Heimila á tollfrjálsan innflutning á nautakjöti

Föstudagur, 30. maí 2014
Jóhannes Gunnarsson

 

Nautakjöt hefur hækkað mikið í verði að undanförnu. Ástæðan er einföld, í kjölfar skorts á mjólkurfitu fyrir síðustu jól með tilheyrandi innflutningi á írsku smjöri voru mjólkurbændur hvattir til að auka mjólkurframleiðslu sína en um leið var dregið úr nautakjötsframleiðslunni.

Afleiðingin er einföld, bændur urðu við þessu kalli sem hefur leitt til skorts á innlendu nautakjöti. Framboð á nautakjöti er einfaldlega allt of lítið miðað við eftirspurnina. Sem dæmi má nefna að Nóatún sem lagt hefur ríka áherslu á að í kjötborðum þeirra sé aðeins innlent kjöt, getur ekki lengur staðið við það þegar kemur að nautakjötinu.

Nú í maímánuði hækkaði verð á nautakjöti mikið til bænda enda slást sláturleyfishafar hart um hvern þann skrokk sem í boði er og yfirbjóða hvern annan. Síðan hækkar verið frá sláturleyfishafa til kjötiðnaðarstöðvar og þaðan til verslunarinnar. Það eru svo neytendur sem borga brúsann af öllu þessu í gegnum hálftóma budduna.

Samkvæmt heimildum Neytendasamtakanna hækkaði verð á nautakjöti frá slátursleyfishöfum um 20% fyrr í þessum mánuði og hefur jafnvel heyrst um enn meiri hækkanir.

En það er einnig fróðlegt að skoða verðþróun á nautakjöti síðustu 12 mánuði, þ.e. frá apríl 2013 til apríl 2014 samkvæmt mælingum Hagstofunnar. Þar kemur fram að vísitala neysluverðs án húsnæðis hefur hækkað um 1%. Ef litið er til einstakra kjöttegunda hækkaði kjöt að meðaltali um 1,6%, lambakjöt um 1,5% en bæði svínakjöt og kjúklingar hafa lækkað í verði á þessu tímabili, svínakjötið um 1,6% og kjúklingurinn um 0,4%, Nautakjötið hefur hins vegar hækkað um 5,9% á þessu sama tímabili.

En hver verður svo hækkunin til neytenda á nautakjöti kemur í ljós þegar Hagstofan gefur út næstu mælingu sína sem verður 28. maí. Vonandi sem minnst en það er þó ástæða til að hafa verulegar áhyggjur. Ef miðað er við hækkun á tímabilinu frá apríl 2013 til maí 2014 gæti verðhækkunin farið í 20% eða meira á þessu tímabili. Verum þess jafnframt minnug að einstakar matvörur eru í innbyrðis samkeppni sín á milli og á það ekki síst við um kjöt. Í versta falli gæti þetta einfaldlega leitt til almennrar verðhækkunar á kjöti.

En er eðlilegt að hægt sé að valta yfir neytendur á þennan hátt til að tryggja þrönga hagsmuni framleiðenda? Að sjálfsögðu ekki. Þessu er aðeins hægt að svara á einn hátt, að stjórnvöld heimili tollfrjálsan innflutning á nautakjöti. Allt annað er óvirðing við neytendur. Þá má ekki gleyma að takmarkað framboð á nautakjöti hækkar ekki aðeins verð á því heldur einnig verðtryggð íbúðarlán heimilanna.

Jóhannes Gunnarsson
formaður Neytendasamtakanna

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 29. maí 2014