Fæðubótarefni til bóta?

Föstudagur, 1. febrúar 2013
Daði Heiðar Kristinsson

 

Notkun fæðubótarefna, markaðssetning og eftirlit.
Neysla fæðubótarefna hefur aukist á síðastliðnum árum. Er þá helst að nefna neyslu próteindrykkja og annarra fæðubótarefna sem ætlað er að bæta árangur í íþróttum og líkamsþjálfun. Samkvæmt könnun á mataræði Íslendinga 2010 til 2011 er neysla próteindrykkja mest á meðal karlmanna á aldrinum 18-30 ára en nær helmingur þeirra neytir slíkra drykkja að minnsta kosti einu sinni í viku. Auglýsingar um og markaðssetning á íþróttafæðubótarefnum hefur aukist til muna og sérverslanir með þessar vörur spretta upp auk þess sem efnin má nú finna í flestum matvöruverslunum.

Hvað eru fæðubótarefni?
Líklegt er að eldri kynslóðin skilgreini fæðubótarefni sem ýmiss konar vítamín og steinefni sem neytt er í töfluformi, svo sem c-vítamín og lýsi. Hins vegar má telja að í huga yngri kynslóðarinnar komi upp ýmiss konar efni sem bæta eiga árangur í íþróttum og líkamsþjálfun, svo sem próteindrykkir, brennslutöflur og kreatín. Rétt er að öll framangreind efni má í raun flokka sem fæðubótarefni. Samkvæmt lagalegri skilgreiningu eru fæðubótarefni matvæli sem ætluð eru sem viðbót við venjulegt fæði og hafa hátt hlutfall af vítamínum, steinefnum eða annars konar efnum sem hafa næringar- eða lífeðlisfræðileg áhrif. Í þessari grein er fjallað um fæðubótarefni sem ætluð eru til að ná bættum árangri í íþróttum og líkamsþjálfun og verður vísað til íþróttafæðubótarefna í því sambandi.

Eru íþróttafæðubótarefni nauðsynleg?
Í markaðssetningu og upplýsingum frá framleiðendum og seljendum íþróttafæðubótarefna er því gjarnan haldið fram að neysla slíkra efna sé nauðsynleg til að ná árangri í íþróttum. Á sama tíma halda margir sérfræðingar því fram að inntaka íþróttafæðubótarefna sé óþörf og að nægilegt sé að borða hollan og góðan mat. En hvað er rétt í þessum efnum? Íþróttafæðubótarefni innihalda oftast nær hefðbundin næringarefni sem fást úr venjulegri fæðu. Líkaminn þarf ákveðið magn næringarefna til þess að starfa eðlilega og skortur getur því leitt til vandkvæða, svo sem verri árangurs í íþróttum. Því er ljóst að neysla íþróttafæðubótarefna getur í raun bætt árangur í íþróttum og líkamsþjálfun, þ.e. ef neyslan kemur í veg fyrir skort á næringarefnum. Á hinn bóginn er álitamál hvort umframneysla íþróttafæðubótarefna bæti árangur ef einstaklingurinn fær nægilega næringu og orku úr hefðbundinni fæðu. Þó verður að hafa í huga að ef fólk æfir mjög stíft getur verið erfitt að uppfylla daglega næringarefnaþörf með hefðbundinni fæðu eingöngu. Neysla íþróttafæðubótarefna getur því verið ágætur kostur fyrir íþróttafólk sem hefur lítinn tíma til að útbúa mat í hvert mál.

Kreatín Rannsóknir hafa sýnt að neysla á kreatíni getur aukið hámarksafköst við hámarksáreynslu í stuttan tíma.
L-karnitín Rannsóknir hafa sýnt að aukin neysla á karnitín hefur lítil áhrif á líkamlega getu og þyngdartap þeirra sem þess neyta.
Prótein Engar rannsóknir hafa sýnt fram á að neysla amínósýrukeðja bæti árangur eða flýti fyrir bata eftir æfingar.

Eru efnin skaðleg?
Hæpið er að neysla íþróttafæðubótarefna sem innihalda hefðbundin næringarefni, líkt og prótein, kolvetni og fleira, séu skaðleg heilsunni sé þeirra neytt innan hóflegra og heilsusamlegra marka. Sama gildir hins vegar ekki þegar íþróttafæðubótarefni innihalda það sem kannski má kalla óhefðbundin efni og hér á landi finnast dæmi um að seld hafi verið fæðubótarefni sem innihalda efni sem geta beinlínis verið hættuleg. Rétt er að hafa varann á ef íþróttafæðubótarefni innihalda framandi efni og er þá ráðlegt að kanna hvort varað hafi verið við notkun efnanna.

Nýlega varaði Matvælastofnun við neyslu fæðubótarefna sem innihalda 1,3-dimethylamylamine eða DMAA en þekktar aukaverkanir af því efni eru hár blóðþrýstingur, ógleði/uppköst, heilablæðing, blóðtappi og dauði. Um er að ræða fæðubótarefnin Jack3D, Oxy Elite Pro, BSN Endoburn NT, 1.M.R Powder, HemoRage Black, Lean Efx, o.fl.

Hver sér um eftirlitið?
Matvælastofnun fer með eftirlit með innflutningi á matvælum og íþróttafæðubótarefnum en heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga hefur eftirlit með sölu og markaðssetningu efnanna. Rétt er að ítreka að íþróttafæðubótarefni eru ekki rannsökuð af óháðum aðila áður en þau eru sett á markað og ekki þarf sérstakt leyfi fyrir innflutningnum. Eftirlitið fer því fram eftir að varan hefur verið sett á markað. Seljandi ber ábyrgð á því að salan samrýmist lögum og reglum um sölu fæðubótarefna. Ef upp kemst um brot getur heilbrigðiseftirlitið áminnt seljanda, stöðvað markaðssetningu, lagt hald á vöru og jafnvel beitt sektum. Þá er óheimilt að selja íþróttafæðubótarefni eða matvæli sem innihalda lyf eða efni sem hlotið hafa B-flokkun hjá Lyfjastofnun. 

Dæmi þar sem sala á íþróttafæðubótarefni var stöðvuð og varan innkölluð vegna þess að hún innihélt lyf eða B-flokkuð efni:

  • Vara: BioTech – Joint & Cartilage. Söluaðili: Sportlíf
  • Vara: MusclePharm –Assault og Armor-V. Söluaðili: www.protin.is

Torg fullyrðinganna
Um fullyrðingar í markaðssetningu matvæla og íþróttafæðubótarefna gilda síðan sérstakar reglur og fer heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga með eftirlit með þeim. Framleiðandi má ekki nota ákveðna fullyrðingu á vöru sína, svo sem „Eykur orku og bætir geð“, nema hún sé studd með vísindalegum gögnum og hana sé að finna á svokallaðri fullyrðingaskrá. Það er matvælaöryggisstofnun Evrópusambandsins sem heldur utan um þessa fullyrðingaskrá og er hún samræmd fyrir evrópska efnahagssvæðið. Í fullyrðingaskránni er bæði að finna fullyrðingar sem heimilt er að nota í markaðssetningu og fullyrðingar sem hefur verið hafnað vegna skorts á vísindalegum gögnum sem styðja þær. Vilji seljandi eða framleiðandi nota fullyrðingu sem er ekki á fullyrðingaskránni getur hann sótt um leyfi en verður þá að leggja fram vísindaleg gögn sem sýna fram á að fullyrðingin standist.

Samkvæmt reglum um megrunarafæði er óheimilt við merkingu, auglýsingu, kynningu og markaðs-setningu þess að gefa til kynna hversu hratt eða hve mikið þyngdartapið geti orðið sé þess neytt. Einnig er óheimilt að gefa til kynna að hungurtilfinning minnki við notkun eða að seddukennd aukist.

Samkvæmt reglum um fæðubótarefni er óheimilt í merkingu, auglýsingu og kynningu þeirra að staðhæfa eða gefa í skyn að nægilegt magn næringarefna fáist ekki almennt úr rétt samsettri eða fjölbreyttri fæðu. Þá er óheimilt að eigna fæðubótarefnum þá eiginleika að fyrirbyggja, vinna á eða lækna sjúkdóma manna eða gefa í skyn slíka eiginleika.

Dæmi um fullyrðingar sem heimilt er að nota:

  • Kreatín eykur hámarksafköst þegar hámarksáreynsla varir í stuttan tíma.
  • Prótein stuðlar að vexti vöðvamassa.
  • Prótein stuðlar að viðhaldi á vöðvamassa.

Dæmi um fullyrðingar sem óheimilt er að nota:

  • Kreatín bætir eftirtekt, athygli og minni.
  • Kreatín bætir líkamlega getu á þreytumörkum.
  • Neysla amínókeðja flýtir fyrir bata eftir æfingu.
  • HMB getur stuðlað að aukningu vöðvamassa við styrktaræfingar.

Of gott til að vera satt
Ljóst er að íþróttafæðubótarefni geta verið til gagns sé þeirra neytt innan skynsamlegra og heilsusamlegra marka. Þó ber að varast villandi markaðssetningu og fullyrðingar sem ekki eru studdar neinum vísindalegum gögnum. Í ljós hefur komið að fullyrðingar framleiðenda og seljenda eru oft og tíðum ekki studdar með vísindalegum gögnum þrátt fyrir að því sé haldið fram og þegar loforð virðist vera of gott til að vera satt er það oft einmitt raunin.


Ólöglegar fullyrðingar hér á landi
Neytendasamtökin tóku saman nokkrar fullyrðingar seljenda íþróttafæðubótarefna hér á landi sem telja má að óheimilt sé að nota. Samtökin hafa sent erindi á heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga vegna þessa og farið fram á að gripið verði til aðgerða. Hér má sjá nokkur dæmi:

„Eykur fitubrennslu! Tilraunir sýna að við æfingar eykst brennslan töluvert við notkun L-Carnitine og minnkar mjólkursýru í blóði.“

„L-karnitín er eins og flutningabíll sem flytur fitusýrur úr umfrymi fruma og inn í orkukornin til brennslu.“

„Eat Control hjálpar þér með mataræðið þitt. Það dregur úr matarlyst og jafnar blóðsykurinn svo löngunin í sykurrík kolvetni verður minni.“

„Ultra Loss Shake: Inniheldur einnig Beta Carotene er talið geta komið í veg fyrir hjarta og krabbamein, þunglyndi, astma og styrkir ónæmiskerfið." 

„Nýtt míkrógena-kreatín: AST hefur helgað sig því að bæta skilvirkni fæðubótaefna og hefur þess vegna þróað nýja kreatínvöru sem hefur innleitt míkróöreindatækni. Þessi tækni setur ný viðmið á sviði kreatínvara, með því að framleiða kreatín-míkróöreindir sem eru 20 sinnum smærri en í venjulegu kreatíndufti. Míkrógenískt kreatín hefur mikla yfirburði yfir hefðbundið einhýdratkreatín. Hraðari upptaka Smæð öreindanna í míkrógena-kreatíninu stuðlar að hraðari meltingu og nýtingu.“

„SVONA VIRKAR HMB 3000™. Ákafar æfingar og þátttaka í íþróttamótum geta í raun leitt til vöðvarýrnunar. HMB 3000™ er úrvals næringarefni til að koma í veg fyrir vöðvarýrnun og það getur einnig leitt til aukins styrks og vöðvamassa með því að flýta endurbata á milli æfinga.“

Daði Heiðar Kristinsson
skrifað fyrir Neytendablaðið september 2012

Fæðubótarefni til bóta?