Evrópska Neytendaaðstoðin / ECC á Íslandi

mánudagur, 5. september 2005
Eiríkur Áki Eggertsson

Síðan Ísland gerðist aðili að Evrópska Efnahagssvæðinu hafa viðskipti neytenda yfir landamæri aukist. Ýmsar pólitískar, landfræðilegar og tæknilegar hindranir sem áður stóðu því í vegi að neytendur keyptu vöru og þjónustu í öðru ríki hafa verið á undanhaldi. Samfara þessari þróun hefur framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins (EB) reynt að efla traust neytenda á milliríkjaviðskiptum sem veitir innlendum seljendum aukna samkeppni. Aukið valfrelsi neytenda í viðskiptum er talið leiða til lægra verðs og meiri gæða á ýmis konar vöru og þjónustu.

Á vettvangi framkvæmdastjórnarinnar hefur verið unnið að því að samræma reglur aðildarríkjanna á ýmsum sviðum viðskipta, meðal annars þær sem snerta neytendur.  Forsenda fyrir trausti neytenda er að reglur sem gilda eiga um viðskipti þeirra séu skýrar og aðgengilegar. Engin lög eru góð nema þeim verði framfylgt með viðhlítandi hætti. Öryggisleysið sem fylgir því að versla við fjarlægan seljanda kallar á að neytandi geti aflað sér upplýsinga um löggjöf í landi seljanda sem ætlað er að gilda um viðskiptin. Einnig þarf neytandi að eiga þess kost að fá leyst úr vandamálum sem risið geta vegna kaupanna.

Með framangreint í huga settu aðildarríki Evrópubandalagsins í samstarfi við framkvæmdastjórnina á laggirnar tvö þjónustunet, European Consumer Centre og EEJ-NET, sem hafa það hlutverk að aðstoða neytendur í tengslum við kaup á vöru og þjónustu af seljanda í öðru aðildarríki. European Consumer Centre hefur haft að meginstefnu til það hlutverk að annast samskipti neytenda við seljendur á fyrstu stigum ágreinings en ef ekki næst að leysa úr hefur EEJ-Net veitt leiðsögn um viðeigandi úrskurðaraðila til að skera úr ágreiningi.[1] Frá árinu 2004 hefur verið stefnt að samruna þessara þjónustuneta í eitt, það á að heita European Consumer Centre Net (Evrópska neytendaaðstoðin). Að minnsta kosti ein miðstöð á að starfa í hverju aðildarríki.

Ísland og Noregur hafa tekið þátt í ofangreindu samstarfi vegna aðildar sinnar að hinu Evrópska Efnhagssvæði. Evrópska neytendaaðstoðin á Íslandi tók til starfa á stofndegi þessa samstarfs hinn 16. okt. 2001. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hafði frumkvæði að því að tryggja þátttöku Íslands og hafði umsjón með starfinu í upphafi en í byrjun árs 2003 tóku Neytendasamtökin við starfrækslu útibúsins. Kostnaður af rekstrinum skiptist jafnt á milli íslenska ríkisins og framkvæmdastjórnar EB.

Íslenska ríkið hefur fram til þessa ekki verið fullur þátttakandi í samstarfinu heldur hefur starfsemi útibúsins hér á landi að mestu einskorðast við að benda neytendum á þar til bæra úrskurðaraðila sem geta skorið úr ágreiningi þeirra við seljendur vöru eða þjónustu (EEJ-Net starfsemi). Þessi verkefni hafa að mestu verið unnin af einum löglærðum starfsmanni samtakanna sem eyðir hluta af sínum starfstíma í þágu þessa málaflokks. Framkvæmdastjórn EB leggur áherslu á að íslenska ríkið búi vel í haginn fyrir starfsemina hér á landi sem vonandi getur sinnt neytendum betur í náinni framtíð. Mætti nefna sem dæmi:  

  1. að veita neytendum lagalega ráðgjöf áður en þeir kaupa vöru eða þjónustu af seljanda í öðru aðildarríki.
  2. að miðla upplýsingum um neytendalöggjöf innan Evrópubandalagsins.
  3. að vinna úr og kynna upplýsingar sem varða neytendakaup í aðildarríkjunum, t.d. verð- og gæðakannanir.
  4. að aðstoða neytendur þegar álitamál rísa vegna kaupa þeirra á vöru eða þjónustu af seljendum í öðrum aðildarríkjum, eftir atvikum með milligöngu eða með því að vísa kvörtunum til viðeigandi úrskurðaraðila.
  5. að vekja athygli á starfsemi Evrópsku neytendaaðstoðarinnar og möguleikum neytenda til að fá skorið úr ágreiningi fyrir sjálfstæðum úrskurðarnefndum.
  6. að eiga gott samstarf við önnur útibú Evrópsku neytendaaðstoðarinnar, yfirvöld neytendamála, neytendasamtök, aðila viðskiptalífsins og önnur sérhæfð úrlausnarnet, t.d. Solvit og Fin-net.

Hinn góði og gegni neytandi
Álitaefni sem rísa í tengslum við kaup neytenda á vöru og þjónustu af seljanda í öðru landi koma að jafnaði ekki til kasta almennra dómstóla. Vafalaust er ein helsta ástæðan sú, að þannig málaferli kosta mikinn pening, tíma og óhagræði í samanburði við verð þeirrar vöru eða þjónustu sem um er deilt. Eftir sem áður geta hagsmunir sem í húfi eru skipt neytandann miklu máli samanborið við hans eigin efnahag.

Evrópskum neytendum býðst að jafnaði mikið úrval vöru og þjónustu. Að sama skapi geta álitaefnin sem rísa í tengslum við kaupin verið margþætt og ekki alltaf fyrirsjáanleg. Ekki er langt síðan sögur fóru af íslenskum “ofurhugum” sem ferðuðust til landa í Austur- og Mið Evrópu í þeim tilgangi að láta gera við tennurnar í sér fyrir lítinn pening. Þeir sem versla ferðir af erlendum flugfélögum eða ferðaskrifstofum, í stað þeirra íslensku, kunna einnig að hafa sparnaðarsjónarmiðin að leiðarljósi, einnig þeir sem kaupa bifreiðar á internetinu af erlendum söluaðilum og svo framvegis. Hinn gegni og góði neytandi hlýtur samt ávallt að leiða hugann að því hver hinn fjarlægi seljandi er, reglum sem gilda eiga um viðskiptin, gæðum hins selda og hvernig brugðist skuli við ef eitthvað fer úrskeiðis við kaupin.

Að lokum
Hugsunin að baki Evrópsku neytendaaðstoðinni er að efla traust neytenda á viðskiptum við seljendur í öðrum ríkjum. Fram að þessu hefur hlutverk starfseminnar hér á landi aðallega falist í því að aðstoða neytendur við úrlausn deilumála en verkefnum kann að fjölga eftir því sem viðskipti neytenda við útlönd verða meiri. Ástæða er til að hvetja þá sem kjósa að versla á hinu Evrópska efnahagssvæði til að nýta sér þessa þjónustu og um leið yfirvöld til að styðja vel við bakið á henni.

[1] Á undaförnum árum hafa verið settar á stofn úrskurðarnefndir sem ætlað er að skera úr ágreiningi neytenda og seljenda á ýmsum sviðum viðskipta. Þetta hefur gerst fyrir tilstilli neytendasamtaka og aðila viðskiptalífsins, og oft með aðkomu opinberra yfirvalda. Þessi leið hefur reynst árangursrík og hefur sparað evrópskum neytendum þann kostnað og seinagang sem rekstur fyrir almennum dómstólum hefur í för með sér. Framkvæmdastjórn EB hefur sett fram nokkrar meginreglur sem tryggja eiga meðal annars að úrskurðaraðilar séu óhlutdrægir og sjálfstæðir og að málsmeðferð fyrir þeim sé gagnsæ og skýr, sbr. Commission Recommendation of 30 March 1998 on the principles applicable to the bodies responsible for out-of court settlement of consumer disputes.

Eftir Eirík Áka Eggertsson.
Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 5. september 2005.