Hættum að henda mat − borðum hann

Þriðjudagur, 1. nóvember 2011
Brynhildur Pétursdóttir

 

„Ein mikilvægasta bók um umhverfismál sem komið hefur út undanfarin ár. Fáar bækur hafa gert mig jafn reiðan.“ Þannig komst gagnrýnandi Financial Times að orði eftir að hafa lesið bókina Waste -  uncovering the global food scandal eftir Tristram Stuart. „Ein af þessum bókum sem allir ættu að lesa. Hún gæti breytt viðhorfi okkar til matar um ókomna tíð,“ segir gagnrýnandi The Independent.  

Mat sóað í stórum stíl
Sú jákvæða athygli sem bókin hefur fengið kemur ekki á óvart. Með rökstuddum hætti rekur Tristram þau gríðarlega neikvæðu umhverfisáhrif sem sóun matvæla hefur í för með sér. Hann bendir á að ekkert hafi haft jafn mikil áhrif á vistkerfi jarðar og nútíma landbúnaður. Eftirspurn eftir mat í einum heimshluta þrýstir á um aukna landnýtingu hinum megin á hnettinum og stórum landsvæðum er breytt í ræktunarland, oft á kostnað mikilvægra vistkerfa svo sem regnskóga. Það er því sláandi hversu mikill hluti matvæla endar á ruslahaugum. Með aðeins broti af þeim matvælum sem er hent í heiminum væri hægt að fæða þá tvo milljarða manna sem svelta.

Auðveldasta leiðin til að hætta að sóa mat
Neytendablaðið sló á þráðinn til Tristrams og spurði hann fyrst hvernig hann fékk áhuga á sóun matvæla.
„Sem umhverfisverndarsinni uppgötvaði ég að ein auðveldasta leiðin í baráttunni fyrir betra umhverfi er að hætta að sóa mat. Það er í raun einfalt skref sem krefst ekki mikilla breytinga á lifnaðarháttum en er jafnframt gríðarlega mikilvægt því eins og málum er háttað í dag er matvælaframleiðsla heimsins ósjálfbær.“
Tristram nefnir einnig að hann hafi á unglingsárum alið gyltu sem lifði aðallega á afgöngum sem hann viðaði að sér. „Einn daginn ákvað ég að smakka brauðið sem var ætlað gyltunni og komst að því að það var í fullkomnu lagi og reyndar betra en brauðið sem ég var vanur að kaupa úti í búð. Ég varð forviða yfir því að matvælum sem voru fullgóð til manneldis væri hent og að þessi sóun ætti sér stað úti um allan heim.“ 

Ætilegt í ruslatunnum
Tristram segir þetta að einhverju leyti hafa verið upphafið að lífsstíl sem gengur út á að hirða ætilegan mat sem hefur verið hent. Hann segir eðlilegt að það veki sterk viðbrögð þegar fólk heyrir talað um slíkt „sorptunnugrams“. „Eðli málsins samkvæmt ætti auðvitað ekkert ætilegt að finnast í ruslatunnum. Markmiðið með þessum lífsstíl er einmitt að sýna fram á hversu fáránleg þessi sóun er.“
Aðspurður segir Tristram að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir því hversu miklu er hent af mat og hversu víðtæk og neikvæð umhverfisáhrif þessu sóun hafi. „Það var einmitt markmiðið með bókinni að upplýsa um þá sóun sem á sér stað á öllum stigum og útskýra hvers vegna nauðsynlegt sé að snúa þróuninni við. Og það er tiltölulega einfalt með því að sóa minna.“


Fæstir geta eflaust ímyndað sér að nokkuð ætilegt sé að finna í ruslapokum verslana en myndirnar í bókinni leiðrétta slíka ranghugmyndir. Á þessari mynd má sjá úrval ávaxta og grænmetis sem verslunin Waitrose hafði hent.

Kjötframleiðsla óumhverfisvæn
Í bókinni er fjallað um þau neikvæðu umhverfisáhrif sem framleiðsla á kjöti hefur í för með sér. Tristram segir að í eina tíð hafi búfénaður verið látinn borða gras eða afganga sem maðurinn gat ekki nýtt með það fyrir augum að af búfénaðinum fengist síðan kjöt til manneldis. Nútímalandbúnaður á Vesturlöndum gengur hins vegar út á að fóðra dýrin í stórum stíl á fæði sem við gætum borðað sjálf. „Því meiri sem eftirspurnin er eftir kjöti því meira fóður þarf að rækta með tilheyrandi landnýtingu og skógarhöggi. Það væri því skynsamlegt og ábyrgt að borða minna af kjöti og mjólkurvörum þar sem búfénaðurinn er alinn á korni og öðrum ræktuðum afurðum.“

Bjartsýnn á breytingar
Við lestur bókarinnar er ekki laust við að manni fallist hendur því sóunin er svo gríðarleg. Er yfirhöfuð hægt að snúa þróuninni við?
„Það efast ég ekki um, og umræðan um þetta vandamál hefur aukist mikið, sérstaklega í Bretlandi en líka í öðrum löndum. Ég sé þegar breytingar þannig að það er engin ástæða til annars en bjartsýnni. Lausnin á vandanum snýst í raun um heilbrigða skynsemi. Við eigum að borða matinn, ekki henda honum.“Tristram Stuart, höfundur Waste, er sagnfræðingur með gráðu frá hinu virta Trinity College í Cambridge. Hann hefur skrifað bækur og pistla um matvæli og umhverfismál og hefur vakið mikla athygli fyrir baráttu sína gegn sóun á matvælum.
Mynd: Alice Albinia

Viðtal við Tristram Stuart birtist í Neytendablaðinu 3.tbl.2010

 

Sjá Neytendablaðið sept.2010 bls.21 (PDF)