Gæta ber almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna

Fimmtudagur, 26. júní 2003
Jóhannes Gunnarsson

 

Á Alþingi 11. desember 2002 var eftirfarandi þingsályktunartillaga samþykkt, en Rannveig Guðmundsdóttir hafði flutt hana:

“Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna matvælaverð á Íslandi í samanburði við helstu nágrannalönd. Jafnframt verði reynt að gera grein fyrir hugsanlegum ástæðum mismunandi matvælaverðs, svo sem ólíkum verslunar- og framleiðsluháttum. Niðurstöðum þessarar athugunar skal skila til Alþingis innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar.”

Þessi þingsályktunartillaga var flutt í framhaldi af umræðu sem raunar hefur staðið yfir mörg síðustu ár um hátt matvælaverð hér á landi. Því fögnuðu Neytendasamtökin mjög þessari tillögu og hvöttu til að hún yrði samþykkt, enda höfðu samtökin ítrekað bent á með verðsamanburði að matvælaverð hérlendis væri óeðlilega hátt í allt of mörgum tilvikum.

Samkvæmt samþykkt Alþingis átti að birta niðurstöður þessarar athugunar 11. júní sl. Nú bregður svo við að fram kemur í fréttum að niðurstöður verða ekki birtar fyrr en í desembermánuði nk. eða hálfu ári seinna en Alþingi samþykkti. Ekki komu fram neinar skýringar hvað veldur þessari töf.

Neytendasamtökin höfðu vænst þess að þessi athugun og ástæður á háu matvælaverði hér á landi myndu leiða til nauðsynlegra aðgerða til að rétta hlut neytenda. Nú er ljóst að seinkun verður á þessu og að íslenskir neytendur þurfa enn um sinn að greiða hærra verð en ella fyrir lífsnauðsynjar sínar. Þetta virðist þó sumum ekki tiltökumál þar sem engin ástæða virðist til að gefa skýringu á hvað veldur þessum töfum þrátt fyrir skýlausa ákvörðun Alþingis. Skítt veri með hagsmuni neytenda (almennings).

Þetta leiðir hugann að mikilvægum málum sem eftirlitsstofnanir hins opinbera hafa nú til meðhöndlunar og hafa tekið æði langan tíma í vinnslu. Bæði Fjármálaeftirlitið og Samkeppnisstofnun rannsaka iðgjöld og starfshætti tryggingafélaga ekki síst vegna hárra iðgjalda og/eða mikilla hækkana á þessum gjöldum og vegna meints samráðs tryggingafélaganna. Einnig rannsakar Samkeppnisstofnun meint samráð olíufélaganna. Jafnframt boðaði stofnunin í skýrslu um matvörumarkaðinn sem kom út 4. maí 2001 frekari athugun á honum, m.a. með tilliti til þess hvort aðilar á markaðnum hefðu misnotað aðstöðu sína, ekki síst í krafti stærðar sinnar.

Öðru verður ekki trúað en að þessar eftirlitsstofnanir gæti hagsmuna neytenda eins og þeim ber lögum samkvæmt. Það er hins vegar ljóst að allur dráttur á niðurstöðum í þessum málum er dýrkeyptur fyrir neytendur. Og miðað við hve langan tíma það tekur að komast að niðurstöðu hlýtur það að orsakast af því að þessum stofnunum, sem eru svo mikilvægar fyrir hagsmuni neytenda, er ekki gert kleift að ljúka málum á sem stystum tíma einfaldlega vegna þess að þær hafa ekki þann mannafla sem til þarf.

Á meðan ástandið er eins og hér hefur verið líst líða neytendur vegna samráðs fyrirtækja eða ólögmætra aðgerða þeirra í krafti stærðar. Er ekki kominn tími til að þeir sem eiga að gæta almannahagsmuna geri það í stað þess að vera á fullu í gæslu sérhagsmuna og geri eftirlitsstofnunum mögulegt að rækja hlutverk sitt. Þetta er afar mikilvægt fyrir hagsmuni neytenda  bæði er varðar þau mál sem hér hafa verið nefnd en einnig í ljósi þess að að mörg önnur mikilvæg verkefni bíða þessara eftirlitsstofnana.

Jóhannes Gunnarsson
formaður Neytendasamtakanna