Hagnaðarsprenging bankanna er staðreynd

Þriðjudagur, 11. nóvember 2003
Jóhannes Gunnarsson

 

Það var margt í síðasta Neytendablaði sem vakti mikla athygli og umræðu. Þar á meðal var grein um bankana undir fyrirsögninni "Hagnaðarsprenging bankanna - á kostnað viðskiptavina". Meðal annars sendu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) frá sér fréttatilkynningu sem ekki verður komist hjá að gera athugasemd við vegna ýmissa rangfærslna og útúrsnúninga sem þar komu fram.

Vaxtatekjur og þjónustutekjur
Sú fullyrðing Neytendasamtakanna (NS) stendur óhögguð að hagnaðaraukning viðskiptabankanna þriggja á fyrri hluta þessa árs megi rekja að stærstum hluta til aukningar í hreinum vaxtatekjum og þjónustutekjum eða alls 55 prósent af hagnaðaraukningunni. Þá er það einnig staðreynd að þrír fjórðu af hreinum rekstrartekjum eiga rót sína að rekja til hreinna vaxtatekna og þjónustutekna.

Þegar SBV segja að 77 prósent af hagnaði bankanna sé vegna gengishagnaðar þá er um algera vanþekkingu á reikningskilum fyrirtækja að ræða eða hreinar rangfærslur. Gengishagnaður nam 6,2 milljörðum króna á fyrri helmingi þessa árs, en hreinar rekstrartekjur (en gengishagnaður er einn af undirþáttum rekstrartekna) námu alls rúmlega 30 milljörðum á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Þannig nam gengismunur rétt rúmlega fimmtungi af rekstrartekjum.

Það er einfaldlega rangt að reikna hlutfall milli tekna af gengismun og hagnaðar eins og SBV gera og fá út 77 prósent. Því er sú fullyrðing NS rétt að hagnaðarauki bankanna á þessu ári skýrist að stærstum hluta af auknum vaxtamun og hærri þjónustutekjum. Því er við að bæta að 75 prósent af rekstrartekjum bankanna koma af vaxtamun og þjónustutekjum.

Vaxtamunur eykst fremur en hitt
SBV fullyrða að íslenskir bankar hafi náð góðum árangri í að lækka vaxtamun á síðustu árum. Hið rétta er að vaxtamunur hefur ekkert lækkað á undanförnum árum. Óþarfi er að deila um slíkar staðreyndir. Undanfarin sex ár (að þessu ári meðtöldu skv. áætlaðri afkomu viðskiptabankanna) hefur vaxtamunur bankanna verið rétt um 3,1 prósent að meðaltali, lægstur árið 2000 og 2002 eða 2,9 prósent, og hæstur 3,3 prósent árið 2001. Vaxtamunur hefur ekkert lækkað á síðustu árum eins og SBV fullyrða. Þvert á móti, tölur frá þessu ári benda til að vaxtamunur fari frekar hækkandi en lækkandi.

SBV draga í efa fullyrðingu NS um að alger sprenging hafi orðið í þjónustutekjum á þessu ári. Á fyrri hluta þessa árs jukust þjónustutekjur bankanna um 34 af hundraði meðan umsvif bankanna jukust um 11 af hundraði. Því er ljóst að þóknunartekjur hafa vaxið langt umfram veltu bankanna á þessu ári. Réttnefni á slíku er tekjusprenging.

Þá er vert að huga að því að þjónustutekjur aukast mjög mismunandi milli banka. Þannig aukast þessar tekjur aðeins um 7 prósent hjá Íslandsbanka, 51 prósent hjá Kaupþingi-Búnaðarbanka og 32 prósent hjá Landsbankanum. Þetta er þeim mun athyglisverðara þar sem ætla má að starfsemi bankanna þriggja sé mjög keimlík. Vert væri að fá svar við þessu mikla misræmi í aukningu þjónustutekna.

Þá leitast SBV við að breiða yfir þá staðreynd að viðskiptabankarnir voru að skila eigendum sínum mun hærri ávöxtun eigin fjár en önnur stór íslensk atvinnufyrirtæki. Í opinberum uppgjörum skráðra atvinnufyrirtækja fyrir fyrri helming þessa árs (fyrirtækja annarra en banka, fjármálafyrirtækja og tryggingafyrirtækja) kemur fram að arðsemi eigin fjár var að meðaltali 12 prósent en rúmlega 17 prósent hjá bönkunum þremur. Því stendur sú fullyrðing óhögguð að arðsemi bankanna hafi verið mun meiri en annarra skráðra atvinnufyrirtækja á þessu ári.

Óhagstæður samanburður við Norðurlönd
Þá er fullyrt í fréttatilkynningu SBV að íslenskir bankar standist fyllilega verðsamanburð við banka á öðrum Norðurlöndum. Þessi fullyrðing er gjörsamlega út í hött og er vandséð hvaðan SBV hafa slík "vísindi". Það rétta er að íslenskir bankar eru til muna dýrari en bankar á öðrum Norðurlöndum og víðast hvar í okkar nágrannalöndum.

Í skýrslu frá verðbréfa- og fjármálafyrirtækinu Moody´s Investors Service frá því maí 2002 um norræna banka kemur fram að vaxtamunur og kostnaður íslenskra banka sé miklum mun hærri en á hinum Norðurlöndunum. Þannig var meðalvaxtamunur íslenskra banka árin 1998-2001 um 3 prósent en 1,2 prósent í Danmörku, 1,4 í Svíþjóð, 2,3 í Noregi og 1,9 prósent í Finnlandi.

Munurinn milli Íslands og hinna Norðurlandanna eykst til muna þegar þjónustutekjum er bætt við vaxtamuninn. Þá er meðaltalið hjá viðskiptabönkunum þremur hér á landi um 4,3 prósent en 1,7 í Danmörku, 2,1 í Svíþjóð, 2,9 í Noregi og 2,7 prósent í Finnlandi. Þá skal bent á að bæði stjórnarformaður Íslandsbanka og forstjóri bankans hafa nú nýverið einmitt bent á hvað íslenska bankakerfið sé dýrt og mun dýrara en í nágrannalöndunum. Í því ljósi er fullyrðing SBV um að íslenskir bankar séu samkeppnishæfir í verði vægast sagt stórfurðuleg.