Hálkuslys og möguleg skaðabótaskylda

mánudagur, 5. janúar 2015
Hrannar Már Gunnarsson

 
 Slysin gera sjaldan boð á undan sér. Yfir vetrartímann er ekki óalgengt að gangandi vegfarendur slasist vegna hálku og auk þess hefur borið á því að neytendur hafi slasast vegna bleytu í verslunum eða öðrum fasteignum. Þegar svo ber undir vakna oft spurningar um hver beri ábyrgð á tjóninu og hvort eðlilega hafi verið staðið að málum hvað varðar öryggi á svæðinu, og hvort eðlilegar varúðarráðstafanir hafi verið gerðar.

Mikilvægt er að neytendur séu meðvitaðir um stöðu sína ef þeir lenda í líkamstjóni og geti þá leitað réttar síns. Hér á landi er veðurfar margbreytilegt og land oft erfitt yfirferðar. Íslendingar eru meðvitaðir um þessa staðreynd og fylgjast að jafnaði vel með fréttum af veðri, sérstaklega þegar viðbúið er að það verði slæmt. Þrátt fyrir þetta getur veðurfar komið á óvart og stundum frystir til að mynda á mjög skömmum tíma. Ísing eða hálka getur þannig í raun myndast öllum að óvörum og hefur það oft í för með sér óhöpp. Miðað við það hversu algeng hálkuslys virðast vera þá eru dómar tengdir þeim furðu fáir. Skýringar á því eru ef til vill margar, en til dæmis verður að hafa í huga að slys sem þessi eru oftar en ekki óhappatilvik og engum að kenna.

Ábyrgð á tjóni ‒ sakarreglan
Þegar metið er hvort vegfarandi sem lent hefur í líkamstjóni vegna hálku eigi rétt á skaðabótum af þeim sökum kemur til skoðunar hvort orsök tjónsins megi rekja til sakar einhvers. Sakarreglan er meginreglan þegar kemur að hálkuslysum hér á landi og hefur verið það um langa hríð. Samkvæmt reglunni ber tjónvaldur ábyrgð á því tjóni sem verður vegna háttsemi hans eða vanrækslu, þ.e. athafnar eða athafnaleysis. Reglan tekur þannig ekki til tjóns sem verður vegna óhapps.

Tjóni þarf alla jafna að vera valdið með athöfn, en þó getur athafnaleysi einnig verið nægilegt. Þegar kemur að hálkuslysum er einmitt algengast að skaðabótaskylda sé byggð á því að tjónvaldur hefði átt að bregðast við hálku með því að fjarlægja hana eða koma í veg fyrir hana, en hafi vanrækt þá skyldu sína. Það er svo þess sem verður fyrir tjóninu, þ.e. tjónþola, að sanna að sök hafi verið til staðar.

Hver ber ábyrgð?
Þegar slys verða við opinberar byggingar er það yfirleitt í verkahring húsvarðar eða annars eftirlitsmanns fasteignarinnar að fylgjast með óæskilegri hálkumyndun og koma í veg fyrir að hætta skapist. Við verslunarhúsnæði hvílir þessi skylda á starfsmönnum eða eiganda verslunarinnar og þegar um íbúðarhús er að ræða er það íbúi hússins eða eigandi þess sem bera þessa ábyrgð.

Vanræki þessir aðilar skyldur sínar og tjón hlýst af geta þeir þurft að greiða tjónþola skaðabætur. Af framangreindu leiðir að ef einstaklingur lendir í hálkuslysi fyrir utan fasteign í eigu annars aðila kemur fyrst til skoðunar hvort slysið hafi orðið með einhverjum þeim hætti sem rekja megi til þess síðarnefnda. Þannig þarf tjónþoli að sýna fram á að eigandi fasteignarinnar hefði átt að bregðast við hálkunni á einhvern hátt, til dæmis með því að salta eða sanda. Í þessum málum er því alltaf skoðað hvort aðili hafi verið skyldugur til athafna á grundvelli stöðu sinnar sem eigandi fasteignarinnar og þá hvort athafnaleysi hans baki honum skaðabótaskyldu á grundvelli skaðabótaábyrgðar fasteignareiganda.

Slys við verslanir
Af dómaframkvæmd má ráða að það skipti máli hvar slys vegna hálku eiga sér stað, þ.e. hvort um er að ræða opinberar byggingar, verslunarhúsnæði eða íbúðarhúsnæði. Þannig virðast vera gerðar ríkari kröfur til eigenda verslunarhúsnæðis um að sjá til þess að hálka myndist ekki fyrir utan verslunina heldur en til dæmis til eiganda íbúðarhúsnæðis. Er þetta eðlilegt þegar haft er í huga að eigendur verslana óska eftir viðskiptum almennings og eiga því að hafa allt aðgengi í lagi. Þannig verður gönguleið inn og út úr verslun að vera örugg fyrir vegfarendur. Þegar skoðað er hvort vegfarandi, sem slasast fyrir utan verslun, eigi rétt á skaðabótum skiptir því miklu máli hvernig slysið bar að. Ef rekja má slysið til vanrækslu á öryggisskyldum verslunareiganda yrði það nægjanlegt til þess að skaðabótaskylda stofnaðist. Ef hins vegar væri um að ræða atvik sem verslunareigandi hefði enga stjórn á, til dæmis ef það frýs mjög snögglega eða ef verslun er lokuð þegar slys á sér stað, yrði verslunin líklega ekki skaðabótaskyld.

Slys við opinberar byggingar
Mikill fjöldi fasteigna hér á landi eru opinberar byggingar og má sem dæmi nefna skóla, skrifstofuhúsnæði, ráðuneyti, bókasöfn og íþróttamannvirki. Vegna fjölda þeirra hafa eðlilega þó nokkur hálkuslys átt sér stað við slíkar fasteignir og nokkur mál ratað til dómstóla. Af dómaframkvæmd má ráða að rík skylda sé lögð á starfsmenn opinberra fasteigna að fylgjast með mögulegri hættu. Ber umsjónarmanni fasteignar eða húsverði þannig að fylgjast með myndun hálku á opnunartíma húsnæðis og bregðast við ef líklegt þykir að hættuástand geti skapast. Ef hálka myndast yfir nótt eða þegar húsnæðið er lokað væri eðlilegt að starfsmaðurinn brygðist við um leið og opnað er að nýju. Það myndi teljast vanræksla ef það væri látið bíða að ástæðulausu.  

Hver er ábyrgð  almennra húseigenda? 
Minnstar kröfur virðast vera gerðar til eigenda íbúðarhúsnæðis. Þrátt fyrir það hafa fallið dómar þar sem skaðabótaskylda hefur verið lögð á eigendur íbúðarhúsnæðis vegna vanrækslu við að fjarlægja klaka sem gerir aðgengi að húsinu hættulegt. Hafa þá starfsmenn póstþjónustu og gestkomandi slasast, sem og vegfarendur sem hafa gengið framhjá. Það virðist skilyrði skaðabótaskyldu að eigandi húsnæðisins hafi verið meðvitaður um hálkumyndun og í aðstöðu til þess að bregðast við henni. 

Vínberjahálka og illa skúrað
Ofangreind sjónarmið um slys vegna hálku eiga í raun flest einnig við um slys vegna bleytu. Flest tjón þeirra sem leitað hafa til dómstóla vegna bleytuslysa hafa átt sér stað inni í verslunum, stofnunum eða íþróttamannvirkjum. Ástæða bleytunnar getur auðvitað verið margvísleg. Sem dæmi má nefna slys sem hafa orðið vegna bleytu sem myndast hefur eftir að ávextir detta á gólf verslunarinnar. Hafa viðskiptavinir þá runnið til og oft slasast illa við fallið. Þá skiptir miklu máli hvort verslunin eða starfsmenn hennar bera ábyrgð á tjóni viðskiptavinarins, þ.e. hvort einhver sök sé til staðar. Ef starfsmenn verslunarinnar hafa t.d. vanrækt að tína upp staka ávexti af gólfi verslunarinnar getur slíkt athafnaleysi bakað versluninni skaðabótaábyrgð á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar. Ef starfsmenn hefðu ekki getað vitað af ávextinum, til dæmis ef hann var nýfallinn á gólfið áður en slysið átti sér stað, er engin vanræksla til staðar og þar af leiðandi engin sök hjá starfsmönnum verslunarinnar. Þegar atvik eru með þeim hætti hafa dómstólar hafnað bótaskyldu. Þegar bleyta hefur myndast vegna þess að verið er að skúra gólf skiptir til dæmis máli hvort varúðarskilti hafi verið notað og hvort viðskiptavinur hafi sýnt þá varkárni sem búast má við í þeim aðstæðum. Það getur einnig skipt máli hvort blöndun hreinsiefna hafi verið eðlileg, enda getur röng samsetning valdið hættulega sleipu undirlagi. 

Ber sá slasaði sjálfur ábyrgð?
Háttsemi tjónþola sjálfs getur einnig haft mikla þýðingu. Eigin sök tjónþola getur valdið því að skaðabætur verði lægri en ella, eða falli jafnvel alveg niður. Það fer eftir atvikum hverju sinni hvort tjónþoli hafi sýnt af sér háttsemi sem réttlætt geti skerðingu á skaðabótaábyrgð tjónvalds, til dæmis verslunar. Ölvun eða annars konar vímuástand tjónþola er dæmi um háttsemi sem gæti haft áhrif. Einnig getur það eitt að tjónþoli hafi ekki verið nægilega varkár haft þýðingu. Við matið er reynt að skoða hvernig góður og gegn maður hefði hagað sér við sömu aðstæður og athugað hvort háttsemi tjónþola hafi að einhverju leyti brugðið frá því.

Í stuttu máli 
Hér hefur verið fjallað stuttlega um þær reglur sem gilda þegar kemur að líkamstjóni vegfarenda vegna hálku eða bleytu. Ef gangandi vegfarandi rennur til vegna hálku og slasar sig hefur það grundvallarþýðingu hvort um óhappatilvik er að ræða eða hvort einhver ber mögulega sök á tjóninu. Það er þá undir tjónþola komið að sanna sök tjónvalds, til dæmis  verslunarrekanda, og sýna fram á að hann hefði átt að bregðast við hálkunni á einhvern hátt. Mismunandi kröfur virðast vera gerðar til húseigenda eftir því hvort um er að ræða verslunarhúsnæði, opinbera byggingu eða íbúðarhúsnæði, en mestar kröfur virðast gerðar til verslunareigenda. Eigin sök tjónþola getur haft þýðingu við ákvörðun skaðabóta og haft þær afleiðingar að bætur eru skertar eða falla jafnvel alveg niður. Varðandi líkamstjón vegna bleytu gilda sambærileg viðmið og þegar kemur að hálkuslysum. Þar þarf einnig að sýna fram á sök tjónvalds og er algengast að um mögulegt athafnaleysi tjónvalds sé að ræða, þ.e. að bregðast hefði átt við bleytunni og koma í veg fyrir að slysahætta stafaði af henni. Ef sú sönnun tekst ber tjónvaldur skaðabótaábyrgð á tjóni tjónþola samkvæmt almennum reglum.

Hrd. 1999:231.
Kona ætlaði að heimsækja vinkonu sína, en hún var töluvert ölvuð og mikil hálka var úti. Vinkona hennar hafði ráðið henni frá því að koma, því tröppurnar að íbúð hennar væru mjög varasamar. Konan ákvað þrátt fyrir þetta að fara í heimsóknina og þegar hún gekk niður tröppurnar slasaðist hún illa vegna hálkunnar. Hún höfðaði skaðabótamál gegn húseigendum og taldi aðgengi að íbúðinni ekki forsvaranlegt. Öllum kröfum hennar var hins vegar hafnað á þeim forsendum að slysið mætti rekja til ástæðna sem vörðuðu hana sjálfa, þ.e. ölvunar og óvarkárni hennar.

Hrd. 1996:1002.
Kona slasaðist illa á fæti þegar hún datt í hálku fyrir utan verslun í Reykjavík. Talið var óumdeilt að hálkubletturinn hefði ekki verið svo nýtilkominn að ekki hefði verið hægt að bregðast við honum. Þar sem um var að ræða verslun sem sóttist eftir viðskiptavinum var skaðabótaskylda talin vera til staðar. Starfsmenn verslunarinnar hefðu átt að fylgjast með myndun hálkunnar og bregðast við henni áður en hætta stafaði af henni.

Hrd. 29/2011.
Viðskiptavinur slasaðist er hann rann á gólfi verslunar vegna döðlu sem legið hafði á gólfinu. Deilt var um hvort um væri að ræða skaðabótaskyldu vegna saknæmrar vanrækslu starfsmanna verslunarinnar, en héraðsdómur féllst á að svo væri. Hæstiréttur komst hins vegar að annarri niðurstöðu og taldi starfsmenn ekki hafa getað brugðist við þessu þar sem daðlan hefði verið nýfallin á gólfið þegar slysið átti sér stað. Taldi Hæstiréttur þetta því óhappatilvik og að engin skaðabótaskylda hvíldi á versluninni.

HGH
Neytendablaðið 3.tbl.2014
 

Hálkuslys og möguleg skaðabótaskylda