Höfundaréttur eða neytendaréttur?

Föstudagur, 30. október 2009
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

 

Þegar ég var í háskólanum var einn kennara minna indælismaður sem hafði þó þann skrítna ávana að húðskamma þær örfáu hræður sem mættu tímanlega í fyrsta tíma fyrir það hvað mætingin væri léleg. Oft fór stór hluti kennslustundarinnar í þetta en varla er hægt að segja að tilgangnum hafi verið náð. Skammirnar bárust aldrei til eyrna þeirra nemenda sem kúrðu heima í bóli og verkuðu fremur letjandi á okkur sem þó mættum. Ef valið stóð milli þess að lúra aðeins lengur eða mæta og láta skamma sig var valið nefnilega ekki erfitt.

Þegar ég set dvd-disk í spilarann minn hugsa ég oft til þessa kennara. Ég er nefnilega ein af þeim (ákaflega fáu, ef eitthvað er að marka málflutning sumra höfundaréttarhafa) sem kaupi og á einungis löglega mynddiska. Þegar ég horfi á löglegu diskana mína er mér þó fyrst gert að horfa á langa auglýsingu um það að ég mundi nú varla stela bíl, tösku eða sjónvarpi. Áður en mér leyfist að horfa á löglega keyptu kvikmyndina mína er ég því komin með hvínandi móral yfir því að tilheyra yfirhöfuð hópi áhorfenda, sem eru greinilega flestir harðsvíraðir glæpamenn, sem hafa þann tilgang æðstan að gera að engu ævistarf og lifibrauð annarra.

Eins og í kennslustundunum forðum velti ég fyrir mér tilgangnum með þessum skömmum og áróðri. Ólíklegt er að þeir stórglæpamenn sem stunda ólöglegt niðurhal myndefnis horfi mikið á þetta myndskeið og satt að segja langar mig aldrei jafnmikið til að stela myndefni eins og eftir áhorfið – bara til að hefna mín á þeim sem neyða mig til að horfa á þessi ósköp.

Fræðsla er nefnilega af hinu góða – áróður og skammir ekki.

Mig langar auðvitað ekki til að fara illa með listamenn, eða brjóta gegn rétti þeirra og ég er meira en tilbúin til að borga sanngjarnt verð fyrir góða vöru. En hvað með minn rétt sem kaupanda? Samkvæmt lögum á ég nefnilega rétt á að afrita verk til einkanota þ.e. ef  ég ætla ekki að græða á afrituninni. Þessi heimild er afar mikilvæg í ljósi aukinnar tækni og þýðir að mér er heimilt að kaupa mér mp3-spilara eða flakkara og afrita löglegu diskana mína inn í þessi tæki. Þessi réttur minn er þó í nokkurri mótsögn við önnur ákvæði laganna og Evróputilskipun um höfundarétt. Höfundarétthöfum virðist nefnilega vera heimilt að „læsa“ diskum þannig að lögleg eintakagerð til einkanota er gerð ómöguleg. Þetta er gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir framleiðslu og dreifingu ólöglegra eintaka, sem er auðvitað skiljanlegt, en er þó dulítið í ætt við það að banna akstur einkabifreiða af því að sumir aka drukknir.

Hvað er þá til ráða fyrir neytendur sem vilja nýta sér þá tækni sem til er, eins og mp3-spilara og flakkara? Ef lögleg afritun er ekki tæknilega möguleg?

Ef ég vil setja afrit af öllum löglegu diskunum mínum á flakkara er eina leiðin að fara á vafasamar síður og sækja ólögleg eintök. Ef ég vil nýta mér lögleg tæki á borð við mp3-spilara og flakkara verð ég því í raun að gerast lögbrjótur.

Nú fer fram heildarendurskoðun höfundalaga og eru áætluð verklok árið 2012, svo þess má vænta að endurskoðunin verði bæði vönduð og yfirgripsmikil. Jafnframt fer fram stöðug endurskoðun reglna um höfundarétt á vettvangi Evrópubandalagsins. Það er von mín að sú vinna verði til þess að höfundarétthafar horfist í augu við tækniþróun og að neytendum verði gert kleift að gera lögleg eintök af löglega keyptu efni og nýta til þess löglegan tæknibúnað.

Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur Neytendasamtakanna og fulltrúi í Höfundaréttarráði.