Hver erfir hvern?

Þriðjudagur, 1. júlí 2014
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Erfðaskrá getur verið mikilvæg

Fæst hugum við að því að gera erfðaskrá og vissulega er gerð slíkra plagga hvorki mjög skemmtilegt né rómantískt verkefni. Flest viljum við þó að okkar nánustu sé fjárhagslega borgið eftir okkar dag, og í samfélagi þar sem hin gamla góða kjarnafjölskylda verður sífellt sjaldgæfari er nauðsynlegt að huga að þessum málum. Það er t.d. algengur misskilningur að nægilegt sé að vera í sambúð svo erfðaréttur stofnist. Látist sambúðarmaki er fræðilega mögulegt að sýna fram á, þá alla jafna í dómsmáli, hlutdeild í eignum búsins (hafi eignaaukning orðið á sambúðartímanum og báðir aðilar stuðlað að henni) þó allar eigur séu skráðar á hinn látna en um erfðarétt er ekki að ræða. Hér á eftir verður skoðað hver erfir hvern eftir mismunandi fjölskyldugerðum. Í stuttu máli eru erfðir þannig að ef hinn látni á börn eða maka (skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða gagn- eða samkynhneigt hjónaband) taka þeir aðilar arf eftir hann. Í slíkum tilvikum má viðkomandi aðeins ráðstafa 1/3 eigna sinna til annarra með erfðaskrá. Ef hinn látni á hvorki börn né maka og hefur ekki gert erfðaskrá renna eignir hans til foreldra hans, eða systkina hans ef foreldrar eru látnir. Séu systkini líka látin gengur arfurinn til systkinabarna eða barna þeirra, en séu engin slík skyldmenni til staðar gengur arfurinn til afa og ömmu hins látna eða barna þeirra.

Barnlaus hjón
Hugsum okkur par í barnlausu hjónabandi. Við andlát mannsins erfir konan allar eigur hans. Þegar konan deyr svo skiptast hins vegar eigurnar milli erfingja hennar og mannsins (sem eru þá alla jafna foreldrar þeirra, systkini eða systkinabörn). Eigi konan hins vegar enga slíka erfingja á lífi við andlát sitt renna eignir hennar til erfingja mannsins.

Hjón og börn þeirra
Ímyndum okkur par sem giftist og eignast börn saman, en hvorugt á börn fyrir. Hér eru erfðamálin einföld og skiptir ekki máli hvort hjónanna andast fyrr; hitt erfir þriðjung eigna þess látna og börnin 2/3. Þá má það þeirra sem lengur lifir sitja í óskiptu búi og þarf ekki samþykki barnanna fyrir því. Erfðaskrá er óþörf en hvort hjóna um sig má þó ráðstafa 1/3 eigna sinna með erfðaskrá, t.d. til hagsbóta fyrir eitt barna sinna eða til góðgerðarfélags.

Hjón og stjúpbörn
Hugsum okkur svo par sem giftist en maðurinn á tvö börn af fyrra sambandi sem búa hjá móður sinni og hún hefur forsjá þeirra. Ef hann deyr á undan konunni erfir hún þriðjung eigna hans (eignir hans eru alla jafna helmingurinn af heildareignum búsins) en börnin rest. Ef hann hefur ekki mælt fyrir um það í erfðaskrá má konan ekki sitja í óskiptu búi nema með leyfi móður barnanna (eða barnanna sjálfra eftir að þau eru orðin fjárráða). Ef ekki fæst leyfi fyrir setu í óskiptu búi verður ekkjan því að skipta upp búinu og greiða börnunum þeirra hlut. Þegar konan deyr svo, sem barnlaus ekkja, eftir að búinu hefur verið skipt, ganga eignir hennar til foreldra hennar, eða systkina ef foreldrarnir eru látnir. Stjúpbörn taka þannig ekki arf, jafnvel þó þau hafi búið á heimili hins látna. Við þær aðstæður á hún þó enga skylduerfingja og er því frjálst að gera erfðaskrá þar sem allar eigur hennar ganga t.d. til vina hennar eða góðgerðarstarfsemi. Fái konan hins vegar að sitja í óskiptu búi til dánardags skiptast eignir búsins að jöfnu milli erfingja hennar og barna mannsins, en hennar erfingjar erfa ekki þann þriðjung eigna mannsins sem hún erfði við andlát hans. Ef konan deyr hins vegar á undan er maðurinn eini skylduerfingi hennar og hafi hún ekki gert erfðaskrá ganga allar eigur hennar til hans. Við andlát hans ganga svo allar eigur búsins til barna hans.

Hjón, stjúpbörn og sameiginleg börn
Ímyndum okkur svo hjón sem eiga sitt barnið hvort fyrir hjónaband og eignast eitt barn saman. Þau fara sameiginlega með forsjá barns konunnar og sameiginlega barnsins en fyrri sambýliskona mannsins fer með forsjá þriðja barnsins. Deyi maðurinn án þess að gera erfðaskrá fær konan 1/3 eigna hans og barnið hans og barn þeirra hjóna sinn þriðjunginn hvort. Þriðja barnið á hins vegar ekki rétt á arfi eftir manninn. Konan þarf að greiða barni mannsins sinn arf nema móðir þess heimili sérstaklega að hún sitji í óskiptu búi. Ef konan deyr hins vegar á undan erfir maðurinn 1/3, sameiginlega barnið 1/3 og barn konunnar 1/3. Maðurinn má þá sitja í óskiptu búi þar sem hann fer áfram með forsjá barnsins sem konan átti fyrir hjónaband.

Ógift barnlaust par
Hugsum okkur svo par sem ákveður að vera í sambúð án þess að ganga í hjúskap og gerir enga erfðaskrá. Þau eignast engin börn en eiga nokkrar eignir sem allar eru skráðar á konuna. Tekjur mannsins fara að mestu í framfærslu og neyslu heimilisins en tekjur konunnar í að bæta við eignarhluta sinn. Þegar konan deyr svo án þess að skilja eftir sig börn eða giftast ganga eigur hennar til foreldra hennar, eða systkina ef þeir eru látnir. Maðurinn á því ekki rétt á arfi eftir konuna. Þar sem hún var ógift og barnlaus hefði henni þó verið frjálst að gera erfðaskrá þannig að maðurinn fengi allar eigur hennar.

Ógift par og börn af fyrra sambandi
Að endingu má ímynda sér ógift par í sambúð, en hvort um sig á tvö uppkomin börn. Til að flækja málin enn er konan ekkja og situr í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Í þessu tilviki má maðurinn ráðstafa 1/3 eigna sinna með erfðaskrá (t.a.m. til konunnar) en konan á í raun aðeins helming eigna „sinna“ þar sem restin er óskiptur föðurarfur barna hennar og getur hún því ráðstafað 1/6 eigna búsins með erfðaskrá, þ.e. 1/3 sinna eigna en ekki föðurarfi barnanna. Í þessu tilviki stofnast enginn réttur til setu í óskiptu búi, og ekki er heldur heimilt að mæla fyrir um slíkan rétt í erfðaskrá, og hafi parið t.a.m. búið í fasteign sem aðeins maðurinn er skráður fyrir þarf konan, við andlát hans, að láta börn mannsins hafa fasteignina. Hafi maðurinn átt mjög miklar eignir (þannig að umrædd fasteign nemi aðeins 1/3 af heildareignum) getur hann þó ánafnað konunni fasteigninni í erfðaskrá.

Hildigunnur Hafsteinsdóttir
Grein þessi birtist í Neytendablaðinu 1.tbl.2014