða sem Íslendingar verða fyrir með því að geta ekki auðveldlega tekið þátt í póstverslunarmenningunni sem hefur gjörbreytt smásölu í Norður-Ameríku og Evrópu. Verð á bókum, fötum, leikföngum, ritföngum, varahlutum, sérhæfðum vörum og öðru dóti sem oft er keypt í gegnum póst frá öðrum löndum er úr öllum böndum hér á Íslandi, og úrval í búðum þröngt, vegna gervimúranna sem við höfum byggt þannig að neytendur geta ekki keppt við búðir í innflutningi. Erfitt er að reka fyrirtæki, háskóla, og heimili á Íslandi þegar svo erfiðlega gengur að fá venjulegustu vörur og varahluti.

Evrópska lausnin og íslenska lausnin
Með inngöngu í Evrópusambandið myndi íslenska ríkið ekki lengur innheimta virðisaukaskatt á pökkum frá Evrópu við komu til landsins. Reglan er að virðisaukaskatturinn fer í ríkiskassa í landi seljandans ef velta hans við land kaupandans er undir ákveðnum mörkum; annars þarf seljandinn að vera skráður í virðisaukaskattskerfi landsins þar sem kaupandinn býr og skatturinn fer þangað. Fyrir neytendur myndi ESB-aðild þýða að ekkert umsýslugjald væri tekið fyrir virðisaukaskattsinnheimtu og að pakkar mundu koma tafarlaust til neytendans, eða að minnsta kosti til pósthússins, með stórlækkuðum kostnaði. Kaupandinn þarf aldrei að greiða skattinn sjálfur.

En Ísland gæti innleitt sambærilegar breytingar sjálft sem myndu setja Íslendinga í jafna samkeppnisstöðu við önnur lönd án Evrópusambandsaðildar. Talsmaður neytenda lagði fram tillögu til fjármálaráðherra í ágúst í fyrra, eftir samráð við fjármálaráðuneytið, sem væri gott fyrsta skref í þessum málum: hann lagði til að minniháttar virðisaukaskattur á pökkum væri einfaldlega felldur niður enda svari ekki kostnaði að innheimta hann. Greinarhöfundur vann að þeirri tillögu fyrir hönd talsmanns neytenda. Neytendur myndu ekki lengur borga t.d. 450 kr. umsýslugjald til þess að borga t.d. 50 kr. skatt, sem virðist vera þjóðfélagslegt tap og tímaskekkja. Ísland er eina landið í Evrópu án slíkrar niðurfellingarreglu (Noregur og Sviss meðtalin). Fjármálaráðherra hefur enn ekki brugðist við tillögunni en ráðuneytið hefur svarað að málið sé í skoðun.
Þó að við veltum Evrópusambandsaðild fyrir okkur, eigum við ekki síður að breyta eigin reglum til að lifa betur þau ár áður en við gerumst aðilar.

Stjórnsýslusamkeppni
Aðgerðarleysi í póstverslunarmálum virðist einungis vera þeim örfáu í hag sem græða af því að hindra frjálsa verslun Íslendinga við útlönd. Þetta eru aðallega verslunareigendur og stórkaupmenn. Óljóst er hvort flutningafyrirtækin Íslandspóstur, DHL eða UPS hafa nettótekjur af umsýslu pakka (samkvæmt alþjóðlegra póstsamþykkta eiga gjöld fyrir tollmiðlun að byggjast á raunkostnaði en við vitum ekki hvort það gerist í raun). En þúsund ára baráttu Íslendinga við einokunar- og fákeppnisveldin sem stjórna vöruflæði til landsins er greinilega ekki lokið.

Spurningin um Evrópusambandaðild snýst um margt til viðbótar við póstverslun. En ákvörðunin byggir að einhverju leyti á einhvers konar hugmyndasamkeppni á milli íslenskrar stjórnsýslu og þeirrar evrópsku. Ef íslenska ríkið getur ekki knúið fram breytingar sem eru næstum því öllum til bóta og eru nú þegar til staðar í Evrópusambandinu, þá virðist betri og betri kostur að Evrópusambandið taki þátt í stjórnun landsins. Þeir sem eru andsnúnir Evrópusambandinu verða meðal annars að sýna að þeir geti bætt vanda póstverslunar á Íslandi. Ef það verður ekki gert á það ekki að koma þeim á óvart að margir vilji fá Evrópusambandið til að setja reglur fyrir Ísland í þessum málum.

eftir Ian Watson stjórnarmann í Neytendasamtökunum