Höldum virðisaukaskatti á matvörum óbreyttum

mánudagur, 20. október 2014
Jóhannes Gunnarsson

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar þar sem m.a. er lagt til að virðisaukaskattur á matvæli hækki úr 7 í 12% eru rakin nokkuð mörg dæmi um áhrifin sem þessar breytingar eiga að koma til með að hafa á hag heimilanna í landinu. Við nánari skoðun á þessum tölum hafa hins vegar margir sopið hveljur enda virðist ráðuneytið miða við fremur fjarstæðukenndar tölur þegar kemur að matarinnkaupum. Þannig er gert ráð fyrir að hjón með tvö börn eyði 75.330 kr. í matvæli á mánuði, eða sem svarar 628 kr. að meðaltali á mann á dag. Miðað við þær forsendur er í sama dæmi gert ráð fyrir að hækkun skattar á matvæli hafi ámóta áhrif á hag þessarar fjölskyldu og niðurfelling vörugjalda, og að heildaráhrif á ráðstöfunartekjur þessarar fjölskyldu, verði frumvarpið að lögum, verði jákvæð.
 

Vanmat hjá fjármálaráðuneytinu

Þessar tölur um matarinnkaup eru sagðar byggðar á neyslukönnun Hagstofu Íslands. Samt hefur komið fram í fjölmiðlum að tölur ráðuneytisins þegar kemur að fjögurra manna fjölskyldu eru 32.000 kr. lægri en tölur Hagstofunnar. Hagstofan gerir ráð fyrir að útgjöldin séu að meðaltali 107.000 kr. á mánuði meðan ráðuneytið metur þau á 75.000 kr. og reiknar áhrif skattabreytinga á þá fjölskyldu samkvæmt þeim forsendum. Fram hefur komið að ráðuneytið hafði ekki samráð við Hagstofuna við þessa vinnu.
 

Ef horft er til neysluviðmiðs sem velferðarráðuneytið er með á heimasíðu sinni eyðir fjögurra manna fjölskylda rúmum 125.000 kr. í mánaðarleg innkaup á dagvörum. Inni í þeirri tölu eru raunar hreinlætisvörur, en þeir sem kaupa til heimilisins vita að vægi hreinlætisvara er óverulegt miðað við matvörur. Hinsvegar gerir svo neysluviðmiðið einnig ráð fyrir kaupum á veitingum að upphæð tæplega 30.000 kr., og er því neysluviðmið velferðarráðuneytisins töluvert hærra en tölur Hagstofunnar.
 

Samkvæmt framansögðu er ljóst að fjármálaráðuneytið vanmetur kostnað heimilanna vegna kaupa á matvörum verulega. Sú spurning hlýtur óneitanlega að vakna hversvegna það er gert. Það fyrsta sem greinarhöfundi dettur í hug er að með þessu sé ráðuneytið að gera minna úr þeim auknu útgjöldum sem heimilin verða fyrir með fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts. Varla eru það mannleg mistök, enda hefur komið fram að ráðuneytið standi við sínar tölur. Þannig virðist tilgangurinn beinlínis hafa verið sá að slá ryki í augu neytenda enda virðist ljóst að hækkun á verði matarkörfunnar verður mun meiri en stjórnvöld hafa haldið fram. Þá er jafnframt ljóst að verði þessi áform að veruleika mun það bitna harðast á efnaminnstu heimilunum, sem eyða hærra hlutfalli tekna sinna í mat en þau efnameiri, og eiga varla til hnífs og skeiðar nú þegar. Raunar er í athugasemdum með frumvarpinu gert ráð fyrir því að einstætt foreldri með tvö börn komist af með 44.700 kr. til matarkaupa á mánuði, en ég sel þær tölur nú ekki dýrar en þær voru keyptar.
 

Verjum 7% matarskatt

Neytendasamtökin hafa lagst eindregið gegn því að virðisaukaskattur á matvæli verði hækkaður og er þessum áformum m.a. mótmælt í ályktun sem stjórn samtakanna sendi frá sér um miðbik septembermánaðar. Þá verður að gefa lítið fyrir þau rök að afnám vörugjalda og lækkun á hærra virðisaukaskattsþrepi komi til með að jafna þessa hækkun út. Sá sem á ekki fyrir hveiti vantar ekki nýjan ofn til að baka brauð í; og skiptir þá engu hversu ofninn hefur lækkað í verði. Þá hefur það sýnt sig að lækkun gjalda er mun ólíklegri til að skila sér í buddu neytenda en hækkun þeirra.

Bryndís Loftsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst andstöðu sinni við þessar hugmyndir og jafnframt opnað síðu á Facebook undir heitinu „Verjum 7% matarskatt”. Um leið og ég lýsi ánægju minni með frumkvæði Bryndísar hvet ég alla sem þetta lesa til að „læka” þá síðu.

Jóhannes Gunnarsson
Grein þessi birtist í DV 17. október 2014