Greiðslugeta heimilanna; grípa þarf til frekari aðgerða

Föstudagur, 5. mars 2010
Jóhannes Gunnarsson

 

Það er ljóst að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af hálfu stjórnvalda og fjármálafyrirtækja til hjálpar skuldugum heimilum duga ekki. Því þarf að grípa til enn frekari ráðstafana til að forða fjölda heimila frá því að lenda í þroti.

Í skýrslu um greiðslugetu heimilanna, sem Kjartan Broddi Bragason hagfræðingur vann fyrir Neytendasamtökin, koma fram ýmsar sláandi upplýsingar. Sérstaklega vekja upplýsingar um hve skuldug tekjulægri heimilin eru verulegan ugg, enda ljóst að miðað við mikla hækkun á greiðslubyrði geta þau ekki staðið undir greiðslum á lánum sínum. Ástæðan þarf alls ekki að vera sú að þessi heimili hafi farið of geyst í sakirnar heldur stafa vandamálin fyrst og fremst af því að greiðslubyrðin hefur þyngst verulega vegna gengisfalls krónunnar og mikillar verðbólgu, til viðbótar við mikið atvinnuleysi eða launalækkun.

Þessar upplýsingar um miklar skuldir tekjulægri heimila leiða jafnframt hugann að því að þessi heimili eiga erfitt með að lifa samkvæmt eðlilegum lágmarksneyslustöðlum eins og við höfum vanist. Vissulega má spara á mörgum sviðum og það verða mörg heimili að gera í dag. En það er vissulega hætta á ýmsum félagslegum vandamálum þegar horft er til lengri tíma.

Í skýrslunni kemur fram að viðskiptabankarnir hafi svigrúm til að koma betur til móts við skuldug heimili og jafnframt er dregið í efa að það svigrúm sé nýtt að fullu með það að markmiði að aukinn jöfnuður sé meginforsenda slíkra aðgerða. Einnig er þess getið að það gleymist að meira en helmingur skulda heimilanna er hjá öðrum aðilum á fjármagnsmarkaði og þá einkum hjá Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum. Til þessa verði að taka tillit og þessir aðilar verði einnig að taka á sig afskriftir á lánum ekki síður en viðskiptabankarnir.

Loks kemur fram í skýrslunni að verði ekki tekið á skuldastöðu heimilanna og henni komið í rétt horf, sé sú hætta fyrir hendi að endurreisn efnahagslífsins dragist verulega á langinn. Benda má á að lækkun skulda og þar með greiðslubyrði leiðir til kaupmáttaraukningar ráðstöfunartekna og þar með til þess að hjól atvinnulífsins vinna betur heimilunum til hagsbóta. Óþarfi ætti að vera að nefna það hér að öflugt atvinnulíf er forsenda þess að heimilin búi við betri stöðu en þá sem þau búa við í dag.

Komið hefur fram að stjórnvöld vinni nú að frekari úrræðum í þágu skuldara. Jafnframt hafa ýmsir aðilar krafist tafarlausra aðgerða. Undir þetta tekur sá sem þetta skrifar enda ljóst að þau úrræði sem þegar hefur verið gripið til duga í allt of mörgum tilvikum ekki. Einnig er ástæða til að minna á að frá hruninu hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að verja hagsmuni fjármagnseigenda. Það hlýtur að auka enn á þunga krafna um raunhæfar aðgerðir gangnvart yfirskuldsettum heimilum.

Þær aðgerðir sem viðskiptabankarnir bjóða skuldurum eru mismunandi og að mati margra miðast þær fyrst og fremst við hagsmuni bankanna en ekki skuldara. Strax eftir hrunið kröfðust Neytendasamtökin þess að allar aðgerðir yrðu samræmdar til að tryggja að allir sætu við sama borð. Því miður var það ekki gert. Þau úrræði sem fólki standa til boða fara því eftir því hvaða banka það er í viðskiptum við. Bankarnir hafa jafnframt vísað til þess að tiltölulega fáir hafi nýtt sér þau úrræði sem í boði eru hjá þeim. Þetta hafa sumir túlkað sem svo að vandamálið sé ekki eins stórt og sumir halda fram. Það liggur hins vegar fyrir að vandi margra heimila er gríðarlegur og því er eðlilegra að ákykta að skuldug heimili meti þessi úrræði sem lítils eða einskis virði. Ýmsir hafa raunar sýnt fram á það með útreikningum að heimilin séu verr stödd en ella taki þau boðum bankanna um þau úrræði sem þeir bjóða uppá.

Það er einnig mat Neytendasamtakanna að nú eigi að nota tækifærið og breyta verklagsreglum þannig að lánveitingar verði ábyrgari í framtíðinni. Meðal annars þarf að koma upp raunhæfum neyslustaðli að norrænni fyrirmynd sem gerir ekki ráð fyrir, eins og nú er, sultarneyslu til margra ára. Jafnframt þyrfti að búa þannig um hnútana að allar lánveitingar byggi á greiðslumati sem taki mið af slíkum neyslustaðli og að lánveitandi verði ábyrgur ef til greiðslufalls kemur hafi hann ekki framkvæmt fullnægjandi greiðslumat hjá væntanlegum lántaka. Það skal vissulega viðurkennt að þó svo að farið hefði verið eftir slíkum leikreglum hér á árum áður hefðu fjölmörg heimili staðið gangnvart miklum greiðsluvanda í dag, enda má segja að bankahrunið hafi verið fjárhagslegar hamfarir. Við skulum eftir sem áður vona að við höfum lært okkar lexíu og að slíkt gerist ekki á nýjan leik.

Jóhannes Gunnarsson
Formaður Neytendasamtakanna

Grein þessi birtist í Neytendablaðinu í mars 2010