Hyggindi sem í hag koma

Þriðjudagur, 31. janúar 2012
Sveinn Ásgeirsson

 Sveinn Ásgeirsson heitinn sem var hagfræðingur og fyrrum formaður Neytendasamtakanna flutti erindi í Ríkisútvarpið 22. Júlí 1958 og nefndi það „Hyggindi sem í hag koma“. Sveinn kvað hinar víðtæku verðhækkanir,sem þá áttu sér stað, vera tilefni erindis, enda þótt efni þess ætti jafnt við á flestum tímum. Það hefur komið á daginn að margt af því sem hann sagði, á ennþá fullt erindi við neytendur.

HYGGINDI SEM Í HAG KOMA

Neytendasamtökin hafa lítt látið verðlagsmál til sín taka enn sem komið er, en það byggist fyrst og fremst á því að þau eru yfirleitt daglega til umræðu meira eða minna í blöðum landsins og eins hitt að verðlagsmál eru svo oft nátengd stjórnmálunum.

Það eru því nógir til að fjalla um þau, enda er því vart að neita að aðrar hliðar á hagsmunamálum neytenda falla oft í skugga verðlagsins. Þar má minna á gæði vöru og dreifingu hennar, hvernig þjónusta er af hendi leyst og með hvaða skilmálum o.s.frv.

Neytendasamtökin þyrftu að vera margfalt fjölmennari en þau eru til að verða svo öflug, að þau gætu vænst þess að geta haft áhrif á efnahagsráðstafanir stjórnmálaflokka.

Neytendasamtökunum er oft bent á að gera þetta eða hitt og þess jafnvel krafist af þeim. En verkefnin eru nógu mörg og það vantar ekki fólk til að benda á þau, heldur til að leggja fram þann litla skerf að gerast meðlimir í samtökunum og stuðla á þann hátt að því að hægt sé að sinna fleiri verkefnum til hagsbóta fyrir meðlimi þeirra og alla neytendur þessa lands.

Í þetta sinn skulum við láta okkur nægja að líta í eigin barm og athuga, hvort sá háttur, sem við höfum á útgjöldum okkar sé hinn hyggilegasti. Ef við gætum þar einhverju umbreytt til batnaðar, án þess að við þyrftum jafnvel að láta neitt á móti okkur, þá jafngildir það tekjuaukningu og það meira að segja skattfrjálsri með öllu.
Útgjöld manna til nauðsynjavara munu nú aukast verulega, en fyrir langflesta munu útgjöldin í heild hækka mun minna, þar eð tekjurnar aukast ekki svo skjótt. Hinir ýmsu útgjaldaliðir breytast því hlutfallslega, og það er nauðsynlegt að menn geri sér sem nákvæmasta grein fyrir því, hvernig þær breytingar verða, því að það getur auðveldað mönnum að mæta hinum víðtæku verðhækkunum.

Það mun óhætt að fullyrða að það sé fremur fágætt hérlendis að fólk skrái niður útgjöld sín. Okkur virðist vera heldur ósýnt um slíka nákvæmni að hafa bókhald yfir dagleg útgjöld, stór og smá. Þeirri dyggð hefur lítt verið hampað, og ef til vill eru menn hræddir um það að slíkt myndi þykja smámunarsemi og gert yrði grín að þeim. En það ætti þó að vera hægt að hafa slík bókhald með leynd – aðeins fyrir sjálfan sig. Enda er það aðalatriðið, að menn fái með því sem gleggst yfirlit yfir útgjöldin og hina einstöku liði þeirra, en alls ekki það að geta lagt það fram fyrir einhvern dómara.

Hér er ekki ætlunin að hvetja menn til að skrifa niður útgjöld sín seint og snemma allt árið um kring, heldur ætti mönnum að leika nægileg forvitni á því að kynnast sínum eigin útgjöldum og samsetningu þeirra, að þeir hefðu úthald til að skrá  niður eitthvert ákveðið tímabil, t.d. mánuð. Það gæti orðið þeim mikils virði. Menn kynntust betur vöruverði, sæju svart á hvítu, hversu miklu þeir verðu í þetta og hitt og það gæti m.a.s. verið fróðlegt fyrir margan að fá að vita, hver heildarútgjöld hans hefðu verið á tímabilinu, því að margur eyðir meir en hann aflar, en gerir sér ekki einu sinni grein fyrir því.

Slíkt daglegt bókhald yfir visst tímabil er í rauninni skilyrði fyrir því að menn geti gert hyggilegar áætlanir varðandi útgjöld sín, áætlanir, sem ætla mætti að fengju staðist því að þær þyrftu ekki að byggjast á því, að menn létu neitt á móti sér, heldur að menn breyttu útgjöldunum þannig, að meira fengist fyrir peningana en áður fékkst, vegna vanþekkingar eða gáleysis.

Segja má að húsmæður séu innkaupastjórar stærsta fyrirtækis landsins, en það eru heimilin. Ekki er fjarri lagi að áætla að húsmæður hérlendis ráðstafi um 1000 milljónum – einum milljarði – króna árlega til heimilanna. Það veltur því á miklu, að húsmæðurnar geri sér sem gleggsta grein fyrir mikilvægi hvers útgjaldaliðs, fyrir vöruverði og gæðum. Það er ekki nóg, þótt lofsvert sé að vera allur af vilja gerður til að spara í þeirri merkingu að kaupa sem minnst, heldur að fá sem mest fyrir peningana, að kaupa af hyggindum.

Og það er hægt að kaupa á býsna mismunandi hátt. Það er hægt að hringja og panta heim hitt og þetta án þess að spyrja um verð og láta kaupmanninn ráða, hvaða tegund er send og leggja svo ekki einu sinni saman reikningana eða bera þá saman við það sem heim er sent.

Auðvitað eru kaupmenn jafnheiðarlegir og annað fólk, en það er mannlegt að skjátlast og svo er kaupmaður þó alltaf kaupmaður eða hygginn sölumaður, sem er alveg jafn sanngjarnt og það, að húsmóðirin sé hygginn kaupandi. Það hlýtur að vera betra að velja vörurnar sjálf, og kjörbúðirnar auðvelda það tvímælalaust, en viti húsmóðirin nákvæmlega, hvaða vörur hún vill og er kunnugt um verðið, þá skiptir heldur engu máli, þótt hún noti símann.

Það krefst áhuga og árvekni að fylgjast með því, sem gerist á markaðnum, með verðlagi og vörugæðum. Gæðamat og gæðamerkingar skortir enn hér á landi, en erlendis fer slíkt vaxandi til mikils hagræðis og öryggis fyrir neytendur. En vöruþekkingar getur hver og einn aflað sér á ýmsan hátt.  Það er nauðsynlegt að kynna sér það, sem út er gefið til leiðbeiningar um vöruval, og það er t.d. mjög auðvelt og ódýrt að fá það heimsent sem Neytendasamtökin hafa gefið út í því skyni. Menn skyldu hafa það hugfast, að það þarf líka þekkingu til að spyrja, þannig að gagn sé að, þegar verið er að versla.

Það er þörf stóraukinnar fræðslu fyrir afgreiðslufólk, sem ræður mjög miklu um vöruval almennings. En það er engu minni þörf á fræðslu fyrir neytendur, og reyndar er það svo að kaupendanámskeið eru haldin í ýmsum löndum. Að sjálfsögðu er hér ekki um strangan skóla að ræða heldur auðskiljanlega fræðslu og leiðbeiningar, sem geta komið sér vel á ísi hinnar daglegu vörukaupa, en á honum eru tíðum margar vakir.

Menn skyldu hafa það hugfast að framboð hlýtur að mestu leyti að fara eftir eftirspurn og sé keypt af hyggindum og kunnáttu þá hefur það holl áhrif á vöruframboðið. Fákunnugir og kærulausir kaupendur geta ekki átt von á fyrsta flokks vörum. Neytendasamtökin geta stóraukið áhrif neytenda á vöruframboð og veitta þjónustu en til þess þurfa sem flestir að vera í þeim samtökum. Það er engin fórn og allt að vinna,  en þó tekur það langan tíma að efla þau sem skyldi.

Það er ekki nema eðlilegt, að þeir sem aldrei gera sér far um að kynnast nánar sínum eigin búskap, botni oft lítið í því, hve fljótir peningarnir séu að fara og hvert þeir fara. En hafi menn bókhald yfir útgjöld sín t.d. í mánaðartíma, þá þurfa þeir ekki lengur að spyrja sjálfa sig, hvert peningarnir hafi farið, heldur hvort þeir hafi þangað farið, sem þeim er best varið. Og þá eru menn farnir að spyrja skynsamlega.

En hvers ber þá helst að gæta fyrir kaupandann? Hvað er það, sem aðallega er brýnt fyrir fólki  á kaupendanámskeiðunum til dæmis?

„Vandið vel til allra kaupa“. Svo nefnist kaupendanámskeið í Danmörku á vegum neytendasamtaka þar og segja má að það hljóti að vera meginboðorðið. Í framhaldi af því er óhætt að segja:

    „Frestið kaupum, ef um einhver vafaatriði er að ræða.“ Fljótfærni veldur algengustu mistökunum.

    Aflið ykkur vöruþekkingar. Það er miklu auðveldara en flestir halda.

    Skrifið niður öll útgjöld yðar ákveðið tímabil, t.d. 3. Eða 4. Hvern mánuð. Um leið kynnist þér betur vöruverði og breytingum þess.

    Kaupið þér vörur með ábyrgð, þá athugið nákvæmlega, hvað í henni felst. Kauptu með skýrum fyrirvara um endurgreiðslu eða skipti, ef það er hugsanlegt að til slíks gæti komið. Biðjið um dagsettan reikning, þegar þér gerið kaup, sem máli skipta. Komi galli á vöru í ljós, þá gerið seljanda viðvart, eins fljótt og kostur er.

    Það er staðreynd að lágt verð táknar ekki lélega vöru og hátt verð er engin trygging fyrir bestu gæðum.

    Verslið gegn staðgreiðslu og veljið vörurnar sjálf.

    Kaupið aðeins það, sem þér þurfið, í dag, svo að þér þurfið ekki að vera án þess, sem þér þarfnist á morgun.
    

Sveinn Ásgeirsson
Fv.formaður Neytendasamtakanna
Erindi flutt í Ríkisútvarpip 22. júlí 1958