Fair trade fashion – siðræn tíska

Föstudagur, 1. október 2004
Brynhildur Pétursdóttir

 

Undanfarin ár hafa margir þekktir tískuvöruframleiðendur verið gagnrýndir fyrir vafasama framleiðsluhætti. Ýmsir hópar og samtök hafa hvatt neytendur til að sniðganga fyrirtæki sem ekki standa sig í stykkinu og þessi þrýstingur hefur gert það að verkum að langflest fyrirtæki sem eitthvað mega sín hafa sett sér siðareglur. Samt virðist víða pottur brotinn og ómögulegt er að átta sig á því hvort fyrirtæki fari yfirhöfuð eftir eigin siðreglum. Þar fyrir utan er sá hópur neytenda sem lætur sig þessi mál varða kannski ekki nógu stór til að framleiðendur sjái ástæðu til gera eitthvað í málunum.

En til að svara kröfum þeirra neytenda sem gjarnan vilja eiga viðskipti við tískuvöruframleiðendur sem tryggja að framleiðsluhættir séu ásættanlegir hefur nýtt fyrirbæri skotið upp kollinum. Það er svo kölluð "fair trade fashion", sem í íslenskri þýðingu gæti útlagst sem tíska þar sem sanngjarnir viðskiptahættir ráða ferðinni, eða tíska á forsvaranlegum nótum. Fair trade merki eru til á mörgum tegundum af nýlendvörum eins og kaffi, te og sykri og merkið er þá trygging fyrir því að framleiðandinn, t.d. kaffibóndinn hafi fengið sanngjarnt verð fyrir afurðir sínar. Þessi siðgæðisvottun á nýlenduvörum er engin nýlunda en það er tiltölulega nýtt að fyrirtæki framleiði tískufatnað undir þessum formerkjum. Fötin eru framleidd í fátækum löndum eins og venja er en fólkið sem vinnur við framleiðsluna fær sómasamleg laun og vinnulöggjöf er virt. Verðið til neytenda er ekkert hærra en gengur og gerist enda er yfirleitt ekki samræmi í launum verkafólks og endanlegu verði til neytenda.

Það sem er áhugavert við þetta tiltölulega nýja fyrirbæri er að fair trade föt eru oft á tíðum bara þrælflott. Reyndar er líka eitthvað um fyrirtæki sem varla flokkast undir tískuvöruframleiðendur. Framleiðslan felst þá aðallega í stuttermabolum og jogginfötum einhvers konar og maður hefur á tilfinningunni að fyrirsæturnar séu valdar úr fjölskyldu eða vinahópi eigandans. En fair trade tískan getur líka verið flott og rétt er að nefna þau merki sem hæst bera í fair trade tískuheiminum. Peopletree www.peopletree.co.uk er breskt fyrirtæki sem selur föt og skartgripi sem framleidd eru í 20 löndum víðs vegar um heiminn. Einungis eru notuð handofin efni og lífrænt ræktuð bómull í framleiðsluna enda snýst people tree ekki bara um fair trade fashion heldur líka um ecology fashion sem við getum þýtt það sem umhverfisvæna tísku eða vistvæna tísku. People tree notar einungis lífrænt ræktaða bómull í framleiðsluna.

Lífrænt ræktuð bómull er einungis um 0,1% af allri bómullarræktun í heiminum en fer vaxandi þar sem hefðbundin bómullarframleiðsla er alveg einstaklega óumhverfisvæn. Hefðbundin bómullarræktun þekur einungis um 3% af öllu ræktunarlandi í heiminum. Hins vegar fer um 25% af öllu skordýraeitri og áburði sem notaður er í heiminum í hefðbundna bómullarræktun. Þetta þýðir að engin önnur ræktuð afurð á jörðinni er sprautuð eins mikið með eiturefnum ýmiskonar og bómullarplantan. Í Bandaríkjunum, sem er einn stærsti bómullarframleiðandi í heimi, eru notuð 57 miljón tonn af eiturefnum á ári hverju í hefðbundna bómullarrækt. Eftirspurn eftir lífrænt ræktaðri bómull hefur því vaxið og stutt er síðan sportvöruframleiðandinn Nike byrjaði að nota lífrænt ræktaða bómul í framleiðslu sína. Þó í mjög litlum mæli til að byrja. Bómullarframleiðsla í Bandaríkjunum hefur líka verið harðlega gagnrýnd vegna hárra  ríkisstyrkja sem hafa leitt til offramleiðslu og verðhruns á bómull. Þetta hefur bitnað illa á fátækum bómullarbændum sem ekki njóta neinnar tryggingar í formi ríkisstyrkja. People tree kaupir bómull af indverskum bómullarbændum og borgar 30% hærra verð en gengur og gerist á heimsmarkaði.

Annað flott fair trade tískumerki kemur frá Hollandi og heitir Kuyichi www.kuyichi.com .Fötin eru 70% úr lífrænt ræktaðri bómull en stefnt er að því að öll framleiðslan verði úr lífrænt ræktaðri bómull innan tveggja ára. Verkafólkið sem saumar fötin eru tryggð sjálfsögð réttindi og sómasamlegt kaup svona rétt eins og lög gera ráð fyrir þegar fair trade tískan er annars vegar. Verslanir sem selja Kuychimerkið eru m.a. að finna í Svíþjóð, Hollandi, Spáni og á Ítalíu. Heimasíðan er svo töff að maður sér eiginlega ekkert hvernig fötin líta út, en þau virka þó flott og fyrisæturnar eru fallegt og brosmilt fólk sem greinilega nýtur lífsins í kuyichigallabuxum og bolum.

Það segir mikið um hina hefðbundnu framleiðslu að það sé yfirhöfuð eitthvað til sem heitir fair trade fashion. Að maður þurfi að hafa sérstaklega fyrir því að kaupa tískuvarning þar sem tekið er tillit til umhverfisins og verkafólksins sem framleiðir vöruna. Ætti það ekki bara að þykja sjálfsagt mál?

-BP-
Spegillinn