Höfum náð langt - en þarf að gera betur

Fimmtudagur, 11. október 2012
Brynhildur Pétursdóttir

Skortur á matvælamerkingum varð Sveini Ásgeirssyni, formanni Neytendasamtakanna, að umtalsefni árið 1960. Það stóð þó ekki á íslenskum framleiðendum að veita upplýsingar væri þess krafist eins og Sveinn komst að: „Um daginn las ég skrautlegan miða á íslenskri dós af kjötbollum. Þar voru ítarlegar upplýsingar um allt, sem í dósinni var, og dáðist ég að þeirri nákvæmni. En þetta var allt á ensku, því að þetta var útflutningsvara eða ætlað að vera það. Í sömu hillu voru svo dósir fyrir neytendur hérlendis, og þar stóð einfaldlega: Fiskbollur og Kjötbollur. Nánari upplýsingar fyrir landann eru álitnar óþarfar.“

Betri upplýsingar á fóðri en mat
Sveinn benti ennfremur á að sett hefðu verið lög um merkingar á ákveðnar vörutegundir en það væri ekki gert af greiðasemi við neytendur. Lög frá 1947 um eftirlit og verslun með fóðurvörur gerðu t.d. allmiklar kröfur til innflytjanda og framleiðenda fóðurvara. Þannig var skylt að upplýsa (með seðli efst í hverjum poka) um nöfn þeirra fóðurtegunda sem notaðar voru í framleiðsluna, fyrir hvaða búfjártegund blandan var ætluð, framleiðsluviku, meðalmagn af meltanlegri eggjahvítu í hverri fóðureiningu og tegundir og nöfn vítamína væru þau notuð í blönduna. „Hér er ekki verið að gefa neitt eftir“ segir Sveinn. „Framleiðanda líðst ekki að halda neinu leyndu, sem honum á að vera unnt að gefa upplýsingar um og talið er nauðsynlegt fyrir kaupandann að vita. Þetta er sjálfsögð stefna. En úr því að svo mikils er hlífðarlaust krafist varðandi skepnufóður, er þá til of mikils mælst, að svipað gildi um það fóður, sem ætlað er til manneldis? Það væri strax framför, þótt við fengjum ekki að vita nema eitthvað af því, sem krafist er vegna skepnufóðurs.“

Víða brotalamir
Neytendavernd er vissulega meiri en fyrir hálfri öld. það virðist þó ærið verkefni að  tryggja að allir framleiðendur, innflytjendur og seljendur fari eftir settum lögum og reglum. Skemmst er að minnast iðnaðarsaltsmálsins sem vakti upp spurningar um innra eftirlit þeirra matvælafyrirtækja sem hlut áttu að máli og fálmkennd viðbrögð Matvælastofnunnar sem mörgum fannst bregðast seint og illa við. Stutt er síðan rannsókn Neytendasamtakanna, Náttúrulækningafélagsins og Matvæla- og veitingafélagsins leiddi í ljós að hér eru seldar erfðabreyttar matvörur sem þó eru ekki merktar eins og reglur kveða á um. Þá er rétt að minnast á skýrslur sem erlendar eftirlitsstofnanir hafa gert um stöðu mála í kjöt- og mjólkurframleiðslu hér á landi. Allt of mörg dæmi eru um brotalamir, sérstaklega í sumum kjötiðnaðarstöðvum.  Eftirlitið er m.a. gagnrýnt fyrir litla eftirfylgni og gerð er athugasemd við að það treysti um of á upplýsingar frá framleiðendum sjálfum.

Aukið traust mikilvægt
Það er mjög mikilvægt að neytendur beri traust til bæði framleiðenda og eftirlitsaðila. Ein leið er að gera eftirlitsskýrslur og úttektir aðgengilegar, t.d. á netinu. Þá er eðlileg krafa að þeir sem brjóta lög borgi sektir því eins og staðan er í dag virðist fælingarmátturinn afar lítill. Eftirlitið getur ekki andað ofan í hálsmálið á framleiðendum, það segir sig sjálft. Við verðum að gera þá kröfu að framleiðendur fari eftir settum reglum og að sama skapi eigum við að geta treyst því að eftirlitið sé virkt og grípi til aðgerða þegar þess er þörf. Það er varla til of mikils mælst.
Brynhildur Pétursdóttir
Greinin birtist í "Matur er mannsins megin" blaði MNÍ þann 11. október 2012